27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þeim tveimur nál., sem koma frá utanrmn., nál. meiri hl. á þskj. 94 og nál. minni hl. á þskj. 93, klofnaði n., svo sem e. t. v. kemur mönnum ekki sérlega mikið á óvart. Í n. voru algerlega hreinar línur. Stjórnarsinnar mæla með því að till. þessi um samningsgerð við vestur-þjóðverja verði samþ., en fulltrúar í stjórnarandstöðu í n. leggja til að þessi till. verði felld.

Ég vek athygli á því, eins og segir í nál. okkar minnihlutamanna, mínu og hv. 2. landsk. þm., Benedikts Gröndals, þá er tekið fram í lok álitsins, að SF, sem eiga ekki kjörinn fulltrúa í utanrmn., eða fulltrúi sá sem situr fundi n., Magnús T. Ólafsson, hv. þm. hefur lýst sig algerlega samþykkan nál. okkar, mínu og hv. 2. landsk. þm. Það fór því svo í utanrmn. að þar eru algerlega hreinar línur: stjórnarliðar annars vegar, stjórnarandstaðan hins vegar. Eftir þeim umr. að dæma, sem hér fóru fram í gær, má einnig gera ráð fyrir að þannig sé þessu varið á hv. Alþ.

E. t. v. hafa einhverjir búist við því að hér væri um að ræða slíkan samning að einhverjir stjórnarliðar væru a. m. k. hikandi við að fylgja honum. Það á eftir að sýna sig hvort svo er, en ýmislegt bendir til þess að það hafi tekist að ná samstöðu stjórnarliða hér á hv. Alþ. um málið.

Það hefur að vísu ekki farið neitt leynt og kom að vísu dálítið fram á fundinum í gær að menn hafa verið hikandi, ýmsir stjórnarliðar fylgja málinu með tregðu og jafnvel ólund, og það er e. t. v. ekki að furða. Hv. 2. þm. Vestf. lýsti því þannig í ræðu sinni í gær að hann hefði verið á móti málinu í fyrradag, en væri nú að vísu orðinn fylgjandi málinu í gær. Sú ástæða, sem hann tilgreindi og var nr. eitt, var að þeir, sem á móti þessu máli væru, að gera þennan samning, væru ekki sérlega fýsilegir til félagsskapar. Þetta var hans röksemd nr. eitt. Svo held ég að hann hafi bætt einhverri annarri við. Nú kann það vel að vera að hv. 2. þm. Vestf., sem ég sakna nú hér úr þingsalnum, ætlaði að segja við hann fáein orð, — nú kann það vel að vera að þeim hv. þm. þyki það heldur ógeðfellt að hafa samstöðu eða hafa sömu skoðun á einhverju máli og til að mynda alþb.-menn, svo að ég taki nú til þá sem honum þykja e. t. v. einna verstir, og jafnvel alþfl.-menn og frjálslyndir. En ég ætlaði að benda honum á það og þeim öðrum, sem hugsa eitthvað svipað og hann, að það eru ekki bara stjórnarandstöðuflokkarnir þrír sem hafa snúist gegn þessu máli, það er Alþýðusamband Íslands, stjórn þess, það er Verkamannasamband Íslands, það er Sjómannasambandið, það er Farmanna- og fiskimannasambandið, það eru Samtök áhugamanna um sjávarútvegsmál. Hv. 2. þm. Vestf. og aðrir þeir framsóknarmenn sem svipað hugsa og hann og hafa nú kosið sér geðfelldari félagsskap heldur en þennan, þeir mega gjarnan vita að það verður tekið eftir því, bæði á Vestfjörðum, Austfjörðum og annars staðar á landinu, hver það er, þessi geðfelldi félagsskapur sem hv. framsóknarmenn meta meira en þann félagsskap sem þeir hefðu lent í ef þeir hefðu orðið á móti málinu. Það er félagsskapurinn við íbaldið, — ekki íhaldið í landinu eins og það leggur sig, mér dettur ekki í hug að halda því fram, því að ég veit að mjög margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og við stjórnarandstæðingar í þessu máli og eru á móti, — en það er íhaldsforustan, óskipt að ég bygg, það er það kompaní sem hv. 2. þm. Vestf. hefur valið sér og tekið mjög svo fram yfir þennan heldur leiðinlega félagsskap sem hann var að tala um hér í gær. Ég treysti nú a. m. k. hv. 5. þm. Vestf. og raunar ýmsum fleiri til þess að láta þessa afstöðu hv. 2. þm. Vestf., — ég var að nefna atriði úr ræðu hans í gær, — ég á nú von á því að t. a. m. hv. 5. þm. Vestf. hafi einhver ráð til þess að koma þeirri vitneskju til vestfirskra sjómanna og vestfirskra bænda, til vestfiskra framsóknarmanna yfirleitt, hvaða félagsskapur það er sem hv. 2. þm. Vestf. velur fram yfir helstu launþegasamtök landsins og stjórnarandstöðuna að sjálfsögðu, að það er forusta íhaldsflokksins sem hann velur.

Það mál, sem hér er nú til umr., hefur þegar verið rætt töluvert mikið og væri vissulega ástæða til að víkja að ýmsum atriðum sem komu fram í umr. í gær og voru talin fram sem röksemdir af hálfu fylgismanna þáltill. Ég mun nú ekki fara mjög langt út í þá sálma, en get þó ekki látið hjá líða að minnast á nokkur einstök atriði, jafnhliða því sem ég mun rökstyðja það nokkuð hvers vegna við, sem andstæðir erum þessu máli, þessum samningi, teljum að ekki eigi að gera hann.

Það hefur komið nokkuð til tals í þessum umr. að á ýmsum tímum áður, fyrir tveimur árum, fyrir einu ári og jafnvel fyrir hálfu ári, þá hafi verið rætt um hugsanlega samninga við vestur-þjóðverja og í þeim tilvikum jafnvel verið rætt um veiðiheimildir sem voru öllu meiri en þessar. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir hv. alþm. að vera að ræða um málin á þeim forsendum eins og ekkert hafi gerst í fiskveiðimálum íslendinga nú í sambandi við vitneskju okkar um það, hvernig við erum á vegi staddir að því er helstu fiskstofna okkar varðar, t. d. s. l. tvö ár. Ég held að það hljóti allir að vita að það, sem menn e. t. v. grunaði, það er staðreynd og jafnvel er ástandið miklu verra en e. t. v. nokkurn grunaði fyrir fáum mánuðum. Þess vegna hefði ekkert verið eðlilegra heldur en við hefðum nú tekið upp öll okkar samningamál og öll okkar viðhorf til samninga yfirleitt, tekið þau til nýrrar yfirvegunar á grundvelli þeirrar nýju vitneskju sem við höfum fengið um þann háska sem er á ferðinni ef ekki verður komið í veg fyrir að helstu fiskstofnar okkar verði með ofveiði gersamlega eyðilagðir á e. t. v. 2–3 árum. Þó að það hafi engum komið á óvart að við værum komnir alveg á fremsta hlunn a. m. k. að því er afla þorsksins varðar, þá hygg ég að sé óhætt að fullyrða það, að enginn hv. alþm. hafi gert sér það fullkomlega ljóst fyrir svo sem hálfum öðrum til tveimur mánuðum að ástandið væri eins slæmt og nú hafa verið færð mjög sterk rök að að það sé, ekki aðeins af íslenskum fiskifræðingum, heldur hafa breskir fiskifræðingar einnig tekið undir það í öllum veigamestu atriðunum. Þegar þetta lá fyrir, þegar sá voði lá fyrir, ef ekki yrði nú þegar tekið í taumana og höfð miklu meiri stjórnun á öllum veiðum hér á Íslandsmiðum heldur en áður, þegar þetta lá fyrir, að það væri nauðsynlegt að taka upp slíka stjórnun og var nauðsynlegt að takmarka mjög vissar tegundir veiða og þá alveg sérstaklega smáfiskadráp allt, þá var vissulega tímabært að taka til endurskoðunar þær hugmyndir sem menn höfðu e. t. v. áður um það að hægt væri og jafnvel æskilegt að gera samninga til skamms tíma, ekki síst e. t. v. um veiðar á hinu nýja hafsvæði, einhverjar takmarkaðar veiðar á hinu nýja hafsvæði milli 50 og 200 mílna. En og ég hygg að þetta, þessi nýju viðhorf, þessi nýja vitneskja hafi haft geysilega mikil áhrif á fólkið í landinu og þá stefnumótun sem þar hefur verið að eiga sér stað undanfarnar víkur og mánuði. En því miður virðist þessi nýja vitneskja ekki hafa haft a. m. k. nægileg áhrif á þá hv. stjórnarliða eða forustu í hv. stjórnarflokkum. Það sýnir þessi þáltill. sem hér er nú til umr.

Vitanlega er æskilegt að þjóðir haldi frið, eins á fiskimiðum og annars staðar. Vitanlega er það keppikefli og vitanlega má nokkuð til þess vinna að það megi gerast. Við viljum hafa góðan frið við alla okkar nágranna og raunar einnig þá sem fjær búa, þó að það kosti eitthvað, en ekki sama hvað það kostar.

Á þennan samning sem hér er nú lagður fyrir og óskað er staðfestingar Alþ. á að gerður verði, á hann verður að líta sem hluta af heild og heildarstefnu, en ekki sem einangrað fyrirbæri. Þetta er að vísu samningur við vestur-þjóðverja um ákveðnar veiðar, 60 þús. tonn á ári í tvö ár. Þetta er hið eina sem liggur á borðinu fyrir framan hv. alþm. í dag, það er rétt. En því hefur verið haldið fram með rökum og því hefur ekki verið mótmælt, að aðrir samningar, fleiri en einn og fleiri en tveir, eru í uppsiglingu, sennilega misjafnlega langt á veg komnir, en því hefur ekki verið mótmælt að þeir séu í uppsiglingu og kunni að vera væntanlegir jafnvel næstu daga sumir hverjir. Þess vegna verður að líta á þennan samning sem upphaf og þá eins konar munstursamning jafnframt sem aðrir samningar, þeir sem kunna að verða gerðir við aðrar þjóðir, miðast að meira eða minna leyti víð.

Ég átti nú e. t. v. von á því að hv. frsm. meiri hl. utanrmn. og formaður hennar, formaður þingflokks Framsfl., ritstjóri Tímans með meiru, minn ágæti góðkunningi, hefði rökstutt nál. meiri hl. í öllu lengra og yfirgripsmeira máli en hann gerði. Og ekki síst átti ég von á því vegna þess að mér er um það kunnugt og ég hygg að honum sé ekki um það ókunnugt alveg að ýmsir flokksbræður hans víðs vegar um landið hafa undanfarna daga og undanfarnar vikur verið slegnir ugg og jafnvel ótta og þeir hafa spurt um það, hversu langt Sjálfstfl. tækist að leiða forustulið Framsfl., hvort það séu nánast engin takmörk fyrir þeirri göngu — mér liggur við að segja niðurlægjandi göngu sem þeir hafa, frá því að þeir hófu þetta samstarf, lötrað í fótspor afturhaldsins í landinu. Og ekki hvað síst held ég að sumum framsóknarmönnum hljóti að sárna það, að flokksforustan skuli vera svo einstaklega hlýðin Sjálfstfl. í þessu máli, í landhelgismálinu, því máli þar sem Framsfl. hefur, að ég tel, þrátt fyrir ákveðin víxlspor átt drjúgan hlut að því sem vel og manndómslega hefur verið gert á undanförnum áratugum í sambandi við útfærslu landhelginnar. En nú virðist svo sem forusta þessa flokks — og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson þar ekki undanskilinn — virðist orðin algerlega samdauna Sjálfstfl., jafnt í þessu máli sem öðru, þar gengur ekki hnífurinn á milli.

Maður hefur lesið það, ekki síst í einum þremur leiðurum í dagblaðinu Tímanum, undirrituðum stöfunum Þ. Þ., að helst sé nú leitað þess skjóls að verja þessa samningagerð við vesturþjóðverja með því að þessi samningagerð styrki okkur afskaplega mikið í þeirri baráttu sem við eigum nú fyrir höndum við höfuðóvininn, breta. Hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, er held ég höfundur þessarar kenningar og þess vegna er það e. t. v. eðlilegt að hann birti sama leiðarann eins og þrjá daga í röð til þess að hamra þetta inn í þjóðina. Þetta er lesið yfir hverjum manni og hv. þm. er nú eldri en tvævetur, alveg eins og ég, og hann veit að máttur endurtekningarinnar er mikill og þá skiptir það ekki öllu máli hvorum megin sannleikurinn liggur.

En þetta á nú að vera hálmstráið sem þeir hv. framsóknarmenn a. m. k. ætla að reyna að fljóta á þegar þeir eru að verja það gagnvart sínum eigin flokksmönnum að þeir skuli hafa samflot með íhaldinu einnig í þessu máli. En ég vil segja það við hv. 4. þm. Reykv. og aðra þá hv. framsóknarmenn, sem mál mitt heyra, að ég er hræddur um að nokkuð margir sjái í gegnum þetta, sjái að þetta er lítið annað en blekking. Þetta er vissulega blekking í munni þeirra manna sem ætla sér að semja við breta og bíða eftir fyrsta hugsanlegu tækifæri til þess að ganga til samninga við þá. Ég geri ráð fyrir að svo kunni að vera að hv. 4. þm. Reykv. kunni að mótmæla þessu, annaðhvort hér í þingsölum eða í blaði sínu, og segja að það sé nú ekki aldeilis meiningin, a. m. k. ekki á næstunni, að fara að makka á ný við breta. En ég staðhæfi, að hvað sem hans hugmyndum eða skoðunum um það liður, þá eru þær hugmyndir uppi í herbúðum þeirra sem ráða ferðinni hjá stjórnarliðinu. Það mun ekki líða á löngu þar til það makk verður tekið upp aftur og beðið eftir fyrsta tækifæri til þess að ganga frá samningum við þá.

Það hefur verið sýnt fram á það hér áður af öðrum, að þessi samningur, sem nú á að gera við vestur-þjóðverja, er m. a. varasamur og jafnvel hættulegur vegna þess að hann skapar fordæmi, hann verður viðmiðun þegar samið verður við aðrar þjóðir, eins og alveg ljóst er af öllu að ráðamenn þjóðarinnar eru staðráðnir í að gera og hafa verið að undirbúa að undanförnu. Því er haldið fram til þess að gylla þennan samning að þó að 60 þús. tonn á ári séu að mati margra hv. stjórnarþm. helst til mikið og raunar of mikið, þá sé það bót í máli að þarna sé um að ræða aðallega karfa og ufsa og ekki þorsk nema að litlu leyti. Það er sannleikskorn til í þessu. Þorskurinn er allra verst kominn af okkar helstu nytjafiskum. En hitt hygg ég þó að hljóti að vera öllum ljóst, að jafnvel málin standa þannig að þó að við losnuðum að mestu eða öllu leyti við útlendinga af miðunum, þá verðum við sjálfir að fara að skera niður okkar veiðar, sérstaklega þorskveiðarnar, og þá er ekkert eðlilegra en okkar skip, okkar tiltölulega nýju, stóru og mörgu skip sem það geta, fari að stunda í auknum mæli ufsa- og karfaveiðar, enda þótt þar sé við vissa erfiðleika að etja í sambandi við markaðsmál. En það er í rauninni ekkert eðlilegra, ef við verðum að fara sjálfir að takmarka þorskveiðar okkar, en að skipin íslensku taki þá að sækja í auknum mæli í þær fisktegundir sem ekki hafa verið ofveiddar fram að þessu og e. t. v. þola eitthvað lítils háttar aukna sókn. Séu ufsi og karfi ekki þegar fullnýttir af íslenskum skipum, eins og allt bendir til að ekki sé að fullu, þá hygg ég að þau hafi á næstunni fulla þörf fyrir að hagnýta sér þessar fisktegundir sem og allar aðrar fisktegundir á Íslandsmiðum að því marki sem skynsamlegt getur talist að veiða þær. Hér er þess vegna heldur ekkert til skiptanna í raun og veru, enda þótt hitt sé rétt, að þorskstofninn stendur allra höllustum fæti og sóknina í hann verður að takmarka hvað sem það kostar.

Ég sagði áðan að þessi kenning hv. 4. þm. Reykv., ritstjóra Tímans, um að samningurinn við vestur-þjóðverja auðveldi okkur sérstaklega viðureignina við breta, sé dálítið hræsniskennd kenning í munni þeirra sem halda henni fram og ætla sér að semja við breta, a. m. k. að vera búnir að því innan fimm mánaða. Ef ráðamenn hv. ætluðu ekki að semja við breta, heldur svara yfirgangi þeirra með öllum þeim tækjum og öllum þeim aðferðum sem við höfum yfir að ráða, þá kynni að vera eitthvert vil í að gera jafnvel nokkuð dýrkeypta samninga við vestur-þjóðverja. En nú held ég að engum blandist hugur um það, að það er rétt, sem ég hef staðhæft, að það er vilji ráðamanna, hvað sem þeir segja í dag, að grípa fyrsta hugsanlega tækifærið til að semja við hreta og ýmsar fleiri þjóðir. Og með slíka samninga eða samningaumleitanir í huga er samningurinn við vestur-þjóðverja um 60 þús. tonna ársafla hættulegur samningur og til hans verður vitnað sem fordæmis í þeim viðræðum um samninga sem fram fara á eftir.

Það kom m. a. fram í útvarpinu í gærkvöld, að Hattersley bretaráðherra og formaður samninganefndar þeirra hafði veitt þessu athygli, og kom engum á óvart. Hann talaði um það að út frá þeim samningi, sem hér lægi fyrir, þar sem þjóðverjum væru boðin 60 þús. tonn, hefði ekki verið óeðlilegt og raunar alveg rökrétt að íslendingar hefðu boðið bretum 95 þús. tonn og þá hefði verið kominn viðræðugrundvöllur, sagði ráðh.

Því hefur verið lýst hér í umr. áður, einkum af hálfu hv. 2. þm. Austurl., að þessi afli, 60 þús. tonn á ári í tvö ár, er ekki lækkun á ársafla vestur-þjóðverja miðað við árið í ár. Hann er lítils háttar lækkun frá árinu 1974, en fréttir herma að þjóðverjar sjálfir geri ráð fyrir því að heildarveiði þeirra á Íslandsmiðum öllum í ár verði um 40 þús. tonn. Þess vegna virðist hér vera um að ræða allt að 50% aukningu sem þjóðverjum er tryggð í tvö ár, en ekki minnkun eða lækkun á því aflamagni sem þeir hafa veitt og veiða nú hér við land.

Þessi samningur eða þessi samningsdrög, sem hér eru til umr., verða að skoðast í þessu ljósi sem ég hef nú reynt að varpa á samninginn. Í fyrsta lagi að þessi samningur gerist á sama tíma og við erum í fyllstu alvöru að tala um niðurskurð okkar eigin veiða, og í öðru lagi gerist hann sem fyrsti samningur af nokkrum, jafnvel nokkuð mörgum, sem hæstv. stjórnvöld vinna að því að gera um veiðar annarra þjóða.

Það er nú farið að bollaleggja um það fram og aftur, og það held ég að sé alveg nýtt fyrir okkur íslendinga og ýmsir hafa lagt við eyrun, — það er farið að bollaleggja um það fram og aftur hvaða aðferðum við sjálfir verðum að beita við niðurskurð á okkar eigin fiskisókn og aflasókn, hvaða aðferðir við eigum að nota til þess að skera aflasóknina mjög verulega niður. Menn ræða um það fram og aftur á Fiskiþingi hvort eigi til að mynda heldur að takmarka afla hvers skips og skipa þá því skipi, sem búið er að veiða upp í sinn kvóta, að hætta þegar hinu leyfilega aflamagni hefur verið náð, eða þeir ræða líka um hinn möguleikann, að skammta útgerðarstöðum ákveðna veiðihlutdeild og stöðva síðan allar veiðar, skilst manni, frá þeirri útgerðarstöð þegar veitt hefur verið upp í hinn leyfilega skammt. Á sama tíma og fjallað er um þetta í fullri alvöru sakir brýnnar nauðsynjar, að talið er, þá telja stjórnvöld landsins sig hafa ráð á því að standa í samningagerð við ýmsar þjóðir og bjóða þeim að fiska ekki aðeins milli 50 og 200 mílnanna, heldur líka, að því er virðist í þessu tilviki í nokkrum mæli og í öðrum tilvikum sjálfsagt í enn þá ríkara mæli, innan við 50 mílur.

Í þessari viku eiga, eins og þegar liggur ljóst fyrir, vestur-þjóðverjar að fá samning um 60 þús. tonna afla, þ. e. a. s þriðjungsaukningu frá afla þeirra á öllum Íslandsmiðum í ár. Samningar við belga og við norðmenn munu svo að segja vera annaðhvort rétt ókomnir á borð hæstv. ráðh. eða liggja þar nú þegar. Þar er rætt um umtalsverða veiði, og þar er ekki um að ræða ufsa eða karfa, heldur er það þorskur og ýsa sem þar er um að ræða. Svo koma færeyingar, frændur okkar og vinir, nokkur þúsund tonn þar vafalaust. Gegn því verður ekki staðið ef einhverjir útlendingar fá fiskveiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu á annað borð. Og bíða svo ekki jafnvel austurþjóðverjar, pólverjar og sovétmenn handan við næsta leiti? Ætlar þessi auðuga rausnarríkisstj., sem við höfum núna, líka að semja við þá?

Og loks vil ég koma að bretum, nágrönnum okkar og bandamönnum í NATO, — já, þessum bandamönnum okkar í NATO sem nú hafa beitt okkur hernaðarofbeldi í þriðja sinn á 17 árum. Mönnum finnst líklega ekki mjög trúlegt að íslensk stjórnvöld séu eftir það, sem gerst hefur allra síðustu dagana og er að gerast þessa daga á miðunum, líkleg til að fara að semja við bretana. En stöldrum aðeins við þetta atriði.

Hvað er það sem lesa má út úr því ákvæði samningsins við vestur-þjóðverja sem fjallar um hugsanlega frestun á framkvæmd samningsins eftir 5 mánuði ef refsitollar Efnahagsbandalagsins hafa þá ekki verið afnumdir? Hvað segir þetta ákvæði í raun og veru þegar menn lesa það blátt áfram og leggja í það allra eðlilegustu merkingu? Það segir ekkert annað en það, að þeir, sem þennan samning hafa gert, þeir gera ráð fyrir því, þeir telja það hér um bil víst að innan þess tíma, innan 5 mánaða, verður búið að semja við allar Efnahagsbandalagsþjóðirnar sem farið hafa fram á samninga, þá muni þetta ákvæði um frestun af sjálfu sér falla niður. Ég held að enginn væri með þann leikaraskap að setja þetta ákvæði inn um samning sem á að gilda aðeins til 5 mánaða ef menn reiknuðu ekki með því að búið yrði að semja innan þess tíma við þau Efnahagsbandalagslönd sem óskað hafa eftir samningum, þ. á m. við breta. Ef hv. stjórnarsinnar og hæstv. ráðh. neita því að þetta liggi að baki, þá geta þeir gert þá neitun sennilega og trúlega með einu móti og aðeins einu móti. Þeir geta gert hana svo sennilega að allir tryðu henni með því að lýsa því yfir hér og nú að það sé ekki lengur neinn samningagrundvöllur við breta meðan fiskstofnar okkar þola ekki þá sókn sem við íslendingar sjálfir teljum nauðsynlegt að sækja í þessa stofna, hvað þá heldur viðbótarsókn frá öðrum þjóðum. Ef þessu verður lýst yfir skýrt og skorinort, þá skal ég trúa því að ekki sé ætlunin að taka upp alveg á næstunni að nýju þráðinn, samningamakksþráðinn við breta.

Aðeins eitt eða tvö atriði skal ég nú ræða af þeim mörgu sem fram komu hjá hæstv. ráðh. í röksemdafærslu þeirra fyrir samningnum í umr. í gær. Þeir og þá alveg sérstaklega hæstv. iðnrh. lögðu á það áherslu að þessi samningagerð við vestur-þjóðverja, sem nú er uppi höfð, muni styrkja málstað okkar íslendinga á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ég heyrði ekki að þessu fylgdu mikil rök hjá hæstv. ráðh. Hann sló þessu í rauninni aðeins fram og taldi að þetta væri álit fróðustu manna. Svo veitti ég því athygli að ýmsir stjórnarliðar tóku þetta upp eftir hæstv. ráðh. og fóru jafnvel heldur frjálslega með og fullyrtu það, sem hann gerði nú ekki, að þetta mundi styrkja okkur mjög á hafréttarráðstefnunni eða framhaldi hennar. Ég leyfi mér að vefengja þessa ályktun. Ég tel mig að vísu ekki sérfræðing í þessum málum. Ég hef að vísu setið flesta undirbúningsfundi þessarar ráðstefnu og flesta hafréttarráðstefnufundi, og ég tel að það geti öllu fremur verið hætta á hinu, að slíkur samningur sem þessi eða slíkir samningar, ef margir verða gerðir, veiki okkar málstað fremur en hitt. Um þetta held ég að vísu að enginn geti fullyrt neitt, og vissulega vona ég að þó að þessi samningur verði gerður, eins og allar horfur eru á, þá hafi hann ekki mikil neikvæð áhrif á þeim vettvangi. En eitt er alveg ljóst í sambandi við þjóðverjana. Vestur-Þýskaland og nokkur önnur ríki hafa á allra síðustu missirum séð sér þann kost vænstan að fallast á hugmyndina um 200 mílna auðlindalögsögu í „prinsipi“, en þó með margvíslegum takmörkunum sem útvatna hugtakið svo mjög að lítið er eftir af því. Eins og hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, greindi frá í gær, hafa vestur-þjóðverjar og samherjar þeirra í þessu efni, austur-þjóðverjar, reynst okkur og okkar málstað á hafréttarráðstefnunni heldur þungir í skauti, svo að ekki sé meira sagt. Þeir tala þar hiklaust um sögulegan rétt, þeir tala um nágrannarétt, sem manni skilst að eigi að ná frá Þýskalandi til Íslands o. s. frv. Og það hefur raunar verið þannig að boðskap þjóðverja hinum síðasta á hafréttarráðstefnunni hefur verið lýst þannig af glöggum mönnum, að þeir samþykki að vísu 200 mílur, en mínus 188 mílur fyrir strandríki, þannig að eftir standa þá í raun og veru 12 mílur.

Hitt vil ég segja, að ég tel og vil gjarnan að það komi fram í framhaldi af þessum hugleiðingum, að útfærsla okkar f 200 mílur, ekki síst ef hún er myndarlega framkvæmd, sé jákvæð, hún sé mjög jákvæð aðgerð fyrir þróun mála á hafréttarráðstefnu, fyrir þá þróun sem við teljum æskilega og nauðsynlega og hún muni heldur flýta heldur en hitt fyrir því að sú ráðstefna komist bráðlega að æskilegri fullnaðarniðurstöðu.

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum, að við undirbúning undir útfærsluna nú í 200 sjómílur hefur verið tekið á ýmsum hlutum með hálfgerðum vettlingatökum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Ég held að það verði að segjast eins og er, að eðlileg og nauðsynleg áróðurs- og kynningarstarfsemi á málstað okkar hafi í þetta sinn verið rækt heldur slælega. Mér er satt að segja næstum því óskiljanlegt, hversu slælega hún hefur verið rækt, og þætti vænt um að fá hjá hæstv. utanrrh. skýringar á því, hvers vegna svona miklu minni rækt var við þetta lögð nú en þegar við færðum út í 50 mílur.

Við útfærsluna í 50 mílur var unnið að kynningu okkar málstaðar með margvíslegum hætti. Þá var sérstakur og mjög duglegur blaðafulltrúi ráðinn, þá voru margir kynningarbæklingar gefnir út, þeim var dreift víða, kvikmynd var gerð, ein eða fleiri, bresk skrifstofa, eins konar áróðursskrifstofa, var tekin á leigu, ef svo mætti segja. Ég held að vísu að árangurinn af þeirri tilraun hafi orðið heldur rýr, en það var þó allt að einu viðleitni sem í því fólst. Þetta var kannske ekki allt jafn vel heppnað, sem gert var í sambandi við kynningu á útfærslu okkar í 50 mílur, en ég hygg þó að þegar á heildina er litið hafi það verið býsna mikið og borið verulegan árangur, og það sýndi þó a. m. k. fullkomlega að við tókum útfærsluna alvarlega. Við meintum það sem við vorum að segja og gera.

Nú hefur heldur lítið verið gert, að því er mér er best kunnugt, í kynningarefnum. Þó standa málin þannig nú í dag, að ég held að það hafi verið nokkuð auðvelt að koma sjónarmiðum okkar á framfæri á ýmsum mjög mikilvægum stöðum, hjá ýmsum fréttamiðlum, jafnvel sumum bresku stórblöðunum sem ekki hafa verið lokuð fyrir málstað friðunarmanna, málstað þeirra sem vilja færa út í 200 mílur. Við hefðum þurft nú að leggja verulegt kapp á það og kosta nokkru til að sýna fram á það. að útfærsla okkar í 200 mílur er í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu mikils meiri hl. þjóða heims á hafréttarráðstefnunni. Ef þetta hefur ekki verið vanrækt, þá hefur það ekki verið rækt á þann hátt sem skyldi.

Það hefði ekki heldur verið þýðingarlítið að koma helstu niðurstöðum úr skýrslu og áliti fiskifræðinga okkar um ástand fiskstofnanna sem allra víðast út um heim, í fjölmiðla um allan heim. Vissulega átti það einnig að koma fram eftir að ljóst var orðið að breskir fiskifræðingar eru í meginatriðum sammála þessum niðurstöðum okkar manna. Þetta átti ekki aðeins að segjast einu sinni, það þurfti að segjast oftar og með margvíslegum hætti.

Það hefur allt of lítið verið að því gert, að því er ég tel, af hálfu íslenskra stjórnvalda eða þeirra, sem með þau mál fara fyrir þeirra hönd, að leiðrétta hinar og þessar beinar rangfærslur breskra stjórnvalda, að ég tali nú ekki um breskra fjölmiðla í sambandi við þessa útfærslu og þessi mál öll. Þessir aðilar hafa t. d. breitt mjög út þau ósannindi að víraklippingar íslenskra varðskipa séu stórhættulegar lífi og limum togaramanna. Ég hef það fyrir satt að einmitt þessi áróður þeirra sé mjög hættulegur okkar málstað hjá fólki sem tekur þetta trúanlegt, hjá almenningi í Bretlandi og þá ekki síst sjómannafjölskyldum sem trúa þessum áróðri. Varðskipsmennirnir sjálfir hafa svarað nú alveg nýlega vel og ég held á sannfærandi hátt að þetta sé engan veginn slík hættuaðgerð eins og bretarnir hafa viljað vera láta og hafa verið að telja fólki trú um að þetta sé. En ég efast um að þessu svari varðskipsmanna okkar hafi verið komið með eðlilegum og æskilegum hætti í hendur þeirra erlendra aðila sem vilja vita hið rétta og vilja skýra frá hinu rétta. Það hefði vissulega þurft að gerast og það ekki einu sinni, heldur oft.

Dagana áður en útfærslan tók gildi var greint frá því í íslenskum blöðum að starfsmenn sendiráða okkar erlendis sumir hverjir væru ekkert allt of ánægðir með það hvað þeir hefðu í rauninni lítið fengið í hendur til þess að kynna útfærsluna og hinn íslenska málstað. Það var m. a. frá því skýrt, það kom fram í viðtali við sendiherra Íslands í London, að það eina, sem þeir hefðu getað gert í þessu sambandi, í sambandi við dreifingu til að mynda efnis til blaðamanna og fjölmiðla, það var að dreifa fjölrituðu smábréfi um útfærsluna. Þetta virtist vera öll útgáfustarfsemin, og mér skildist helst að það hefði verið sendiráðið sjálft sem stóð fyrir þessu framtaki. Heyrst hefur að vísu að eftir að sendiráðin tóku að kvarta um skort á kynningarbæklingum og öðru efni hafi í einhverju rn., trúlega utanrrn., þó er ég ekki viss um það, kannske í sjútvrn., fundist einhverjar leifar af einum eða tveimur kynningarbæklingum þess ágæta manns, Hannesar Jónssonar, þáv. blaðafulltrúa og nú ambassadors, um útfærsluna í 50 mílur, og það hafi síðan verið þrautalending embættismanna okkar rétt fyrir útfærsluna að afhenda erlendum blaðamönnum og öðrum þetta ritverk Hannesar ambassadors með þeim ummælum að öll sömu rökin giltu nú eins og þegar fært var út í 50 mílur, þess vegna skyldu þeir bara nota bæklinginn með þeirri einu breytingu að strika alls staðar yfir töluna 50 og setja töluna 200 í staðinn. Það var svo loksins í gær, meira en mánuði eftir útfærsluna, að útbýtt var t. a. m. hér á Alþ. nýjum bæklingi um 200 mílna útfærsluna. Um það má segja: betra er seint en aldrei.

Herra forseti. Ég skal nú taka að stytta mál mitt nokkuð, en get þó ekki látið hjá líða að fara um það nokkrum orðum hvernig á því getur staðið að hæstv. ríkisstj. Íslands í nóvembermánuði 1975 leggur slíkt kapp á að semja við erlendar þjóðir, fyrst vestur-þjóðverja og síðan aðrar þjóðir, um veiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Hvað veldur ákafa ráðamanna að semja og það, eins og þegar hefur verið margsinnis sýnt fram á, nærri því hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti það að þriðji hver fiskur á Íslandsmiðum verði afhentur útlendingum. Það eru sjálfsagt margar ástæður sem liggja þarna að baki, og ég ætla ekki að tefja tímann með því að gera tilraun til að rekja þær allar. En ég ætla að láta nægja að fara nokkrum orðum um þá skýringuna, sem ég held að sé meginskýringin og sé næstum því lykillinn að þessu máli öllu, lykillinn að hjarta stjórnarherra landsins. Það sem veldur þessari ákefð, það sem veldur því að í dag eða á morgun er samið við vestur-þjóðverja, einhvern næsta dag við norðmenn og belgíumenn og fleiri og svo eftir svolítið lengri tíma einnig við breta, — það sem veldur þessu, er hin rómaða vestræna samvinna, það er aðildin að NATO sem þarna ræður fyrst og fremst ferðinni. Valdhafar þeir, sem nú ráða ríkjum á Íslandi, geta ekki til þess hugsað að íslenska þjóðin sjái þetta margrómaða varnarbandalag NATO í dálítið óheppilega skæru ljósi.

Núv. valdamenn og NATO-vinir eru minnugir þess ástands, sem hér ríkti um skeið fyrir rúmum tveimur árum, þ. e. a. s. sumarið og haustið 1973, þegar NATO-veldið Bretland var hérna síðast á ferðinni með hernað á hendur íslendingum innan 50 mílna landhelginnar. Þá vöktu þeir atburðir margan íslending til umhugsunar um eðli þessa félagsskapar og gildi þess fyrir okkur íslendinga, varnarlausa, vopnlausa, að vera í þessu félagi. Menn sáu þá hvaða varnarbandalag þetta var. Ýmsir, sem áður höfðu trúað kenningum NATO-sinna um hið svokallaða varnarbandalag fóru að draga réttar, eðlilegar ályktanir af bláköldum staðreyndum. Flotainnrás NATO-ríkisins Bretlands inn í landhelgi annars NATO-ríkis, inn á íslenskt lögsagnarsvæði, og ræfildómur Atlantshafsbandalagsins gagnvart hernaðarofbeldinu sýndi mörgum íslendingi og sannaði ljóslega að engin vörn er að aðildinni að NATO, nema síður sé. Og margur tók þá að spyrja sjálfan sig og jafnvel ráðamenn: Hvað höfum við að gera við að vera í slíkum samtökum sem líða einu stærsta aðildarríki samtakanna að ráðast með vopnuðu ofbeldi gegn smæsta ríkinu í samtökunum, því eina sem er vopnlaust? Og æ fleiri ályktuðu þá eitthvað á þessa leið: Er ekki tími til þess kominn að Ísland segi skilið við þetta bandalag, — bandalag sem reynst hefur okkur varnarleysisbandalag og ekkert annað? Er ekki mælirinn fullur þegar NATO-herskipum er nú í þriðja sinn á 17 árum beitt gegn íslendingum?

Það er til þess að koma í veg fyrir að slíkt ástand eins og var hér fyrir 2–3 árum vari lengi í þetta sinn sem núv. stjórnarherrar vilja ákaflega mikið í sölurnar leggja til þess að flýta samningum, ekki aðeins samningum þessum við vestur-þjóðverja, heldur einnig samningum við breta. Það þarf ekki ákaflega mikla getspeki til þess að giska á hvernig að málum verður staðið. Ég á ekki von á því að það verði alveg á næstunni haldinn fundur með breskum og íslenskum ráðh. Ég á ekki von á því að þeir hv. alþm. Þórarinn Þórarinsson og Guðmundur H. Garðarsson fái tækifæri til þess að horfa á þá Hattersley ráðh. og Einar Ágústsson eða Gunnar Thoroddsen ræðast við næstu dagana, kannske ekki næstu vikurnar. En hitt þykir mér ekki aðeins sennilegt, heldur alveg fullvíst, að það verður unnið að samningagerð við breta á bak við tjöldin, það verður gert svikalaust á næstu vikum eða mánuðum og því verður vafalaust lokið á þessu 5 mánaða tímabili, sem hæstv. ráðamenn virðast ætla sér til þess, og kannske miklu fyrr. Og þá fer fram ákaflega glæsileg sviðsetning, þannig að öll sú sviðsetning, sem við erum að fást við hér í sambandi við leikhús og annað þess háttar, mun blikna gersamlega fyrir þeirri miklu sviðsetningu sem þá verður. Einn góðan veðurdag stíma herskipin hér út fyrir 200 mílur, þá setjast menn að samningaborði, þá koma menn saman og yfir annaðhvort kokkteil eða kannske hádegisverði verður gengið frá þessu öllu og samningarnir verða undirritaðir.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. og fleiri úr stjórnarliðinu hafa á fundum í gær sagt nokkur hjartnæm orð um nauðsyn þess að íslendingar stæðu saman á örlagastundu í örlagaríku máli nú þegar bretar sækja okkur heim með herskipum í þriðja sinn. Hæstv. forsrh. hefur sagt þetta í útvarpi, blöðum og ég hygg sjónvarpi. Vissulega mun þjóðin sameinast í baráttunni gegn bretum. Hún mun standa að baki stjórnvalda um allar raunhæfar og viðeigandi aðgerðir til þess að svara þessu breska ofbeldi. En fólkið í landinu lætur sér ekki nægja bara venjuleg diplómatísk mótmæli sem ekki er hlustað á öðruvísi en eins og flugnasuð úti í Bretlandi. Ég hygg að fólkið í landinu vilji að ofbeldinu sé mætt með raunhæfari hætti, svo að bretar skilji að okkur er full alvara.

Alþb. hefur þegar sett fram hugmyndir um fyrstu eðlilegu og sjálfsögðu aðgerðirnar til þess að svara þessum síðustu ofbeldisaðgerðum breta. Köllum sendiherra okkar í Bretlandi heim. í mótmælaskyni og hótum slitum stjórnmálasambands við Bretland, ef herskipin fara ekki út úr landhelginni eftir ákaflega skamman tíma. Og ég vil leyfa mér að nefna eðlilegasta og rökréttasta svarið: Látum vini okkar vestræna vita það, að við teljum fráleitt að við eigum heima í svonefndu varnarbandalagi, sem er þess eðlis að eitt þátttökuríki skuli geta hvað eftir annað farið með vopnuðu ofríki á hendur minnsta bandalagsríkinu, vopnlausu með öllu. Um þetta næst trúlega ekki um sinn samstaða hér á hv. Alþ.

En hæstv. forsrh. og öðrum stjórnarsinnum vil ég að lokum aðeins segja þetta: Það eru því miður fyrirætlanir og aðgerðir stjórnvalda sem valda því að um vissan þátt landhelgismálsins skiptast íslendingar nú í tvær fylkingar, með og móti samningagerð. En hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og aðrir ráðh. hafa enn tækifæri til að sameina þjóðina alla að baki sér, svo að segja hvern einasta mann. Þeir geta gert það með því að fleygja þessari þáltill. í pappírskörfuna.