26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. utanrrh., — spurningar sem ég vona að muni upplýsa þetta mál dálítið betur en mér hefur þótt það upplýst til þessa ef við þeim fást sæmileg svör. Hann er nú ekki mættur og ég ætla að leyfa mér áður að fara nokkuð almennum orðum um aðdraganda þessa máls.

Okkur framsóknarmönnum hefur verið legið nokkuð á hálsi fyrir það að gefa ekki út skýlausar yfirlýsingar um andstöðu við allar veiðar erlendra aðila innan hinnar nýju íslensku fiskveiðilögsögu. Við framsóknarmenn höfum gert okkur grein fyrir því að mál þetta er æðiflókið og það er auðveldast að gefa út slíkar yfirlýsingar. Okkur hefur verið ljóst að það þarf að skoða þetta mál frá öllum hliðum, og við höfum ekki viljað dragast í hóp þeirra sem kannske í nokkurri fljótfærni hafa gefið slíkar yfirlýsingar og að því er virðist því miður oft að nokkuð vanhugsuðu máli.

Ég var að vísu þeirrar skoðunar þegar í vor, og ég hygg að flestir framsóknarmenn hafi verið svipaðrar skoðunar, að markmiðið hlyti að vera að tryggja okkur íslendingum sem allra fyrst einum yfirráð yfir íslenskri fiskveiðilögsögu og við vildum í því skyni bjóða erlendum aðilum samninga um veiðar á milli 50 og 200 mílna.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég gerði mér vonir um að með slíkum boðum gætum við friðað a. m. k. vestur-þjóðverja og e. t. v. fleiri. Nú hafa komið fram skýrslur sem virðast hafa komið eins og reiðarslag yfir æðimarga. Ég vil vekja athygli á því að íslenskir fiskifræðingar hafa reyndar lengi bent á að fiskstofnar við Ísland eru a. m. k. svo mikið veiddir að ekki má miklu þar við bæta. En í þessum nýju skýrslum eru þessar upplýsingar betur dregnar fram og munu því hafa orðið fleirum ljósar en þessar staðreyndir voru áður. Og ég segi fyrir mitt leyti, að þegar þessar upplýsingar komu fram — og raunar hafði ég aðstöðu til þess að fylgjast með þessu starfi nokkru betur en e. t. v. sumir aðrir vegna athugunar á þróun sjávarútvegsins sem fram fór á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, starfs sem unnið var í allt öðrum tilgangi en vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar, — en mér var ljóst að þeir útreikningar, sem að var unnið og lágu fyrir reyndar í frumdrögum þegar í vor, mundu sýna þetta ástand töluvert dekkra en áður hafði verið um talað. En einmitt með tilliti til þessa sýndist mér að markmiðið hlyti að vera að losna sem allra fyrst og sem hraðast við veiðar erlendra aðila á Íslandsmiðum, jafnvel með samningum ef ekki væri unnt með öðrum leiðum.

Mér sýnist að eftir þessar upplýsingar hljóti það að vera skylda hvers einasta manns að svara þeirri spurningu, hvort hann telji tryggt að við fáum að losna við veiðar erlendra aðila á Íslandsmiðum hraðar án samninga eða með samningum. Mér sýnist að hver einasti maður, sem hér stendur upp og mælir eins digurbarkalega gegn samningum og gert hefur verið, hljóti að svara þessari spurningu, og mér sýnist að þessar upplýsingar sanni að fljótfærnislegar yfirlýsingar, sem því miður hafa allt of margar verið gefnar, eiga engan rétt á sér í svo alvarlegu máli. Þetta mál verður að skoðast í grunninn, skoðast málefnalega og allar hliðar þess.

Ég geri mér grein fyrir því, að það er æðierfitt að áætla hvað erlendir aðilar veiða á Íslandsmiðum án samninga. Í fyrsta lagi fer það eftir því hvort bretar njóta hér herskipaverndar eða ekki. Í fljótu bragði sýnist mér að án herskipaverndar geti íslenska landhelgisgæslan, sem staðið hefur sig með ágætum, haldið erlendum aðilum allverulega frá íslenskum miðum, a. m. k bretum, sem eflaust yrði að beina athyglinni fyrst og fremst að. Hins vegar óttast ég að þjóðverjar mundu þá veiða nokkuð í friði. Þeir eru á fjarlægari miðum og einkum við veiðar á fiskstofnum sem eru ekki í eins yfirvofandi hættu og þorskstofninn sem bretar sækja fyrst og fremst í. Ég held að það mætti áætla að veiðar þessara þjóða yrðu þá hér á okkar miðum svona 100–130 þús. tonn á ári. Ég tel satt að segja gott ef er unnt að halda þeim neðar en það. Ef hins vegar bretar veiða á Íslandsmiðum undir herskipavernd, sýnist mér atveg ljóst að þeir geta tekið hér sín 100–130 þús. tonn, sem þeir hafa veitt hér undanfarin ár, og þá mundu þjóðverjar einnig veiða hér í skjóli þessarar herskipaverndar. Okkar landhelgisgæsla yrði önnum kafin við að eiga við breta og þeirra herskip og gæti lítt sinnt þjóðverjum. Þetta er reynsla sem við höfum fengið, og ég vísa því algjörlega á bug, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austf., að íslensku landhelgisgæslunni hafi ekki verið beitt eins og frekast var unnt.

Mér þykja það furðulegar yfirlýsingar, að það sé unnt að manna íslenska togara til þess að eiga við breskar freigátur. Ég trúi því ekki að nokkur maður mæli svo í fullri alvöru. Og ég veit að þeir, sem svo mæla, ætlast ekki til þess að á íslenskum miðum verði stórmanntjón, en það þarf litið þar að gerast ef etja á íslenskum togara gegn breskri freigátu. Ég get því alls ekki með nokkru móti stutt þær fullyrðingar, sem hér hafa komið fram í dag, að jafnvel gegn heldur slökum flota hennar hátignar getum við íslendingar haldið erlendum veiðiþjófum af okkar miðum. Ég hef ekki sannfærst um það, og raunar er ég sannfærður um að þetta er rangt og mælt meira af óskhyggju en skynsemi.

Þeir sem eru á móti samningum, eins og vitanlega við erum allir í hjarta okkar, verða einnig að svara þeirri spurningu, hvort ekki séu einhverjir almennir kostir við samninga, t. d. á alþjóðlegum vettvangi. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að úrslit hafréttarráðstefnunnar eru alls ekki enn ljós og geta farið á ýmsa vegu. Þótt þar liggi nú fyrir till. sem við erum sæmilega ánægðir með, eru þar einnig uppi háværar raddir um breytingar sem við getum alls ekki sætt okkur við, og það er vafalaust að við íslendingar þurfum þann meðbyr á þessari ráðstefnu og alþjóðlegum vettvangi sem við getum fengið til að fá þar fram þá kosti sem bestir eru. þetta þarf einnig að skoða áður en öllum samningum er vísað á bug, og þetta segi ég þrátt fyrir þá staðreynd að langsamlega helst vildi ég sjá að engir samningar þyrftu að verða, og ég geri mér grein fyrir því að allir samningar eru rannar nauðung.

Samkv. þeim nýjustu upplýsingum, sem nú eru fram komnar, er ástand fiskstofnanna á Íslandsmiðum mjög alvarlegt. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þótti nokkuð undarlegt bréf Hafrannsóknastofnunarinnar sem hér var lesið upp. Ég er því sammála að mér finnst þar vera komið inn á sálma sem vísindastofnun er lítt fær um að dæma, og ég get skilið það bréf sem fylgdi frá öðrum fiskifræðingum. Í raun og veru hefur Hafrannsóknastofnunin þegar veitt þær upplýsingar sem ættu að nægja, í mesta lagi er unnt að spyrja Hafrannsóknastofnunina að því, hvort þær veiðar, sem nú er gert ráð fyrir, íþyngi um of þeim fiskstofnum sem um er að ræða. En þessar upplýsingar liggja þegar fyrir.

Það er t. d. svo sagt, bæði í svörtu skýrslunni og þeirri skýrslu, sem út hefur komið á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, að æskilegt magn af karfa, sem veiða megi á árinu 1976, sé 60 þús. tonn, og það er einnig talið að æskileg veiði af ufsa sé 75 þús. tonn á ári. Íslendingar veiða af karfa 25–30 þús. lestir. Með þeim samningum, sem nú er lagt til að gerðir verði við vesturþjóðverja, og með tilliti til þeirrar skiptingar, sem var á þeirra afla árið 1974, þegar þeir veiddu 13 þús. lestir rúmlega af ufsa og 36 þús. lestir rúmlega af karfa, sýnist mér rétt að áætla þjóðverjum 37 þús. lestir af karfa og 18 þús. lestir af ufsa. Með þessu móti er sóknin í karfastofninn 68 þús. tonn, en í ufsastofninn 78 þús. tonn. Þarna er því farið rétt yfir mörkin, þ. e. a. s. það er farið 8 þús. tonnum hærra í karfastofninn en fiskifræðingar telja æskilegt og 3 þús. tonnum hærra í ufsastofninn en fiskifræðingar telja rétt. Hins vegar kemur greinilega fram í báðum þessum skýrslum að vitneskja sérfræðinganna um þessa stofna er ekki eins trygg og um þorskstofninn. Þar segir um karfastofninn að úthafskarfinn blandist mjög landgrunnskarfanum og af úthafskarfanum segja þeir þar að ekkert sé veitt í dag. Þar segir einnig að ufsinn sé mikill flökkufiskur og því erfitt að gera sér grein fyrir þeim göngum sem upp að Íslandsströndum koma. Jafnframt segir í þessum skýrslum að þeir telji eðlilegt aflamagn af þessum stofnum báðum 100 þús. lestir á ári. Mér sýnist því rétt vera að með þessum veiðum sé farið rétt rúmlega yfir þau æskilegustu mörk, en ekki mjög svo. Allt annað gildir um þorskstofninn sem er mjög svo ofveiddur, og verður þar sóknin að lækka sem nemur úr 370 þús. tonnum á ári niður í 230 þús. eða jafnvel neðar. Ég hygg einnig að það hafi komið fram hjá fiskifræðingum að hættan í sambandi við karfann og ufsann með þessu veiðimagni sé stórum minni en áframhaldandi mikil sókn í þorskstofninn. Það er því raunar alveg ljóst, að það er alls ekki hægt að líkja saman þeim samningi, sem nú er lagt til að gerður verði við vestur-þjóðverja, að þessu leyti við verulegan kvóta til handa erlendum þjóðum af þorskstofni okkar íslendinga. Ég held að það sé ljóst, að við getum með sæmilegu móti þolað þessa sókn í karfann og ufsann í tvö ár. Að vísu skal það undirstrikað og viðurkennt að við íslendingar þurfum sjálfir að auka okkar sókn í þessa stofna og gæti því aflamagnið orðið eitthvað meira en ég hef nú rakið.

Sumir virðast efast um sannleiksgildi þessara upplýsinga sérfræðinganna og telja e. t. v. að þar gæti of mikillar svartsýni, og aðrir tala um að upplýsingarnar séu of seint fram komnar. Ég skal engu um þetta spá. Að vísu er það rétt að upplýsingar eru byggðar á mörgum forsendum sem ákveða verður og sumar hverjar eru e. t. v. ákveðnar á grundvelli of lítilla upplýsinga. Engu að síður er það staðreynd að þessir útreikningar eru byggðir á stærðfræðilegum aðferðum sem fiskifræðingar í Norður-Atlantshafsnefndinni hafa komið sér saman um eftir margra ára athugun og reynslu og telja þær bestu sem völ er á í dag. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil mjög haga öllum veiðum í samræmi við þessa spá. Mér sýnist að líkja megi þessu við ástand þar sem maður kemur í þoku og telur sig e. t. v. kominn fram á klettabrún. Hann fer varlega í það að taka eitt skref til viðbótar.

Um þá fullyrðingu, að upplýsingarnar séu seint fram komnar, vil ég segja það, að grundvöllur að þessum útreikningum lá að vísu fyrir s. l. vor, en þá voru ýmsar upplýsingar mjög ófullkomnar. M. a. lágu ekki fyrir nægilegar upplýsingar um veiðar íslenskra og erlendra aðila á árinu 1974 og sumar þessar upplýsingar lágu raunar ekki fyrir fyrr en í septembermánuði, þannig að fiskifræðingum þótti ekki fært að birta þessar tölur fyrr en þeir höfðu staðreynt þær upplýsingar fyrir 1974 sem nauðsynlegar voru.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á það, að ég harma að ekki var þegar á s. l. sumri hafist handa og safnað vopnum okkar íslendinga í þessu máli. Ég hygg að það hefði mátt flýta þessu starfi, og ég hygg að það verði að taka upp breytt vinnubrögð að þessu leyti, safna þessum upplýsingum sem best saman og setja í hendur erlendra aðila. Ég er sannfærður um að þær eru besta vopn okkar á alþjóðlegum vettvangi í deilunni um fiskimið okkar íslendinga. En e. t. v. er mikilvægast í þessu sambandi öllu að nauðsynleg er — og það kemur mjög greinilega fram í þessum skýrslum — virk stjórn á fiskveiðum okkar íslendinga, hvort sem erlendir aðilar verða hér áfram eða ekki. Það er raunar stærsta málið. Og mér þykir undarlegt að heyra þm. nota niðurstöður af þessum skýrslum í málflutningi sínum, svo sem gert hefur verið, á einn veg til andmæla við veiðar útlendinga hér, en lýsa síðan nálega hneykslun sinni á því sem fram kemur einnig í þessum sömu skýrslum, að það þurfi mjög að draga saman fiskiskipaflota okkar íslendinga. Slíkur málflutningur getur ekki að mínu mati samræmst. Það er alveg ljóst að skipafloti okkar íslendinga er allt of stór, og það er kannske við engan að sakast um það. Við höfum endurnýjað hann, og við höfum ekki gætt þess að leggja ýmsum gömlum skipum sem eru ekki arðbær í rekstri í dag, m. a. vegna þess að stofninn, sem á er sótt, er allt of lítill. Virk stjórn að ýmsu leyti er því grundvallaratriði í íslenskum sjávarútvegi ef ekki á illa að fara, og að því þyrfti Alþ. íslendinga að snúa sér fljótlega.

Ég sé að hæstv. utanrrh. er kominn, svo að ég ætla nú að snúa mér að samningunum við vestur-þjóðverja og ýmsu sem ég vildi þar um spyrja.

Ég vil í fyrsta lagi segja að við þessa samninga eru ýmsir kostir. Ég tel stærsta kostinn þann að frysti- og verksmiðjutogarar fara út fyrir 200 sjómílna fiskveiðilögsöguna, og ég vil vekja athygli á því, að þjóðverjar eru raunar með þessu að viðurkenna þetta yfirráðasvæði okkar. Ekki færu þessir togarar út annars. Og með því að þessir togarar fara út og þannig er viðurkennt það grundvallarsjónarmið okkar íslendinga, að slík skip eigi ekki að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, er okkur auðvelt að neita þeim þjóðum, sem fyrst og fremst veiða með slíkum skipum, um veiðar á íslenskum fiskimiðum, eins og t. d. pólverjum og Sovétríkjunum. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði í þessu sambandi öllu. Einnig er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þeir leita fyrst og fremst í karfa- og ufsastofninn, en draga úr veiði á þorskinum, sem er fyrst og fremst í stórkostlegri hættu, eins og ég hef áður rakið. Þeir veiddu að vísu árið 1974 5 510 lestir af þorski, en árið 1972 11 737 lestir og árið 1971 27 347 lestir, þannig að þótt veiðin hafi ekki orðið mikil á árinu 1974, var hún töluverð áður og ekkert sem tryggir að hún geti ekki aftur orðið mikil ef þeir veiða í skjóli breskrar herskipaverndar.

En þessir samningar hafa einnig ýmsa ókosti. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að magnið er að mínu mati of mikið. Það er m. a. svo mikið með tilliti til þess magns, sem þjóðverjar hafa veitt hér upp á síðkastið, og einnig með tilliti til þess sem ég rakti áðan, að þar er farið út á ystu nöf í álagi á þessa tvo stofna, karfastofninn og ufsastofninn. Mér þykir satt að segja einnig dálítið undarlegt hvað þjóðverjar hlupu fljótt inn á 60 þús. tonn. Nú er erfitt að dæma um slíkt fyrir þá sem ekki sitja að slíkum samningum, en ég hefði gjarnan viljað láta sverfa til stáls í sambandi við nokkru minna magn, t. d. 50–55 þús. tonn. Ég tel einnig svæðin óþarflega stór. Mér sýnist ljóst að þjóðverjar geti náð þessu karfa- og ufsamagni á töluvert takmarkaðri svæðum. Á þessu er að vísu orðin mjög mikil breyting til batnaðar frá því sem þýsku till. eða óskirnar voru í upphafi, ég tala nú ekki um það sem sumir vildu jafnvel ganga að haustið 1974. Einkum tel ég að þjóðverjar fari allt of nálægt fyrir Suðausturlandi, upp að 23 mílum þar, og jafnframt á Vestfjörðum, þar sem þeir koma allt upp að 34 mílum á Halamiðum, en að vísu — og það er ákaflega mikilvægt aðeins hálft árið. Þeir eru þar frá 1. júní til 30. nóv., og það er rétt að línubátarnir sækja lítið sem ekkert á þessi mið þann tíma. Hins vegar eru þetta megintogslóðir vestfirsku togaranna og raunar togara af Suðvesturlandi og Norðurlandi einnig. Þetta er að sjálfsögðu neikvætt og e. t. v. eitt af því neikvæðasta við þessi samningsdrög.

Mér þykir einnig ótrúlegt ef þjóðverjum tekst að skilja svo að ufsann og þorskinn á þessum miklu þorskaslóðum sem þeir virðast ætla að gera, og ég er sannfærður um að þarna þarf að hafa mjög strangt eftirlit. En með ströngu eftirliti sýnist mér að e. t. v. megi tryggja að þarna verði ekki samningurinn brotinn.

Ég harma það einnig að þjóðverjar skuli ekki viðurkenna útfærsluna. Þeir gera það óbeint, má segja, með því að taka sína stóru togara út fyrir 200 sjómílur. En hins vegar sýnist mér orðsendingin, sem birt er í þskj. með samningsdrögunum, ekki sérstaklega sannfærandi. Þjóðverjar segja raunar að þeir viðurkenni sérstöðu okkar íslendinga, en hún gefur þeim tækifæri til að undirstrika að afstaða þeirra í þessum málum sé óbreytt. Ég held að ég vildi heldur að engin orðsending sem þessi verði send. Ég sakna þess einnig að í samningsdrögunum eru engin ákvæði um endanleika þeirra. Það eru engin ákvæði sem kveða á um að þjóðverjar hafi með þessum samningi fengið þann aðlögunartíma sem við teljum að þeim sé nægilegur og raunar kannske meira en það. Það er ekkert sem segir að samningarnir verði ekki endurnýjaðir, og mun ég koma nánar að því síðar.

Þá er það einnig rétt, sem komið hefur fram, að þessi samningur tryggir okkur engan aðgang betri en við höfum nú að Efnahagsbandalaginu. Hann tryggir ekki að svokölluð bókun 6 komi til framkvæmda og tollarnir lækki þar með. En ég tek raunar undir það, sem hefur komið fram hér hjá öðrum hv. ræðumönnum, að tollalækkunin út af fyrir sig er lítill ávinningur borið saman við þau stórkostlegu verðmæti sem hér er verið að ræða um. Hins vegar eru þau mikilvæg fyrir einstakar byggðir og ekki má líta algjörlega fram hjá því.

Aftur á móti hafa þessir samningar nokkra óbeina kosti. Ég tel það óbeinan kost að við sýnum með þessum samningum að við erum ekki eins konar tréhestur sem alls ekki verður talað við. Ég tel að þessi samningur styrki okkur á alþjóðavettvangi, m. a. á vettvangi hafréttarráðstefnunnar, og það tel ég e. t. v. einn af stærstu kostum við þennan samning. Ég tel það einnig kost við samninginn að bretar verða einangraðir. Við eigum þá í stríði við þá eina, og eins og ég sagði áðan, þá óttast ég að vestur-þjóðverjar mundu veiða hér nokkurn veginn í friði, ef ekki er gerður við þá samningur, og taka töluvert meira aflamagn en gert er ráð fyrir með þessum samningi. Í þriðja lagi er það nokkur kostur að fiskmarkaðurinn opnast. Og þótt með þessum samningi sé raunar boginn spenntur eins og nokkurn veginn æskilegt er mest í sambandi við karfann og ufsann, tel ég þó að það megi beina einhverjum íslenskum togurum inn á þessa stofna, sérstaklega karfastofninn, án þess að honum sé stefnt í beinan voða. A. m.k. er það áreiðanlega betra en að ofveiða þorskstofninn. En vitanlega er slík veiði til einskis ef markaður er ekki fyrir hendi, og hann er fyrst og fremst í Þýskalandi, þannig að þetta er einnig nokkur kostur.

Aftur á móti, eins og ég sagði í upphafi míns máls, eru ýmis atriði þessa samnings sem mér virðast ekki hafa verið nægilega upplýst hér, og það er fyrst og fremst með það í huga sem ég stóð upp. Vil ég nú koma að þessum spurningum.

Ég spyr í fyrsta lagi um það eftirlit sem ráðgert er með veiðum þjóðverjanna. Mér sýnast samningsdrögin ekki nægilega skýr að þessu leyti. Að vísu segir að rannsóknastofnun sjávarútvegsins þýska muni veita upplýsingar um aflamagn. En er það ekki of seinvirkt? Er ekki unnt að tryggja það að við fáum skýrslur jafnóðum og landað er? Við gætum t. d. falið okkar ræðismönnum í Þýskalandi að afla slíkra upplýsinga. Þetta tel ég að eigi tvímælalaust að gera. Ég tel einnig að íslenskir eftirlitsmenn eigi að hafa rétt til þess að fara um borð í þýska togara hvenær sem þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist, og ég er óánægður með það ákvæði samningsins sem segir í 8. lið : „Ef ástæða er til að ætla að brot hafi verið framið“ o. s. frv., þ. e. a. s. þetta eftirlit virðist vera bundið við það að ástæða sé til að ætla að brot hafi verið framið. Ég tel að það að fara um borð í þýska togara til þess að fylgjast með þeirra veiðum eigi að vera eðlilegur þáttur í nauðsynlegu eftirliti, og ég vil spyrja að því, hvort ráðh. okkar hæstv. telji ekki að þannig megi raunar framkvæma þennan samning.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að skýrslur þjóðverjanna munu vera í samræmi við hólfaskiptingu eða skýrslusvæði Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar og munu þeir skrá veiðar á Íslandsmiðum undir kaflann 5a, en þetta hólf samræmist alls ekki fiskveiðilögsögu okkar þegar hún er færð út í 200 sjómílur. Ég hef dregið þetta hólf inn á þá teikningu sem hér fylgir með, og þá kemur í ljós að önnur hólf ná þar einnig inn, eins og t. d. við Grænland hólf sem merkt er nr. 14 og við Suðausturland hólf sem merkt er 5b1, svokallaður „Rosengarten“. Hann er að nokkru leyti í hólfi sem nefnist 2a, þannig að hólfin eru nokkuð mörg. Það verður því að tryggja að þýsku skýrslurnar séu þannig fram settar að unnt sé að lesa úr þeim hvað er veitt innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Þetta held ég að sé sömuleiðis framkvæmdaratriði. Ég trúi ekki öðru en að þetta sé framkvæmdaratriði sem þjóðverjar hljóta að vera fúsir til að fallast á ef það er sett fram, og ég spyr, hvort ráðh. séu ekki sömu skoðunar og hvort það muni þá ekki verða gert.

Ég vil einnig minna á að það má ekki alltaf treysta þessum stóru þjóðum og skýrsíum þeirra, t. d. vil ég minna á fréttir sem bárust frá Barentshafi ekki alls fyrir löngu þar sem settir voru kvótar, m. a. kvóti fyrir þorskstofninn. Sá kvóti fylltist mjög fljótt, en þá voru breskir togarar staðnir að því að halda áfram veiðum og moka þorskinum fyrir borð. Þetta má að sjálfsögðu alls ekki gerast á Íslandsmiðum, og það er einmitt strangt eftirlit á þorskaslóðum okkar sem verður að koma í veg fyrir það. Við getum kannske sagt að þegar farið er að nálgast að fylla kvótann, þá liggi þjóðverjar ávallt undir grun og því hljóti okkar eftirlitsmenn að hafa fullan rétt til að fara um borð hvenær sem þeim sýnist.

Þá vil ég í öðru Lagi spyrja hvað skeður er hámarkinu er náð, t. d. 5 þús. tonnum af þorski. Í samningsdrögum segir að þýska ríkisstj. ábyrgist að meira verði ekki veitt. Þetta er gott, svo langt sem það nær. En hvað gerist? Halda þeir áfram að veiða karfann og ufsann og moka kannske þorskinum fyrir borð? Ég tel, að þegar einhverju hámarki er náð, eins og 5 þús. tonnum af þorski, verði samningnum alls ekki fullnægt nema þjóðverjar hætti þá samstundis öllum veiðum á Íslandsmiðum. Ég spyr hæstv. ráðh. hvort þeir hafi sama skilning á þessu.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna það sem ég ræddi nokkuð um áðan og nefndi endanleika þessa samnings eða ákvæði um að hann verði ekki framlengdur, og ég sakna þess í samningnum. E. t. v. má bæta úr því að nokkru leyti með því að hæstv. ráðh. gefi hér þá yfirlýsingu að þeir líti svo á að þessi samningur verði ekki framlengdur og vestur-þjóðverjar hafi með þessum samningi fengið þann aðlögunartíma sem þeir geti frekast búist við. Ég teldi fyrir mitt leyti mikilvægt að fá slíka yfirlýsingu, og ég treysti því að henni verði þá komið á framfæri við vestur-þjóðverja.

Í orðsendingu, sem á að fylgja þessum samningi, er rætt um frestun á framkvæmd hans ef bókun 6 kemur ekki til framkvæmda. Hvernig á að framkvæma þessa frestun? Frestast þá endamörk samningsins, þ. e. a. s. sá dagur þegar samningurinn gengur úr gildi, eða verður hann óbreyttur? Og hvað gerist á meðan samningnum er frestað? Fara vestur-þjóðverjar þá út fyrir 200 sjómílur, eða hefst þá stríð við vesturþjóðverja á meðan? Þetta sýnist mér ekki heldur nægilega ljóst, og ég vil gjarnan spyrja á hvern máta hæstv. ráðh. líta á þetta atriði.

Það er illt að hæstv. sjútvrh. getur ekki verið hér í okkar hópi vegna sinna veikinda á svo örlagaríkum tímum fyrir íslenskan sjávarútveg, en ég veit að þjóðin vill að sjálfsögðu vita hver er afstaða hæstv. sjútvrh. til þessara samninga. Ég vil beina þeirri spurningu til. hæstv. forsrh. hvort hann geti ekki upplýst það.

Þá vil ég einnig að lokum spyrja í sjötta lagi um samningstilboð það, sem bretum var gert um 65 þús. tonn, hvort hæstv. ráðh. líti á sig sem bundna af þessu samningstilboði, sem þeir gerðu til breta um 65 þús. tonn, eða fellur það niður nú? Er það niður fallið nú? Þetta er einnig ákaflega mikilvægt atriði, og ég vil í því sambandi fara nokkrum orðum um möguleika til samninga við breta, eins og ég sé þá.

Mér sýnist að með þessum samningi sé samningur við breta stórum erfiðari. Þetta er mikið magn, sem þjóðverjum er ætlað, og til viðbótar því þorskmagni, sem hér er um að ræða, gera flestir ráð fyrir einhverjum samningum við færeyinga, þótt að sjálfsögðu hljóti það að verða skorið niður frá því, sem nú er, með tilliti til ástands þorskstofnsins, en við skulum segja að það geli orðið 10 þús. lestir á ári. Belgar taka gjarnan hér 4–5–6 þús. lestir og norðmenn eitthvað töluvert minna magn. En þá er veiði erlendra aðila af þorskstofninum orðin í kringum 20 þús. lestir, og miðað við það ástand, sem nú er, þá er ákaflega litið sem við getum boðið bretum í samkomulagsskyni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða þessi mál sem best og reyna að setja okkur eitthvert þak. Við verðum að ákveða hvað við getum frekast talið skynsamlegt að bjóða erlendum aðilum til samkomulags og meta þá jafnframt hvað við teljum að við getum dregið úr þeirra veiði í þorskastríði eins og því sem nú er hafið. Ég treysti mér illa til að áætla það, en ég vil þó slá fram tölu eins og 100–110 þús. lestir samtals af botnlægum fiskum. Ég held að það sé ákaflega erfitt fyrir okkur að ganga lengra. Og þá er öllum ljóst af því, sem ég hef nú rakið, að það er ákaflega lítið eftir til þess að bjóða bretum. Því tel ég mjög mikilvægt að það komi hér fram, sem ég vona að verði, að ríkisstj. telji sig að öllu leyti óbundna af því tilboði sem bretum var gert, og ég tel raunar að þar hafi verið farið of hátt.

Þetta eru þær spurningar, sem ég vildi fyrst og fremst leggja hér fram. Ég vil segja það að lokum, að ég var mjög óákveðinn í fylgi mínu við þennan samning. Ég gat alveg hugsað mér að leggjast gegn honum, raunar allt þar til í gær. En hins vegar, eftir því sem ég hef skoðað málið betur og breiðar og frá fleiri sjónarbornum, hef ég ákveðið að styðja þessa samningsgerð. Samningurinn er ekki góður og flest mundum við eflaust engan samning vilja. En ástandið er svo alvarlegt að við getum ekki látið stjórnast af óskhyggjunni einni saman. Það er líka rétt, að þessi samningur er stórum betri en samningsdrög sem um var rætt t. d. í okt. 1974, ég tala nú ekki um það sem áður var til umr. í þessu sambandi. En hins vegar liggja nú fyrir langtum gleggri upplýsingar um alvarlegt ástand fiskstofnanna, og við sjáum að við höfum um minna að semja.

Það má raunar segja að það sé einkum tvennt sem hefur ráðið því að ég hef breytt um skoðun. Það er í fyrsta lagi að ég er mjög óánægður með þau vinnubrögð sem mér virðist ríkja hjá hv. stjórnarandstæðingum og ýmsum fleiri. Mér virðast þeir ekki skoða þessi mál á málefnalegum grundvelli, heldur af fyrir fram ákveðinni andstöðu, og það er ákaflega erfitt að skipa sér í slíkan hóp. Þá vil ég segja það, að innrás breta í íslenska fiskveiðilögsögu hefur þó riðið fyrst og fremst baggamuninn gagnvart mér. Mér sýnist mjög nauðsynlegt að við stöndum nú saman, íslendingar, sem mest við megum, og mér sýnist nauðsynlegt, að um leið og við sýnum alheimi að við erum viðmælanlegir, þá sýnum við bretum að við munum alís ekki þola yfirgang af þeirra hálfu. Og raunar sýnist mér eftir þessa innrás breta að bretar megi gjarnan vita, að íslenska þjóðin verður heldur með herveldi kúguð en að hún semji af sér fjöregg sitt í nauðungarsamningum.