27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. hefur n. fjallað um till. og ekki orðið sammála um afgreiðslu hennar. Meiri hl. mælir með því að hún verði samþ. óbreytt.

Í umr. þeim, sem fóru fram hér í gær, gerðu ráðh. ítarlega grein fyrir till. og ástæðum fyrir því að ríkisstj. mælir með samþykkt hennar. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér, en minni aðeins á eftirfarandi atriði:

Í samningsdrögunum felst mikilvæg viðurkenning á 200 mílna mörkunum. Í fyrsta lagi lofa vestur-þjóðverjar því að halda verksmiðju- og frystitogurum sínum alveg utan þessara marka. Í öðru lagi lofa þeir að veiða aðeins á tilteknum svæðum innan 204 mílna markanna. Í þriðja lagi lofa þeir að hlíta íslenskum lögum og reglum á þeim svæðum þar sem þeir fá veiðileyfi. Þá viðurkenna vestur-þjóðverjar þá staðreynd, að þorskastofninn þurfi miklu meiri vernd en aðrir fiskstofnar. Þetta er mjög mikilsverð viðurkenning, eins og nú er ástatt með þorskstofninn.

Að lokum kem ég að því sem ég tel mikilvægast við þetta samkomulag. Það var ljóst eftir fyrstu samningaviðræður við breta í sept. að nýtt þorskastríð yrði ekki umflúið. Hv. 5. landsk. þm. lét svo um mælt í umr. hér í gærkvöld að ég hefði spáð því í Tímanum s. l. þriðjudag að bresku herskipin mundu koma. Ég spáði þessu strax í Tímanum eftir þessar fyrstu viðræður við breta í sept., því að mér var ljóst að enginn grundvöllur væri fyrir hendi til samninga við breta, en jafnframt hótuðu þeir óspart að veita togurum sínum nauðsynlega vernd. Þetta álit mitt hefur átt mestan þátt í því að ég hef síðan verið hlynntur samningum við vestur-þjóðverja, því að kæmi til þorskastríðs við breta þyrftum við að geta beint óskiptri orku okkar gegn þeim. Þetta þorskastríð er nú skollið á. Með því samkomulagi, sem hér liggur fyrir, vinnst það tvennt, að við tryggjum fiskstofnum okkar meiri vernd en ella, eins og reynslan frá þorskastríðinu 1973 sýnir, og að við getum nú alveg einbeitt okkur gegn bretum.

Ég endurtek svo það, að meiri hl. utanrmn. mælir með samþykkt till. óbreyttrar.