26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef beðið um orðið utan dagskrár á þessum mikla annadegi þingsins vegna þess að upp er komið mjög alvarlegt mál sem þolir enga bið að Alþ. taki föstum tökum.

Svo sem öllum hv. þm. er kunnugt hefur samstarfsnefnd um verndun landhelginnar skorað á allt launafólk í landinu að taka sér frí frá vinnu á morgun til þess að mótmæla öllum samningum við útlendinga um fiskveiðar í landhelginni og til þess að mótmæla herskipainnrás breta. Í þessu skyni höfðu verkalýðsfélög, fjórðungssambönd og landssamtök komið auglýsingum til Ríkisútvarpsins með áskorun til sinna félagsmanna um að þeir legðu niður vinnu á morgun. Við þessum auglýsingum tók auglýsingaskrifstofa Ríkisútvarpsins athugasemdalaust. Síðan gerðist það milli 11 og 12 í morgun, eða nánar til tekið laust fyrir hádegi, að sá úrskurður kom frá útvarpsstjóra að ekki mætti birta auglýsingar sem fælu í sér mótmæli gegn samningum við útlendinga í fiskveiðilandhelginni, ekki mætti birta auglýsingar, sem fælu í sér mótmæli gegn herskipainnrás breta og ekki mætti birta auglýsingar þar sem skorað væri á fólk að leggja niður vinnu. Útvarpsstjóri tjáði samstarfsnefndinni að þessi ákvörðun hefði verið tekin af lögfræðingi Ríkisútvarpsins, Þór Vilhjálmssyni, og hefði hann borið við að slíkar auglýsingar væru brot á hlutleysi útvarpsins.

Í gær birtust auglýsingar frá samstarfsnefndinni sem fólu í sér áskorun um að fólk legði niður vinnu þannig að það, sem var leyft í gær, er ekki leyft í dag.

Nú er mjög skammt síðan rigndi yfir landsmenn óteljandi áskorunum um að konur legðu niður vinnu. Þetta birti Ríkisútvarpið án nokkurra aths. og ekki var þá borið við að hér væri um hlutleysisbrot að ræða. Því er spurning mín til hæstv. menntmrh.: Hvað hefur valdið því að áskorun um að leggja niður vinnu í mótmælaskyni við landhelgissamninga við útlendinga og herskipainnrás breta er allt í einu talin hlutleysisbrot af hálfu Ríkisútvarpsins? Þetta hefur haft það í för með sér að mörg verkalýðsfélög, þ. á m. Alþýðusamband Austurlands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, hafa ekki getað komið frá sér neinum auglýsingum, þar eð þeir úrslitakostir voru settir að annað hvort væru auglýsingarnar bundnar við að auglýsa fundahöld eða þá að þeim yrði kastað í ruslakörfuna. Nú er það svo að það eru alls ekki öll verkalýðsfélög eða verkalýðssambönd á landinu sem ætla sér að halda fundi, en skora einungis á fólk að leggja niður vinnu og þau fá því engum boðum komið til sinna félagsmanna gegnum ríkisfjölmiðla. Ég vil eindregið skora á hæstv. menntmrh. að aflétta þessu banni þegar í dag til þess að verkalýðsfélögum og verkalýðssamböndum nýtist auglýsingatími Ríkisútvarps og sjónvarps í kvöld og leyfi mér að krefja hann hér skýringa á þessum úrskurði Ríkisútvarpsins.