26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mér er ljóst að mest af því, sem hér er sagt, getur eins vel átt heima í umr. um dagskrármálið, en ég vil þó ekki sitja þegjandi undir því að hér komi hver þm. af öðrum og undrist það að einn þm. skuli standa upp á Alþ. og hafa eitthvað við það að athuga að þeir, sem kjörnir eru til forustu í launþegasamtökum, beiti sér fyrir hönd þeirra samtaka í algerlega pólitísku máli þar sem vitað er að meðlimir launþegasamtakanna hafa skiptar skoðanir. Vitanlega hafa forustumenn þessara samtaka rétt til að hafa sínar skoðanir eins og við öll, en að mínu viti — og ég hygg að svo hugsi fleiri — hafa þeir ekki rétt til þess að binda hendur fjölda manna sem hefur allt aðrar skoðanir þegar um annað mál er að ræða en beinlínis kjarabaráttumál.

Nú er það rétt, sem hér er haldið fram, að vitanlega snertir þetta mál kjör manna í launþegasamtökunum — og það mjög — það snertir kjör hvers einasta íslendings. Munurinn er aðeins sá, að það eru skiptar skoðanir um það hvora leiðina — samningaleiðina eða hina — á að fara til þess að bæta kjör íslendinga með þeim hætti að sem mestum árangri verði náð í landhelgismálinu. Og ég mótmæli því, að það, sem ég hef hér sagt, eigi eitthvað skylt við baráttu milli kapítalisma og verkalýðs. Það er eins og oft gerist í málflutningi ýmissa þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, að þar er ruglað saman hugtökum og reynt að finna einhverja yfirbreiðslu yfir hlutina til þess að rugla staðreyndum. Rétt eins og þegar stórpólitískar aðgerðir á að framkvæma undir flaggi verkalýðssamtaka, þá er það allt annar hlutar heldur en þegar samtök, sem vinna að pólitískum verkefnum í sinu nafni, pólitískir flokkar eða annað því um líkt, auglýsa og framkvæma sína starfsemi eða sínar aðgerðir. Því stend ég við það, sem ég hef áður sagt, að það er tilefni til þess hér að vekja athygli á því að í aðgerðum eins og forustumenn launþegasamtaka ætla sér að standa fyrir, þá er um að ræða pólitíska misnotkun á hinum fjölmennu alþýðusamtökum.