25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

55. mál, kjördæmaskipan

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Á þskj. 59 höfum við þrír hv. þm. leyft okkur að bera fram till. til þál., svo hljóðandi: „Alþ. ályktar að fela stjórnarskrárnefnd að leggja fram till. um breyt. á kjördæmaskipan eða kosningalögum sem miði að því jafna atkvæðisrétt kjósenda frá því sem nú er.“

Hér er hreyft mjög viðkvæmu, en brýnu máli. Deilur um kosningalög og kjördæmaskipan hafa risið oft mjög hátt á Íslandi, í íslenskum stjórnmálum, og er það ekki óeðlilegt með hliðsjón af því hversu mikilvægt þetta mál er og hversu það skiptir miklu máli þegar valið er til þings.

Þessar deilur hafa risið hæst vegna þess misræmis og þess ranglætis sem oft hefur skapast í kosningum til Alþ., — misræmis sem hefur átt rætur að rekja til þess að fólksflutningar hafa orðið miklir frá einu kjördæmi til annars, frá einum staðnum til annars, þannig að miklu færri kjósendur eru í einu kjördæmi heldur en þegar kosningalögin voru sett, Það hefur raskað mjög öllum hlutföllum og skapað slíkt ástand að við það varð ekki unað.

Það hlýtur að vera meginforsenda kosningalaga og kjördæmaskipunar að þm. séu valdir þannig til Alþ. að það gefi nokkra mynd af þjóðarvilja og sé í eðlilegum hlutföllum við skoðanir og stefnur sem uppi eru hverju sinni.

Kjördæmaskipan sú, sem við lýði er nú og lögfest var árið 1959, var studd þeim röksemdum fyrst og fremst að hún ætti að skapa aukið réttlæti og koma til móts við þessar hugmyndir um lýðræði og þjóðarvilja. Það fyrirkomulag um einmennings- og tvímenningskjördæmi, sem ríkt hafði þá um mjög langan tíma, hafði skapað slík hlutföll á þingi að það stangaðist á við réttlætis- og lýðræðisvitund flestra þegna þessa þjóðfélags.

Það skal tekið fram að við breyt., sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan síðustu áratugi, hefur ávallt verið tekið tillit til og viðurkennt að mismunandi vægi skyldi vera á atkv. eftir því hvaða kjördæmi ætti í hlut. Þannig hefur það ávallt verið viðurkennt að svokölluð strjálbýliskjördæmi þyrftu færri atkv. til að koma sínum þingmönnum að en hin þéttbýlli. Þetta kom líka fram í kjördæmaskipan þeirri sem lögfest var árið 1959, en þá var gengið út frá því að miklu færri atkv. væru á bak við hvern þm. úr velflestum strjálbýliskjördæmunum heldur en þá sem kjörnir væru héðan úr Reykjavík og Reykjanesi.

Þessi till. er ekki borin fram til þess að breyta þessari meginhugsun eða víkja frá henni, heldur til þess að laga nokkuð þá skipan, sem nú er, á þann veg að það dragi úr þeim mismun sem orðið hefur í auknum mæli frá því að kjördæmaskipanin var ákveðin 1959. Með till. fylgir tafla um breyt. á kjósendafjölda og atkvæði á bak við hvern þm., og þar kemur fram að á árinu 1960 voru 6034 íbúar að baki hverjum þm. í Reykjavík og 5205 íbúar að baki hverjum þm. í Reykjaneskjördæmi, en nú hafa þessar tölur aukist, í Reykjavík upp í 7064 og á Reykjanesi í 8789. Fjölgunin hefur orðið rúmlega 1000 íbúar í Reykjavík og um 3 500 í Reykjanesi. Á sama tíma hefur orðið nokkur fækkun í a. m. k. tveim kjördæmum öðrum.

Á síðari tímum hefur verið lögð aukin áhersla á svokallaða byggðastefnu sem hefur haft það að grundvallarmarkmiði að jafna hlut íbúanna þannig að þeir byggju við sama hlut án tillits til búsetu, og þessi stefna hefur verið studd í meginatriðum af öllum stjórnmálaflokkum og öllum stjórnmálamönnum, hvort sem þeir koma úr þéttbýli eða strjálbýli. Jafnrétti er það, sem við stefnum velflest að, bæði á sviði byggðamála, í efnahagsmálum, menningarmálum, félagsmálum o. s. frv. Það hlýtur líka að vera eðlileg krafa að við stefnum að jafnrétti í stjórnskipun með sama hætti.

Það er vissulega ekki um að ræða jafnrétti í kosningum þegar kjósendur þurfa að vera fjórfalt fleiri á bak við hvern þm. í ákveðnum kjördæmum heldur en í öðrum til þess að ná fram sínum skoðunum og sínum fulltrúum inn á þingið, og þessu þarf að breyta. Það er engin sanngirni í því að kjósendur á t. d. Reykjanesi þurfi að sitja við þann hlut að vera allt að fimmfalt fleiri á bak við þm. heldur en t. d. kjósendur í Vestfjarðakjördæmi. Þær tölur, sem ég nefndi áðan, og þessar staðreyndir, sem blasa við, lýsa svo miklu ranglæti á þessu sviði að við það verður alls ekki unað, og það er skylda Alþ. að skoða þetta mál og gera till. um breyt. á stjórnarskrá eða kosningalögum sem færa þetta til betri og réttari áttar.

Í þessari till. er ekki hreyft neinum einstökum hugmyndum um breytingar. Það er sett fram sú almenna skoðun að það skuli jafna atkvæðisrétt kjósenda án þess í sjálfu sér að benda á ákveðna leið. Hins vegar kemur margt til greina. Í umr. um kjördæmamál hefur verið hreyft hugmyndum um að breyta aftur til einmenningskjördæma, það hefur verið hreyft hugmyndum um að gera landið allt að einu kjördæmi og allt þarna á milli svo og þeirri hugmynd, sem mér finnst vera einna athyglisverðust, að breyta útreikningum við úthlutun uppbótarsæta á þann veg að fella niður þá aðferð að reikna út hlutfall á bak við frambjóðendur, en taka einvörðungu til greina atkvæðamagnið. Þannig mundi allur obbinn af uppbótarsætunum koma í hlut þéttbýlisins. Með þessu móti yrði ekki raskað þeim þm: fjölda sem einstök kjördæmi hafa nú hvað snertir kjördæmakosna þm., en að sjálfsögðu mundi þá breytast úthlutun á uppbótarsætum þannig að það kæmi frekar þéttbýlinu til góða.

Aðalatriðið í þessu máli er að mismunun sé eytt og að fyrirbyggt sé að ranglæti þrífist í skjóli stjórnarskrár og kosningalaga. Löggjöf um þessi efni má ekki stangast á við lýðræðisvitund þjóðarinnar né heldur skerða svo eða storka svo réttlætishugmyndum fólks að það fái rangar hugmyndir um þingið og um kosningar almennt.

Lagt er til að þessari till. verði vísað til stjórnarskrárnefndar sem nú situr að störfum og endurskoðar stjórnarskrána í heild sinni. Hlutverk þeirrar n. er að leggja fram till. sem allra fyrst um breyt. á stjórnarskránni og m. a. þá um kjördæmaskipan. Með samþykkt á þessari till. fengi n. nokkurt veganesti um skoðanir þær sem ríkjandi væru hér á Alþ. Það mætti líta svo á að samþykkt till. væri viljayfirlýsing Alþ. um að atkvæðisréttur skyldi jafnaður. Með því móti væri þessari meginskoðun komið á framfæri og n. gæti sniðið sínar till. í samræmi við þær hugmyndir og þær skoðanir.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um till. Mér og flm. till. fannst vera eðlilegt að þessu máli yrði hreyft hér á þingi, það væri orðið tímabært að Alþ. léti í ljós álit sitt á þessum málum og að um það yrði fjallað hér á þingi. Og það er mín von að flutningur þessarar till. geti leitt af sér nokkrar umr. í þjóðfélaginu, þannig að fram komi vilji og sjónarmið fleiri en okkar flm. Ég legg til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til allshn.