26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Orð mín hér skulu ekki mörg, en orða get ég þó ekki bundist þótt staðreyndir og rök hafi verið til tínd svo vel og rækilega að betur verður vart gert og síst af mér.

Það hafa löngum verið notuð sterk lýsingarorð og stór orð um þetta mál. Það er um margsagða hluti að ræða: samstöðu þjóðar, sameiningartákn landsmanna, mesta lífshagsmunamálið. Hversu vel þekkjum við þetta ekki? Bak við öll þessi orð er þó nú sem fyrr baráttusaga íslenskrar þjóðar við erlent vald, barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði og nú fremur en nokkru sinni fyrr spurning um framtíðarheill þessarar þjóðar.

Í ljósi þessarar baráttusögu urðu það mér mikil vonbrigði að heyra hér áðan í hv. þm. Steingrími Hermannssyni og vantrú hans á getu okkar. Ég spyr: Hvers vegna öll þessi barátta, sem hefur þó borið þennan árangur, ef menn hafa meiri trú á afarkostum í samningum en öflugri gæslu og baráttu gegn erlendum veiðiþjófum? Án trúar á hið síðar nefnda hélt ég að baráttan væri í raun vonlaus. Ég get því svarað hv. þm. Steingrími Hermannssyni því: Ég trúi því að án samninga, með réttum aðferðum og fullri einbeitni sé unnt að ná betri og skjótvirkari árangri en með samningum. Fyrir því hafa þegar verið færð fullgild rök.

Undrun er ef til vill hið besta orð sem lýsir tilfinningum mínum gagnvart þessari till., auk þess hve andstætt það er allri þeirri skynsemi og þeirri litlu sérþekkingu sem ég hef hér á. Undrun mín er einfaldlega vakin af þrennu: Til hvers var útfærslan í 200 mílur ef ekki átti að ná fullnaðarsigri í fyrri áfanga, 50 mílunum? Hvaða takmark hafði hún í raun án þess árangurs? Undrunarefni er það einnig að ákafinn til samninga skuli okkar sem ekkert hljótum í staðinn — svo mikill ákafi, svo mikið ofurkapp að hvort tveggja gerist: samið er fram yfir þann tíma sem líklegt má telja að alþjóðaviðurkenning fáist á okkar málstað, samið er um meira en sjálfir þjóðverjar telja sig veiða nú á þessu ári. Ekkert af þessu skilur hinn venjulegi maður í þessu landi, en hvorugu verður í móti mælt sem staðreyndum.

Undrunarefni eru blekkingarnar, blákaldar falsanir til að fá fram þessa niðurstöðu, og þá um leið hve ljúft mörgum líkar það að láta blekkjast og blekkja síðan aðra svo úr verður ein keðja falsana og orðaleikja. Blekkingin stærsta er sú að hér skuli punkturinn settur, nú sé fyrir öllu séð í raun, m. a. því að ekki skuli samið við breta, hér sé jafnvel verið að finna tryggingu fyrir því að svo verði ekki, þegar fyrsti áfangi þeirrar og annarrar samningsgerðar liggur á borðum manna, þegar er búið að beygja sig dýpra en búist hafði verið við af svartsýnustu andstæðingum allra samninga.

Ég talaði um undrun og algera furðu þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að ég viti veikleikann fyrir vinaþjóðunum, þrátt fyrir að ég viti þungan þrýsting frá því almáttuga NATO sem yfir oss vakir, þrátt fyrir að ég viti um vantrú margra á möguleikum okkar sjálfra til að standa uppréttir gagnvart útlendu valdi, einmitt þegar bretarnir eru að sanna vald okkar ef vilji er til að beita því valdi. Hvað eru NATO-herskipin bresku annað en sönnun þess að aðgerðir okkar á miðunum síðustu daga höfðu heppnast? Máttvana í málstað og rökum, í aðstöðu allri grípur breska vinaþjóðin til þeirrar einu gamalkunnu röksemdar sem hún kann og beitir svo óspart valdi byssunnar. En viðbrögðin eru þeim mun athyglisverðari. Hæstv. dómsmrh. segir, með leyfi hæstv. forseta, í Tímanum í dag í fyrirsögn: „Spillir fyrir sambúð og hefur áhrif á viðhorf manna til NATO.“ Það var lóðið. Þar er hans helsta áhyggjuefni nú eins og reyndar líka 1973. Herskipin verða að fara út fyrir áður en hægt verður að semja, fannst mér sem undirtónn í máli hæstv. forsrh. í gær.

Trúir svo einhver því að þetta sé lokasamningur eða 5 mánuðirnir verði ekki notaðir dyggilega í samninga við þá sem nú ógna og hóta, og þarf víst enga 5 mánuði til? Já, þrátt fyrir allt er ég nú undrandi hve langt hefur legið niður á við leiðin þeirra Bonnfaranna, hve ljúfir þeir hafa reynst vinum sínum, þeim hinum sömu sem ránskap hafa stundað hér stöðugt frá 50 mílna útfærslunni. Fyrr má nú vera bróðurkærleikurinn í hinu almáttuga NATO, ekki síst þegar þess er gætt að þar erum við í fjandflokki miðjum þegar brýnasta lífshagsmunamálið er í veði, ekki síst þegar litið er til þeirrar ómetanlegu verndar suður á Miðnesheiði þegar breskir fjallbyssukjaftar hafa ógnað okkur íslendingum eins og dæmin sanna í dag.

Verslunarvara skyldi landhelgin vera, það hafa menn oft heyrt, gagnvart ákveðnum fríðindum. Tollafríðindi skyldu koma í stað undanþáganna. Ekki einu sinni þessari ógeðfelldu tegund meðalmennskunnar tókst að ná fram.

Og dettur nokkrum í hug út frá þessari ljúfmennsku að ljúfmennskan og lipurðin í London verði minni þegar þar að kemur? Við þekkjum þar um dæmin þrátt fyrir herskip og fallbyssukjafta, njósnaþotur og vígvélar. Vinarkveðjur skulu það verða þegar tíminn er fullnaður, þegar samningar takast svo að allt megi falla í ljúfa löð.

Já, undrunin skal enn undirstrikuð, þó að ég viti um þann skollaleik sem að baki býr. Stundum verður maður nefnilega svo bjartsýnn að trúa á íslensku NATO-vinina, jafnvel svo að maður heldur að þegar þeir segja 200, berjandi sér á brjóst, meini þeir a. m. k. 50. Og þó, skyldi ekki enn í minni umboðslaus ráðherra íslenskur, tillögulaus að heiman, tillöguglaður í London, komandi heim veifandi úrslitakostum með tilheyrandi yfirlýsingum um lausn? Lausn sem ég átti þátt í að samþykkja, m. a. með tilliti til þess að hún átti að ganga í gildi 13. nóv. s. l. eftir yfirlýsingum þessa hæstv. ráðherra. Sú lausn sem nú er leitað að með logandi ljósi án árangurs. Þá var NATO í hættu og herstöðin góða. Vininum varð því að gera vel til svo að ástríki héldist. Liðin saga, en leið upprifjun nú í órofa samhengi við atburði síðustu daga. Samningar munu staðreynd innan tíðar. Blekkingavélin mylur sitt verk vel. Mótmæli öll skulu að engu höfð, alls staðar frá. Jafnvel ætla sumir, sem harðast mótmæltu, að ganga glaðir til leiks að því er best verður séð.

Eins og áður hefur verið bent á, var þó að flækjast fyrir einhverjum a. m. k. einhver skýrsla frá einhverjum fiskifræðingum sem átti að byggja á jafnvel. Því fylgdu á tímabili stórar fyrirsagnir og feitt letur. Eða eru það bara íslensku sjómennirnir og verkafólkið í íslensku sjávarplássunum sem á að taka mark á þessari skýrslu? Eru það eingöngu þeir sem hér eiga að gjalda glópsku stjórnvalda og samningalipurðar? Það er ekki óhugguleg tilhugsun fyrir okkur austfirðinga t. d. að þessi fyrsti samningsáfangi skuli alveg sérstaklega koma hart niður á okkur, að við skulum augsýnilega eiga að fórna mestu til að hægt sé að halda uppi þessum sama vinskap sem hér hefur verið margræddur. Það er ekki amalegt að fá slíkar kveðjur. Ef framhaldið verður í takt við upphafið, þá mun svo sannarlega þrengjast fyrir dyrum manna eystra á sjó og í landi. Og mætti þá ekki koma með álið og aðra stóriðju sem frelsandi vítamíngjafa þegar ekki dygði lengur að draga fisk úr sjó? Kannske eru refirnir til þess skornir? Kannske hér sé fundin greiðasta og besta leiðin að því marki að draumur stóriðjupostulanna megi rætast? Hér sýnist mér a. m. k. lagður allgóður grunnur að þessu markmiði með þessum samningi, — með þessum samningi vitanlega sem fyrsta áfanga, svo sem auðvitað er ætlunin. En kaldar þykja mér þær kveðjurnar til íslenskra sjómannanna og íslensk verkafólks almennt ef svo fer fram sem horfir. Og þykir þá nokkrum furða þó mótmælin dynji yfir og þó hræddir aðilar vilji stöðva þá mótmælaöldu með valdboði hjá opinberri stofnun? Já, alveg sérstaklega megum við austfirðingar fagna því dýrmæta framlagi okkar til viðhalds vinskaparins í NATO, þó það færi sjómönnum þessa landshluta og verkafólki í landi um leið framtíðarvanda, — framtíðarvanda sem er viðurkenndur af öllum, — og þó að þar eigum við á hættu að upp verði urin sú auðlind sem enn er á byggt af bjartsýni eystra þar.

Sannfærður er ég um það, að samþm. mínir austan að ganga ekki til þessa leiks með gleði. Sé svo, þá hef ég svo sannarlega ofmetið þá. Þá eru þeir ekki einn sinni á sömu skoðun og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sem vill þó fara að tala við bandamenn okkar í NATO í alvöru. Alvara þessa máls er ærin. Upphaf að undanhaldi í landhelgismálinu einmitt nú þegar allt var á okkar sveif að snúast á alþjóðavettvangi í hafréttarmálum, meir en nokkru sinni. Einmitt þegar við færðum út við nýjar aðstæður, breyttar og betri aðstæður, vitandi sterkari stuðning en nokkru sinni fyrr við okkar málstað. Þá skal ekki aðeins innan hinnar nýju auknu landhelgi samið. Innan 50 mílnanna skal það vera og um sumt á þeim svæðum ýmsum sem viðkvæmust og mikilvægust eru, enda þar í flestu farið eftir óskum viðsemjenda sem heimta meira en þeir jafnvel eiga möguleika á að torga, en láta ekkert — einfaldlega ekkert í staðinn.

Ég lýsi undrun minni — en hryggð fylgir því einnig — að sjá hve aumlega er við stjórnvöl staðið. Sagan mun dæma slíka afleiki þó síðar verði. En hitt er verra, ef framtíðargiftu sjálfstæðrar þjóðar er í hættu stefnt með því að kippa markvisst undan þeim stoðum er styrkastar hafa verið í íslensku atvinnulífi, þegar framtíðarvelferð sjómanna, verkafólks, alls almennings er í voða stefnt með skammsýnum aðgerðum í þá einu sjáanlegu veru að þóknast vinum í herbandalagi auðvaldsins í heiminum.