25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

69. mál, aðgerðir til að draga úr tóbaksreykingum

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur nokkrir þm. að flytja á þskj. 74 svo hljóðandi till. til þál.

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að gera till. um samhæfðar aðgerðir af hálfu opinberra aðila til þess að draga úr tóbaksreykingum íslendinga. N. skal sérstaklega taka til umfjöllunar annars vegar tillögugerð um fyrirbyggjandi ráðstafanir, svo sem með hvaða hætti árangursríkast verði hagað upplýsingastarfsemi um skaðsemi tóbaksreykinga, og hins vegar gera till. um skipulagt námskeiðahald á vegum hins opinbera eða með þátttöku þess fyrir tóbaksneytendur, er vilja hætta eða draga úr tóbaksneyslu sinni. Í þessu sambandi verði sérstök áhersla lögð á baráttu gegn tóbaksneyslu skólafólks.

Í störfum sínum hafi n. samráð við þá aðila er um slík mál sem hér um ræðir hafa fjallað til þessa. Niðurstöður n. verði síðan grundvöllur aðgerða hins opinbera til aukinnar baráttu gegn tóbaksreykingum.“

Þannig hljóðar tillaga þessi.

Ég held það þurfi ekki að fara mörgum orðum um hversu alvarleg heilsufarsleg hætta er samfara tóbaksreykingum. Fyrir því liggja nú þegar óhrekjandi sannanir vísindamanna hve illvænleg áhrif tóbaksreykingar hafa á heilsufar manna. Þannig hefur verið sannað að tóbaksreykingar eru mjög oft bein orsök lífshættulegra sjúkdóma í öndunarfærum og hjarta- og æðakerfi, og það er athyglisvert og áhyggjuefni að það hefur komið í ljós við samanburðarrannsóknir að þessir hættulegu sjúkdómar hafa farið í vöxt í réttu hlutfalli við auknar tóbaksreykingar. Þessar niðurstöður hafa gildi fyrir sérhverja þjóð og við íslendingar erum þar ekki undantekning. Það má því líta á tóbaksreykingar sem slíkan skaðvald fyrir heilsufar þjóðarinnar að því má jafna við hættulegar farsóttir. Slíkar hafa afleiðingar tóbaksreykinganna orðið fyrir heilsufar manna.

Að sjálfsögðu verða bæði þjóðfélagið og einstaklingar þess að draga réttar niðurstöður af þessum staðreyndum, því að hér er aðeins farið með staðreyndir, en ekki ósannar fullyrðingar. Það má ekki lengur líta á tóbaksneyslu sem óæskilegan ávana, heldur sem stórhættulega sjúkdómaorsök, sem ber að berjast gegn. Með nákvæmlega sama hætti og barátta var á sínum tíma háð fyrir því að útrýma aðstæðum, sem ollu hárri tíðni ýmissa sjúkdóma sem þjóðin átti einkum við að stríða, svo sem berkla, holdsveiki, sullaveiki o. s. frv., en útrýming þeirra var fyrst og fremst að þakka baráttu gegn aðstæðum sem orsökuðu þessa sjúkdóma, eins ber nú að heyja baráttu gegn þeim aðstæðum sem orsaka öðrum fremur háa tíðni hjarta-, æða- og lungnasjúkdóma, þ. e. a. s. gegn tóbaksreykingum.

Samfélaginu ber að sjálfsögðu skylda til þess, hafa forustu um slíka baráttu, eins og samfélagið hefur forustu um hvers konar baráttu til heilsuverndar sem háð er, og jafnframt ber samfélaginn skylda til þess að aðstoða þá einstaklinga sem orðið hafa háðir tóbaksnautn, en skilja nú hættuna henni samfara og vilja hætta reykingum. Þeim mun ríkari er skylda ríkisins í þessu sambandi þegar á það er litið að einmitt ríkisvaldið hefur um margra ára og áratugaskeið verið stórtækasti dreifingaraðili tóbaks um landið og notfært reykingarnautnina sér til fjárhagslegs ávinnings.

Eins og nú standa sakir hefur nokkuð verið gert til þess að draga úr tóbaksreykingum landsmanna, en þó einkum og sér í lagi hin síðari ár eftir að uppgötvaðist og í ljós kom hversu mikill skaðvaldur tóbaksreykingar væru fyrir heilsufar manna. Bindindishreyfingin í landinu hefur ávallt varað við neyslu tóbaks. Krabbameinsfélag Íslands hefur haft með höndum mjög árangursríka upplýsingarstarfsemi og félagið Hjartavernd sömuleiðis. Þá hefur Íslenska bindindisfélagið, sem er angi af Aðventistasamtökunum skipulagt námskeið fyrir reykingarmenn sem vilja hætta að reykja, og hafa þau námskeið borið ótrúlega góðan árangur, þannig að mér er sagt að um 60% af þeim, sem hætt hafa að reykja á þessum námskeiðum, hafi ekki hafið reykingar að nýju.

Ríkisvald og Alþ. hafa einnig lagt nokkuð af mörkum í þessu sambandi. Hinn 7. apríl 1971 voru þannig samþ. á Alþ. lög sem banna auglýsingar á tóbaki á opinberum vettvangi eða öllu heldur í blöðum og öðrum fjölmiðlum, en hins vegar banna þessi lög ekki auglýsingar á tóbaki á öðrum vettvangi og með öðrum aðferðum, eins og hv. þm. er sennilega um kunnugt. jafnframt var ákveðið með lagabreyt. frá 1971 að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skyldi verja 2% tekna af brúttósölu tóbaks til þess að auglýsa skaðsemi þess. Þetta verk hefur haft með höndum svonefnd samstarfsnefnd um reykingavarnir, en í þeirri n. eru fulltrúar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, forstjórar hennar, fulltrúar frá Krabbameinsfélagi Íslands og sá þriðji frá Hjartavernd. Eins og menn hafa væntanlega veitt athygli hefur n. á stuttum tíma náð talsverðum árangri með andróðursstarfi sínu gegn reykingum, einkum og sér í lagi síðan á s. l. vori, þegar í stað þess að dreifa auglýsingum gegn reykingum var ákveðið að fara sérstakar herferðir þar sem auglýsingar yrðu skipulagðar í útvarpi, sjónvarpi og blöðum yfir skamman tíma. Þessar auglýsingar hafa orðið ákaflega árangursríkar. En við skulum gera okkur grein fyrir því að það fé, sem n. hefur handa á milli í þessu skyni, er ekki gríðarlega mikið. Það mun vera á þessu ári rétt um 4 millj. kr. sem samstarfsn. um reykingavarnir hefur milli handa til þess að auglýsa skaðsemi tóbaks eða aðeins 2% af brúttótekjum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af sölu tóbaks. En ljóst er þó að hér er hvergi nærri nóg að gert, þrátt fyrir það góða starf sem unnið hefur verið á þessum vettvangi, bæði af áhugamönnum og með þátttöku ríkisvaldsins. Samstarfsnefnd um reykingavarnir er t. d. skorinn mjög þröngur stakkur þar sem henni ber samkv. lögum aðeins að hafa með höndum auglýsingar um skaðsemi tóbaks í sjónvarpi, hljóðvarpi og blöðum, en hins vegar getur n. ekki eftir þeim starfsramma, sem lögin marka henni, leitað annarra úrræða sem ef til vill gætu borið betri árangur samfara auglýsingastarfinu. N. getur t. d. ekki fylgt hinum svokölluðu auglýsingaherferðum sínum eftir með fræðslu- eða námskeiðsstarfi, t. d. í skólum eða á öðrum opinberum vettvangi, og er mér þó kunnugt af viðræðum við nefndarmenn að þeir eru mjög umfram um að geta tekið til við slíka starfsemi að loknum hinum sérstöku herferðum.

Fræðslan, upplýsingastarfið og áróðurinn gegn tóbaksreykingum, þ. e. a. s. hinar fyrirbyggjandi aðgerðir, gætu því verið mun öflugri en nú á sér stað og er í því sambandi lögð sérstök áhersla á að benda á þá uggvænlegu þróun sem rannsóknir hafa leitt í ljós, en hún er að sífellt yngra fólk, jafnvel börn sem ekki hafa náð unglingsaldri, hefur orðið háð tóbaksnautninni. Hefur komið m. a. í ljós í sambandi við rannsóknir eða kannanir öllu heldur sem gerðar voru meðal skólabarna í barna- og framhaldsskólum Reykjavíkur, að það var ekki óalgengt að börn allt niður í 9 eða 10 ára aldur væru háð tóbaksnautn. Hér hefur mjög þokað í öfuga átt á fáum árum.

En sé margt óunnið í hinu fyrirbyggjandi starfi í baráttunni gegn tóbaksnautn, þá er þó enn meira verk óunnið hvað varðar þann þátt málsins að auðvelda þeim, sem orðið hafa tóbaksreykingum að bráð, að hljóta lækningu, því að vissulega má flokka það undir lækningu að hjálpa mönnum til þess að hætta að reykja. Hér má segja, að einvörðungu hafi komið til lofsvert framtak Íslenska bindindisfélagsins, eins og áður er sagt, en sá félagsskapur hefur haldið námskeið fyrir reykingafólk, bæði hér í Reykjavík og víðs vegar úti um land, með mjög góðum árangri. Hefur reynslan af þessum námskeiðum leitt í ljós hversu miklum árangri má ná með þessum hætti ef fé og aukið skipulag væri fyrir hendi. Væri nauðsynlegt að slík námskeið færu fram mjög reglulega sem víðast um landið, m. a. í tengslum við skólana, og meira en athugandi að gerðir yrðu sérstakir þættir um reykingavarnir til sýnis í sjónvarpi, þannig að mikill fjöldi reykingamanna gæti orðið þátttakandi í námskeiði á vegum sjónvarpsins um að hætta reykingum og notið þess styrks sem slík námskeið gætu veitt. Að sjálfsögðu hlýtur það að koma í hlut hins opinbera í þessu heilsugæslumáli sem öðrum að hafa forustuna, að reyna að samhæfa þessa starfsemi og fjármagna hana, en æskilegast væri að sjálfsögðu að fela framkvæmdina áhugamannasamtökum eftir því sem unnt væri, og ef slíkt væri ekki unnt að öllu leyti, þá yrði ríkisvaldið að reyna að annast þessa starfsemi sjálft eftir því sem æskilegast þætti hverju sinni.

Markmið þessarar þáltill. er að undirbúa slíka skipulagða baráttu gegn tóbaksreykingum og teljum við flm. að orðið sé tímabært að slíkt sé gert.

Menn ættu að gera sér grein fyrir því að viðhorfin til tóbaksreykinga hafa talsvert breyst nú á síðustu fáum árum. Fyrir aðeins örfáum árum var baráttan gegn tóbaksneyslu svo til eingöngu bundin við þá sem voru sjálfir bindindismenn, sem voru sjálfir þátttakendur í bindindishreyfingu, sem neyttu sjálfir ekki tóbaks. Nú hafa þessi viðhorf mjög breyst. Hér er ekki lengur um að ræða einskorðað baráttumál við bindindishreyfinguna í landinu eina. Einnig þeir, sem reykja sjálfir gera sér fyllilega grein fyrir því hversu varasamt athæfi hér er um að ræða og að það sé mjög nauðsynlegt að hefja baráttu gegn reykingum. Þess vegna kemur mönnum væntanlega ekkert spánskt fyrir sjónir að meðal þeirra hv. þm., sem flytja þetta mál hér á Alþ. eru menn, sem sjálfir reykja. Þetta tel ég bera vott um talsvert breytt hugarfar og breytta afstöðu til máls eins og þessa.

Það má vel vera að mönnum finnist það harla torgætt, að það sé unnt á tiltölulega skömmum tíma að breyta afstöðu manna til tóbaksreykinga. En menn skyldu minnast þess að það er ekki lengra en 30–40 ár síðan t. d. notkun munntóbaks var álíka algeng í landinu og tóbaksreykingar eru nú. Þá var á hverri einustu opinberri skrifstofu í Reykjavík hafður spýtubakki til afnota fyrir þá, sem munntóbaks neyttu, og þótti sjálfsagt og engum óeðlilegt. Nú sést þetta ekki lengur, og ég er hræddur um að það yrði skrýtið upplitið á sumum ef farið yrði að innleiða þennan gamla hátt aftur. En í staðinn fyrir spýtubakkann er öskubakkinn kominn. Hann er á sérhverri opinberri skrifstofu, hann er það húsgagn sem fylgir þeim öllum. Ég held að það gæti vel verið, ef íslendingar tækju sig saman í andlitinn og hæfu baráttu gegn tóbaksreykingum, að þeim, sem á eftir okkur koma og verða við lýði í landinu eftir 40, 50, 60 ár, þyki jafnóeðlilegt að sjá öskubakka á opinberum skrifstofum og stofnunum eins og okkar kynslóð þykir óeðlilegt að sjá þar spýtubakka, sem voru þó næsta algengir á þeim stofnunum fyrir aðeins tæpum einum mannsaldri.

Herra forseti. Ég legg svo til að till. þessari verði vísað til hv. allshn.