26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég held það liggi alveg ljóst fyrir hvers vegna breyting hefur orðið á frá því í gær og þar til í dag. Þá fyrst er ljóst varð hve samstaðan var mikil innan launþegasamtakanna um þessar aðgerðir, þá fyrst þegar það varð ljóst hve þessi samstaða, hve þessi eindregni vilji kom viða frá, þegar það var ljóst þá orsakaði það vissa hræðslu sem orsakaði aftur visst valdboð, hvaðan svo sem það er komið. Þetta held ég að sé alveg ljóst. Og það er auðvitað ekki að ástæðulausu þegar samstaðan er svo ljós og greinileg sem raun ber vitni að þá verði menn hræddir.

En ég stend hér upp að alveg gefnu tilefni og ekki að ástæðulausu. Ég veit að í verkalýðsfélögunum á Austurlandi hafa nú verið haldnir fundir í stjórnum og trúnaðarráðum þessara félaga og sums staðar jafnvel lengra farið og víðar, og þar hafa menn einróma, án tillits til allra stjórnmálaflokka, samþykkt að senda slíkar áskoranir og standa að þessum málum á þann hátt sem samstarfsnefndin lagði til. Þeir hafa alveg sérstaklega nú með tilliti til þess hver er æðstur yfirmaður þessara mála, hæstv. menntmrh., m. a. góðir vinir okkar beggja, þeir hafa alveg sérstaklega viljað vita það og ekki að ástæðulausu hver afstaða hæstv. menntmrh. væri til þessa máls, hvort hann legði hér blessun sína yfir. Ég tel það því miður — og menn hafa það þá — að með orðum sínum áðan hafi hann lagt blessun sína hér yfir.