26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. utan dagskrár vil ég fyrst geta þess að í 5. og 6. gr. reglugerðar um útvarpsauglýsingar eru ákvæði sem eru ætluð til þess að koma í veg fyrir að auglýsingatímar útvarpsins séu notaðir til áróðurs með óeðlilegum hætti og eins til þess að koma í veg fyrir að texti auglýsinga sé óviðunandi að öðru leyti. Ég tel rétt, út af því að þetta mál er vakið hér upp, að rifja upp þessar tvær gr. reglnanna, með leyfi hæstv. forseta.

5. gr. er þannig:

„Auglýsingum skal um efni og lengd haga skv. óskum auglýsenda eftir því sem unnt reynist. Þó skal hafna auglýsingum ef á þeim eru eftirfarandi annmarkar:

1. Ef auglýsing brýtur í bága við íslensk lög.

2. Ef auglýsing eða heiti auglýsanda er mengað ádeilu eða hlutdrægri umsögn um stjórnmálaflokka, stefnur í almennum málum, félagsheildir, stofnanir eða einstaka menn.

3. Ef auglýsing brýtur í bága við almennan smekk eða velsæmi.

4. Ef auglýsing er ekki á réttu íslensku máli.

5. Ef auglýsa á áfengi eða tóbak.

6. Ef auglýsa á peningalán, hjónabandsmiðlun, hvers konar spádóma eða dulrænar lækningar.

7. Ef flytja á afmæliskveðjur til einstakra manna.

Auglýsingaskrifstofu er heimilt að gera breytingar á texta auglýsingar ef nauðsynlegar eru til þess að hún samrýmist þessum reglum, enda skulu breytingarnar gerðar í samráði við auglýsanda. Ef ekki næst til auglýsanda skal auglýsingu skotið á frest eða hún felld niður, fremur en að efni hennar sé verulega raskað eða gildi hennar rýrt án samþykkis hans.“

Í 6. gr. segir svo:

„Gæta skal þess stranglega að auglýsingar frá stjórnmálaflokkum eða stjórnmálafélögum eða auglýsingar í þágu slíkra samtaka séu með öllu lausar við áróður eða árásir.

Slíkar auglýsingar mega vera:

1. um fundi eða aðrar samkomur og má þá nefna fundarstað og tíma, ræðumenn, fundarefni, (sbr. þó 1. málsgr.),

2. um skrifstofur, heiti skrifstofu, stað og símanúmer og

3. leiðbeiningar til kjósenda um kosningu, t. d. utan kjörstaðar.

Auglýsingar um efni blaða, tímarita, bæklinga eða bóka skulu vera með öllu lausar við áróður eða árásir.“

Þannig er sem sagt 5. og 6. gr. sem ég áðan nefndi og fela í sér ákvæði um þetta efni. Framkvæmd þessara reglna er, eins og ég ætla að öllum hv. alþm. sé kunnugt, í höndum yfirmanna útvarpsins. Og sannleikurinn er sá, að það hefur áður þurft að beita ákvæðum þessara greina í sambandi við auglýsingar.

Ég frétti um þetta atvik fyrst núna, ég held kl. 20 mín. gengin í tvö. Ég hafði ekki séð eða heyrt auglýsingar og sem sagt ekkert heyrt um aðdraganda málsins fyrr en þá, að einn fyrirspyrjandi sagði mér frá því að hann hefði hug á að spyrjast fyrir um þetta atriði hér. Ég er þess vegna ekki kunnugur málinu í einstökum atriðum, veit ekki hvernig auglýsing hefur lítið út þegar hún kom til auglýsingastofunnar né heldur hverjar breytingar voru á henni gerðar.

Ég mun ekki eiga hlut að því að rifta ákvörðunum stjórnenda útvarpsins um þetta atriði eða önnur nú eða í annan tíma með skyndiaðgerðum. Komi upp ágreiningur, eins og t. d. hér hefur upp komið, verður auðvitað um hann fjallað skv. lögum og starfsvenjum, og má þá m. a. vísa til 7. gr. í þessum reglum, en þar segir einmitt:

„Sé hljóðvarpsdeild í vafa um hvernig með auglýsingu skuli fara skv. reglum þessum skal bera auglýsinguna undir útvarpsstjóra. Heimilt er útvarpsstjóra að skjóta vafaatriðum undir úrskurð útvarpsráðs. Snerti vafaatriði óhlutdrægni ber að leggja það fyrir útvarpsráð ef þess er kostur.“

Þú hef ég, herra forseti, lokið svari mínu til hv. fyrirspyrjenda.