25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umræður, en vil þó nota þetta tækifæri til þess að skora bæði á þingheim og alla íslendinga að standa saman í órofa fylkingu í öllum viðbrögðum og aðgerðum gagnvart þeirri ólögmætu valdbeitingu sem okkur hefur verið sýnd. Við skulum íhuga vel hvert það skref sem við tökum. Slík íhugun er ekki veikleikamerki. Hún er styrkleikamerki. Allar aðgerðir okkar skulu vera gerðar að vel yfirlögðu ráði, þannig að þær nái tilgangi sínum og færi okkur sigurinn: yfirráð yfir íslenskum fiskimiðum.