26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Þetta er ekki eini samningur ríkisstj. við útlenda veiðimenn, en hann er sá fyrsti og markar trúlega stefnuna. Hún er greinileg. Vestur-þjóðverjar fá það sem þeir vilja, bæði svæðin og 60 þús. tonna aflaheimild, 50% aukningu þess aflamagns sem áætlað er að þeir veiði á Íslandsmiðum þetta árið, sem er 40 þús. tonn. Miðað við, hvað aðrar þjóðir hafa veitt hér á miðunum, má ætla að norðmenn vilji fá og fái 3 þús. tonn, færeyingar 20 þús. tonn og belgíumenn 7 þús. tonn. Og upplýst er að bretum hafi verið boðin 65 þús. tonn. Samanlagt 155 þús. tonn afhent útlendingum af þeim tæplega 400 þús. tonnum sem sérfræðingar okkar hafa lagt til að veiðar fjögurra helstu fisktegundanna verði takmarkaðar við. Það er um bað bil það magn sem aflað er árlega af þjóðinni sjálfri. Við íslendingar eigum þá um tvo kosti að velja:

Annars vegar að veiða fyrst um sinn áfram sama magn, með þeim afleiðingum sem fiskifræðingar okkar hafa útmálað og óþarfi er að endurtaka hér. Og hins vegar að skera niður eigin afla sem nemur því magni sem við slettum í aska útlendinganna, setja aflakvóta á byggðarlög, selja hluta flotans og loka einhverju af frystihúsunum. Þá blasir ekki annað við en samdráttur og kjaraskerðing með því hæfilega atvinnuleysi sem núv. ríkisstj. hefur oft sýnt að hún stefnir að og fetar þar í fótspor viðreisnarstjórnarinnar alræmdu. Þar með er líka kominn jarðvegurinn fyrir málmblendiverksmiðjur og álframleiðslu erlendra auðhringa, þeirra sömu aðila og málum ráða í NATO og Efnahagsbandalaginu. Það verður dægilegt fyrir karla landsins að lenda á kafi í álinu, en konunum verður náttúrlega beint til baka úr atvinnulífinu og inn á heimilin, eins og ævinlega á samdráttartímum. Þeirrar stefnu sér þegar víðar merki en í þessu máli. Þar má benda á boðaða niðurskurðarstefnu í félagslegri þjónustu. Allt helst þetta í hendur.

Sárast alls í sambandi við aðdraganda þess máls, er hér liggur til afgreiðslu, og málflutning þeirra, sem fyrir því mæla, er sá botnlausi aumingjaskapur sem þar lýsir sér, sú undirlægja að leggjast sjálfur undir vöndinn. Helsta röksemdin fyrir því að við verðum að ganga að þessum smánarsamningum er að við munum ekki geta varið landhelgina, það sé sem sagt hugsanlegt að þjóðverjar gætu stolið meiru en þeir fá með samningunum og þess vegna sé skárra að beygja sig sjálfur undir okið í stað þess að láta reyna á valdbeitinguna. En þeir, sem þannig hugsa, meta lítils þau orð að barður þræll sé mikill maður því í hans brjósti eigi frelsið heima, enda er frelsið víst löngu hætt að eiga heima í brjósti þeirra sem nú sem fyrr skríða fyrir félögunum í NATO.

Undirlægjuhátturinn skín hvarvetna í gegn þegar litið er yfir ákvæði þeirra samningsdraga sem hér liggja fyrir. Ekki er nóg með að þjóðverjum séu afhent þau svæði sem þeir óska sér, heldur gráu bætt á svart með að fela þeim sjálfum eftirlit með þeim takmörkunum sem gerðar eru á aflamagni. Og þegar grunur er um brot eiga þeir sjálfir að koma á staðinn og sannreyna staðarákvörðun landhelgisgæslunnar.

Fyrir tveim árum var það gagnrýnt að engin viðurkenning á 50 mílna mörkunum væri tekin fram í samkomulagi við breta, þótt á hitt væri bent á móti, að samningurinn jafngilti viðurkenningu í framkvæmd. En nú aftur á móti þykir ástæða til að taka fram í sérstökum bréfum með samningnum að ekki sé þar með viðurkennd 200 mílna fiskveiðilandhelgin, þ. e. a. s. tekið fram að hann hafi engin áhrif á afstöðu þjóðverja til neinna atriða hafréttarmála.

Það er okkar ógæfa að það hefur verið óskráð mottó í utanríkisstefnu Íslands allt frá því að við eignuðumst okkar fyrsta utanrrh. að við séum fátækir, fáir og smáir. Enn í dag höfum við ekki eignast slyngan og hnarreistan utanrrh. sem hugsar öðruvísi og þorir að standa uppi í hárinu á erlendum viðsemjendum. Við erum kannske fáir, íslendingar, en hvorki fátækir né smáir, a. m. k. ekki að meðaltali. Enn erum við rík að eiga óbeislaða orku í landi og gjöful fiskimið, þótt auðlegðin geti vissulega skjótt breyst í örbirgð ef við berum ekki gæfu til að varðveita hana með tilhlýðilegum hætti eða ef við afhendum útlendingum yfirráð yfir þessum auðlindum okkar. Og smærri en svo erum við ekki að við getum, ef við viljum, varið fiskveiðilögsöguna alla að mati gæslumannanna sjálfra, ef þeir bara fá að gera það fyrir hugdeigum ráðherrum og ef þeir fá aukinn skipakost, t. d. skuttogarana sem þeir hafa bent á.

Þegar Guðmundur Kjærnested skipherra var að því spurður í blaðaviðtali nýlega hvort unnt væri að verja þessa nýju, stóru landhelgi efaðist hann ekki. „Það er allt hægt,“ sagði hann, en það virtist undirskilið eitt stórt „en“. Honum var bent á að hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason hefði talið ókleift að verja landhelgina. „Nú, sagði hann það?“ var svar skipherra. „Hann hefur aldrei verið háseti hjá mér“

Hvað sem í skerst höfum við þegar áratugareynslu fyrir því að' tíminn vinnur með okkur. Þess vegna er fásinna að fara að binda síg í keðjuverkandi samningum. Um efnahagslegt og hernaðarlegt ofbeldi breta og þjóðverja munu ugglaust gilda orð hins mikla þýska skálds okkar aldar sem orti fyrir munn smáþjóðar sem var kúguð af hans eigin þjóð, með leyfi forseta:

„Es wechseln die Zeiten. Die riesigen Pläne

Der, Mächtigen kommen am Ende zum Halt.

Und gehen sie einher auch wie blutige Hähne.

Es wechseln die Zeiten, da hilft kein Gewalt.“

Í lauslegri þýðingu: „Þótt þeir hamist eins og blóðugir hanar verða áætlanir valdhafanna að lokum stöðvaðar. Ekkert stöðvar tímans rás þar um skiptir ofbeldi engu.“