25.11.1975
Sameinað þing: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

25. mál, húsnæðismál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mál þetta hefur verið æðilengi á döfinni hér á Alþ. og nú eru senn liðin 6 ár síðan fram kom í nál. menntmn. Nd. að nauðsyn bæri til að löggjöf yrði sett um þetta efni hér á Alþ. Það er álit allra þeirra sem til þekkja að löggjöf af því tagi, sem hér um ræðir, sé algert frumskilyrði þess að kvikmyndagerðarlist nái að festa rætur hér á Íslandi og dafna, og með þetta í huga fluttum við fyrst á þinginu 1973–1974 frumvarp um kvikmyndasjóð. Ég vil láta það koma hér fram að þetta frv. var sent hæstv. menntmrn. til umsagnar vorið 1974 og þá barst umsögn sem fól það í sér að rn. óskaði eftir að fá meira ráðrúm til þess að kanna frv. þetta í samráði við önnur stjórnvöld, eins og sagði í bréfi frá rn., og þá aðila aðra sem helst hafa um þessi mál fjallað, þessari athugun yrði væntanlega lokið næsta haust, um það bil er Alþ. kemur aftur saman. — Það er sem sagt eitt og hálft ár síðan þetta bréf var sent rn og enn er málið á döfinni. Enn hefur ekki mikið gerst í málinu af hálfu rn.

Eins og fram kom í svari hæstv. menntmrh. á að heita svo að málið sé enn í athugun, og verð ég að viðurkenna að mér finnast það ekki nægilega góð svör, því að ég tel að þetta mál sé búið að vera allt of lengi í athugun. Ég vil sem sagt aðeins nota þetta tækifæri til þess að skora mjög eindregið á menntmrh. að sjá til þess að þetta mál dragist nú ekki öllu lengur en orðið er. Því var á s. l. vori vísað til ríkisstj., eins og sagði í þeirri till. sem um það var samþ. í trausti þess að rn. legði fyrir þetta þing í upphafi þess nýtt frv. um kvikmyndasjóð. Af þessu hefur enn ekki orðið, því miður, en ég vil sem sagt eindregið mælast til þess við hæstv. ráðh að hann sjái til þess, þó að þetta hafi enn ekki orðið, að það dragist ekki miklu lengur en orðið er.