25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. forsrh. lítur ríkisstj. það, sem gerst hefur í þessum efnum, alvarlegum augum og hefur nú ítrekað mótmæli sín skriflega. En slík mótmæli eru fyrst og fremst þau formlegu mótmæli sem ekki eru tekin allt of alvarlega, hvort heldur það er gert á vegum sendiherra í London eða orðsending er hér lögð fram við sendiherra breta í Reykjavík. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að ríkisstj. geri meira, hún grípi til ákveðinna gagnráðstafana, eins og ég minntist á, og láta sem sagt ekki þessi formlegu, algengu mótmæli duga.

Ég tók eftir því að það kom fram í þessari mótmælaorðsendingu að íslenska ríkisstj. mundi ekki taka þátt í samningaviðræðum við breta um landhelgismálið a. m. k. á meðan bresku herskipin væru á Íslandsmiðum. Þetta þykir mér heldur lint orðalag, því að hér er beinlínis verið að gefa undir fótinn með að það verði haldið áfram viðræðum við þá, og við þekkjum hvernig að slíkum málum er þá staðið. Það er raunverulega haldið áfram samningaviðræðum og svo þegar þeim er nokkurn veginn lokið, þá eru herskipin látin skreppa út fyrir línuna og plaggið undirskrifað og þá er vitanlega nánast um leikaraskap að ræða. Ég álít að framkoma íslenskra stjórnvalda þurfi að vera miklu harðari í þessum efnum og hér þurfi að koma til ákveðnar aðgerðir. En hæstv. forsrh. sagði að slíkt væri til athugunar hjá ríkisstj.

Ég vil ítreka það að ég tel að réttu viðbrögðin væru þessi: að kalla okkar sendiherra heim og tilkynna síðan stjórnmálaslit ef herskipin færu inn fyrir mörkin. Síðan væri hægt að grípa til enn frekari ráðstafana sem þeir skildu kannske enn betur. Sem sagt, það sem gera þarf er það sem hefur áhrif í málinu, en ekki aðeins þessi einföldu formlegu mótmæli. Ég vil vænta þess að það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að þetta væri til frekari athugunar í ríkisstj., þýði það að hún taki afstöðu m. a. til þeirra atriða sem ég hef hér minnst á, aðgerða sem gætu dugað af okkar hálfu.