15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Varamaður tekur þingsæti

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Hv. þingdeildarmenn. Í dag fagna allir íslendingar því af heilum hug að einum stærsta áfanganum í sögu lífs og sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar hefur nú verið náð. Útfærsla fiskveiðilögsögu Íslands í 200 mílur hefur nú tekið gildi.

Áður en við göngum til dagskrár þessa fundar vil ég leyfa mér fyrir hönd Nd. Alþingis að óska þjóð okkar allri til hamingju með þennan atburð. Sérstakar árnaðaróskir vil ég fyrir hönd þd. færa þeim sem starfa við öflun og vinnslu sjávarfangs sem og þeim sem gegna því mikilvæga hlutverki að gæta og verja landhelgi Íslands.

Megi okkur auðnast að fylgja þessum mikilvæga áfanga fram með einurð og samhug, réttsýni og reisn.