26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

Umræður utan dagskrár

Björn Jónason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þingstörf og ekki endurtaka neitt af því sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði hér. Ég þakka henni fyrir að vekja máls á þessu og hafði reyndar hugsað mér að gera það líka.

Það, sem ég vildi segja hér, er að það er auðsætt að það hefur verið kippt í spottann í stjórn auglýsingadeildarinnar, því að það sem var, eins og hér kom fram, leyft í gær og talið þá löglegt, þ. e. a. s. áskorun til þjóðarinnar um að taka sér frí frá vinnu á morgun og mæta til útifundar, það er orðið ólöglegt í dag. Það er sem sagt staðreynd að útvarpið hefur tekið sér vald til þess að semja sjálft auglýsingarnar fyrir stærstu fjöldasamtök í landinu og því vil ég mótmæla. Ég held að slíkt hafi ekki áður skeð, að Alþýðusambandi Íslands hafi verið neitað um auglýsingar um fullkomlega löglegar athafnir, því að ég ætla að enn séu það lög í landinu að menn geti tekið sér frí frá vinnu ef þeir óska og þurfa og það sé algjörlega innan ramma allra íslenskra laga. Ég skoða þetta auglýsingabann útvarpsins eða öllu heldur sjálftöku um að semja auglýsingar fyrir stærstu fjöldasamtök í landinu sem hreina og ósvífna árás á Alþýðusamband Íslands, á verkalýðshreyfinguna í landinu og það verður áreiðanlega ekki þolað af alþýðusamtökunum.

Ég kveð mér líka hljóðs til þess að vekja athygli fréttamanna á þessum furðulegu athöfnum Ríkisútvarpsins, því að enn trúi ég því að til sé fréttafrelsi í landinu og að fréttir af þessum mótmælum okkar hv. þm. Svövu Jakobsdóttur verði ekki látnar ósagðar, hvorki í fréttum útvarps og sjónvarps né dagblaðanna. En kannske fer það svo. Það á eftir að reyna á það hvort einnig fréttin um þessi mótmæli okkar verður bönnuð eða ekki. Það er kannske næsta skref.

Ég vil sérstaklega beina orðum mínum til hæstv. menntmrh. sem ég þekki að því að vera dreng góðan og vilja ekki vamm sinn vita, að hann kippi hér í taumana áður en í frekara óefni er komið. Ég treysti honum til þess og vona að hann gefi yfirlýsingar í þá átt hér á hv. Alþ. nú þegar.