26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það vantar nú ekki nema nokkrar vikur upp á að 30 ár séu liðin síðan ég byrjaði að vinna hjá Ríkisútvarpinu. Ég hef fylgst allnáið með starfsemi þess á þessu tímabili. Ég staðhæfi að ekkert fordæmi sé um það að auglýsingu frá stéttarsamtökum, sem ná til hér um bil 3/4 hluta landsmanna, hafi verið synjað á þeim forsendum sem hér um ræðir.

Við skulum gá að því, að hér voru ekki stjórnmálaflokkar að koma á framfæri pólitískum áróðri. Það var ekki verið að auglýsa tilraunalækningar eða áfengi eða tóbak. Það var verið að hvetja landsmenn til þess að sýna samstöðu, þá samstöðu sem gjarnan hefur verið rætt um nú síðustu dagana af hálfu íslenskra ráðherra, samstöðu í landhelgismálinu gegn erlendu ofbeldi, samstöðu um málstað Íslands í landhelgismálinu. Við vitum ósköp vel að hér var tekið í spotta, eins og hv. þm. Björn Jónsson orðaði það. Við vitum ósköp vel að yfirstjórn útvarpsins var falið með pólitískri pressu að koma í veg fyrir þessar auglýsingar. Það virðist sem sagt samrýmast málstað ríkisstj. í landhelgismálinu að koma í veg fyrir það að landsmenn geti látið í ljós vilja sinn.

Samkv. upplýsingum hæstv, menntmrh. mun verða fjallað um það a. m. k. fram yfir helgi hvort leyfa eigi að auglýsa í Ríkisútvarpinu fundi og löglegar félagslegar aðgerðir sem samrýmast lýðræðisvitund hvers einasta ærlegs manns aðgerðir sem fram eiga að fara á morgun.

Afstaða hæstv. menntmrh. til þessa máls, sem hann kvaðst ekki hafa vitað um fyrr en klukkan að verða hálftvö, benda til þess að upphaf á afgreiðslu þess þingmáls, sem fjalla á um í dag, eigi að vera í grunsamlega miklu samhengi við eðli þess.