26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það var aðeins örstutt athugasemd eða raunar tvær.

Mér virtist hv. 5. þm. Vestf. og hv. 7. landsk. ekki almennilega hafa náð minni afstöðu áðan. Ég sagði sem var, ég frétti um þetta fyrst rétt fyrir kl. hálftvö, og það er best ég endurtaki orðrétt þeirra vegna það sem ég áðan sagði: „Ég mun ekki eiga hlut að því að rifta ákvörðunum stjórnenda útvarpsins nú eða í annan tíma með skyndiaðgerðum.“ Í þessu tilfelli byggist það m. a. á því, að mér eru ekki kunnug málsatvik á þessari stundu. Svo er mér nú ekki alveg ljóst hvort ég hefði vald til þess þó að ég kynni að vilja gera slíkt. En þetta vil ég að liggi alveg ljóst fyrir og minni einnig á hitt, sem ég sagði og vitnaði m. a. til 7. gr. í reglugerðinni, að um þetta mál fer á sama hátt og önnur hliðstæð mál þegar ágreiningur kemur upp, að þá gengur það sína boðleið.

En svo var það annað atriði sem ég vildi aðeins víkja að. Þrír hv. alþm., 5. þm. Vestf. 7. landsk. og 8. landsk., reyndu allir að gera það tortryggilegt að ekki hefði farið út í dag auglýsingar með sams konar textum og voru teknar í gær.

Ég held nú að flestum hljóti að vera ljóst að það þarf ekkert að vera óeðlilegt við þetta. Ég geri varla ráð fyrir því að það sé mikið legið yfir orðalagi auglýsinga dagsdaglega þó að menn líti á það. Ég geri ráð fyrir því. En í þessu tilfelli við nánari athugun og við endurtekningu á orðalagi sem ekki sýnist að dómi útvarpsstjórnenda í samræmi við ákvæðin í reglugerðinni sem ég vék að áðan, þá er auðvitað ekkert óeðlilegt við það þó að í fyrstu hafi menn ekki veitt þessu athygli, en við endurtekningu sé þetta tekið til athugunar. Og ég vil láta það koma fram hér að mér finnst ákaflega óviðfelldið, svo að ekki sé meira sagt, að hver hv. þm. af öðrum skuli koma og bera það hér á borð að útvarpsstjóri hafi verið kúgaður til rangsleitni og valdníðslu. Mér finnst það mjög óviðfelldið, og það því fremur sem ég hygg að fáir menn séu honum ólíklegri til þess að níðast á nokkru því sem honum er til trúað.