15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

5. mál, byggingarlög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði eða réttara sagt einn kafli í þessu umfangsmikla frv. sem ég tel rétt að gera hér að umræðuefni strax við 1. umr. þessa máls. Það er V. kaflinn, þar sem fjallað er um hina svokölluðu byggingarstjóra.

Því miður kemur hvorki fram í grg. frv., í ákvæðum þess né í ræðu hæstv. ráðh. nákvæm skilgreining á því: 1. hver þörf sé fyrir þessi embætti, sem þarna er verið að stofna; 2. hvaða áhrif stofnun þeirra kæmi til með að hafa á hag húsbyggjenda í landinu.

Það er ekki ljóst, hvorki af ákvæðum frv. né grg. þess, hvaða viðbótarþjónustu er verið að veita húsbyggjendum með stofnun þessarar nýju starfsgreinar eða starfsheitis. Það er þvert á móti sagt í ákvæðum frv. að þetta muni verða skilgreint í reglugerð, atriði eins og hver ábyrgð byggingarstjóra eigi að vera. Hvort hún geri það að verkum að ábyrgð þeirra, sem hafa umsjón með verkinu, verður meiri hér eftir en hingað til, um það er ekki vitað. Það er ekki heldur vitað um það hvernig ábyrgðin á að skiptast á milli byggingarstjórans annars vegar og hins vegar þeirra iðnmeistara sem taka að sér einstaka verkþætti, svo að það liggur raunar ekki fyrir frá sjónarmiði almenns húsbyggjanda í landinu hvers vegna nauðsyn sé talin á því að stofna til þessa starfsheitis, til þessa embættis í sambandi við húsbyggingar.

Þá kemur það ekki heldur nægjanlega vel fram hvaða kostnaður yrði í því fólginn fyrir húsbyggjendur í landinu að taka á sig að greiða fyrir þessa þjónustu sem þarna á að veita þeim hvort sem það er ný þjónusta eða þjónusta sem þeir fá nú þegar. Það er að vísu sagt í aths. með frv., á bls. 15 og 16, að þar sem telja megi víst að húsasmiðameistarar og múrarameistarar yrðu í flestum tilvikum byggingarstjórar við almennar húsbyggingar, jafnhliða störfum í sínum sérgreinum verði ekki séð að slíkt ætti að hafa aukakostnað í för með sér umfram það sem verið hefur í reynd. Nú liggur það auðvitað ljóst fyrir að byggingarstjórar verða ekki allir valdir úr hópi múrarameistara eða húsasmíðameistara sem þegar hafa tekið að sér ákveðna verkþætti fyrir húsbyggjendur. Það liggur auðvitað ljóst fyrir að a. m. k. við allar meiri háttar framkvæmdir verði ráðnir sérstakir byggingarstjórar. Auðvitað vinna þessir menn ekki frítt. Auðvitað þurfa þeir að fá sín laun fyrir þá vinnu sem þeir vinna. Er líklegt að þeir taki sín laun með því að álagsprósenta iðnmeistara verði lækkuð, að þeir fái laun sín greidd fyrir byggingarstjórastarfið með því móti að iðnaðarmenn, sem vinna við húsbygginguna, beri minna úrbýtum? Er það líklegt? Nei, auðvitað ekki. Auðvitað kemur húsbyggjandinn til með að þurfa að greiða þessum mönnum laun. Sé þannig komið málum að sérstakir byggingarstjórar, arkitektar eða verkfræðingar, séu ráðnir við t. d. byggingarframkvæmdir hjá því opinbera eða stærri byggingarframkvæmdir hjá einstaklingum til þess að gegna þar ákveðnum hlutverkum og fái gjald fyrir, finnst mönnum þá líklegt að þróunin verði sú hjá einstaklingunum sem eru að byggja yfir sig hús að þegar iðnmeistari, annaðhvort húsasmiðameistari eða múrarameistari, tekur að sér sama starf, að þá geri hann ekki tilkall til sömu launa og þeir sem þetta starf vinna hjá öðrum aðilum? Finnst mönnum ekki líklegt að byggingarstjóri, sem tekur að sér að hafa yfirumsjón með t. d. húsbyggingu einstaklings, ætlist til þess að fá sérstök laun greidd fyrir það? Og finnst mönnum eðlilegt í sambandi við síðustu upplýsingar. sem fram hafa komið um álagningu í sambandi við húsbyggingar, að iðnmeistarar muni ekki gera tilkall til þess að fá sérstaka þóknun fyrir þessi störf. Ég er ansi hræddur um að fyrir hinn almenna húsbyggjanda í landinu leysi þetta nýja ákvæði ekki nokkurn vanda, heldur auki þeirra vanda að sama skapi sem útgjöldin við húsasmíðina aukast hjá þeim. Það gefur auðvitað auga leið að meginvandi íslenskra húsbyggjenda er ekki sá í dag að samræma ákveðna verkþætti við sína húsbyggingu, heldur að útvega fé til þess að komast áfram. Harla lítil líkindi eru á því að byggingarstjóri taki það verk að sér fyrir húsbyggjendur að útvega þeim fé, og lítið vit er í því að samræma framkvæmdir ef ekki er hægt að fjármagna þær. Við vitum það, íslendingar, að húsnæði hér á Íslandi er óhóflega dýrt. Byggingarkostnaður í landinu er töluvert meiri en æskilegt er að hann sé og heldur en hann þarf að vera, og ég tel mjög varhugavert að bæta við liðum sem fyrirsjáanlega munu auka byggingarkostnað í landinu og útgjöld húsbyggjenda, þegar það liggur ekki hreint fyrir hvaða aukna þjónustu eða aukna fyrirgreiðslu þeir munu fá fyrir þau aukin útgjöld.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að í grg. með frv. segir að um þetta hafi verið höfð samráð við ákveðna aðila sem hafi mælt með því að þessi leið verði valin. En hverjir eru þessir aðilar? Það er Arkitektafélag Íslands. Það er Meistarasamband byggingarmanna og það er Verkfræðingafélag Íslands. Það er sem sagt leitað umsagnar hjá þeim þremur stéttarfélögum sem hafa þarna beinna hagsmuna að gæta, vegna þess einfaldlega að það er úr röðum þessara þriggja starfshópa, sem hinir nýju byggingarstjórar mundu koma. Hins vegar er ekki spurt um það, það er ekki leitað álits á því hvaða áhrif þetta mundi hafa á byggingarkostnað í landinu t. d. með því að spyrjast fyrir um slíka hluti hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, hjá aðilum eins og byggingarsamvinnufélögum, stjórn verkamannabústaða eða öðrum slíkum. Mér er fyllilega ljóst, að ekki er til neitt félag eða nein félagsstofnun húsbyggjenda sem væri hagsmunaaðili í þessu tilviki, sem hægt væri að leita umsagnar hjá. En ég vil mjög vara við því að það sé farið að lítt athuguðu máli út á þessa braut, að vera kannske að óþörfu að bæta ofan á reikninginn hjá íslenskum húsbyggjendum kostnaðarliðum sem a. m. k. til þessa hafa reynst þeim næsta óþarfir.