27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú þegar verið það mikið rætt hér að þess er tæplega að vænta að mikið komi nýtt fram í því. Mér þykir samt rétt að segja hér örfá orð vegna þess að ég tala ekki í útvarpsumr. í kvöld og alger þögn mín gæti orðið rangtúlkuð.

Ég verð að segja það, að í málflutningi hér hefur borið mest á deilum milli manna, og það er ekkert óeðlilegt og það er sjálfsagt og á að vera svo á Alþ. íslendinga. En ég held þó að við ættum ekki að gleyma annarri hlið á þessu máli, þeirri hlið að við íslendingar eigum að baki alllanga sögu í landhelgismálunum þar sem við höfum borið gæfu til að standa saman allir sem einn. Og það er ástæða til að fagna þeim árangri sem náðst hefur í þessum efnum.

Það var dálítið öðruvísi árið 1949, þegar íslendingar stóðu upp á þingi Sameinuðu þjóðanna og fluttu till. um að hafréttarmálin yrðu tekin þar til meðferðar, heldur en í dag. Þá voru margar þjóðir sem héldu því fram að þriggja sjómílna reglan væri þjóðréttarregla, og það var fyrir atbeina íslendinga að Sameinuðu þjóðirnar tóku þetta mál upp og vísuðu því til alþjóðalaganefndarinnar. Og síðan hafa íslendingar verið í fararbroddi — það er ekki of mikið sagt — á alþjóðavettvangi að vinna að brautargengi þessa máls. Og það er gott til þess að vita að sú barátta þeirra hefur borið mikinn árangur, — árangur sem við njótum ávaxtanna af í dag. Við höfum stigið mörg skref í þessu máli, útfærslu landhelginnar, og um það meginsjónarmið, um útfærsluna, hafa íslendingar alltaf verið sammála, staðið saman sem einn maður.

Fyrsti áfanginn var stiginn strax 1952 þegar við vorum lausir undan samningum við breta. Það skref var ekki stórt, það var aðeins út í 4 sjómílur, að vísu frá nýjum grunnlínum og þess vegna stækkunin meiri en ein míla segir til um. En þá eins og jafnan síðar tóku bretar upp baráttu gegn þessari útfærslu, þótt hún væri ekki meira en þetta. Og það þarf ekki að rekja þá sögu, að því fylgdi löndunarbann á íslenskan fisk í Bretlandi. 1958 tókum við annað skref og færðum landhelgina út í 12 sjómílur. Og enn snerust bretar gegn og þá með harkalegri hætti en áður, af því að þeir sendu þá eins og nú herskip á Íslandsmið. 1972 stigum við svo þriðja áfanga og færðum út í 50 sjómílur og enn hófst styrjöld. Og 1975 færum við út í 200 sjómílur og enn hefst styrjöld og styrjöld alltaf fyrst og fremst við breta.

Allar þessar ákvarðanir af okkar hálfu hafa verið teknar með einhliða ákvörðun Íslands, ekki af því að ég vilji segja að það sé endilega stefna eða hafi verið stefna íslendinga að gera þetta með einhliða ákvörðun, heldur að við höfum ekki átt nema einn kost. Dettur nokkrum í hug að það hefði borið árangur ef við hefðum farið að senda út sendimenn fyrir fram og reyna að ná samningum við aðrar þjóðir um að við ætluðum að færa landhelgina út í þetta og þetta á hverjum tíma? Nei, það var ekki um annað að ræða eða velja en að gera þetta með einhliða ákvörðun. En það hefur haft þessar afleiðingar í hvert eitt skipti, að stríð hefur með einhverjum hætti komið til.

Þeim átökum, sem af þessum einhliða ákvörðunum okkar hafa sprottið, hefur í öllum þessum tilfellum verið að lokum til lykta ráðið með samningum. Það skeði fyrst 1956 með samningnum í París á vegum Efnahagsstofnunarinnar eða í hennar húsakynnum, þegar gerður var samningur um afnám löndunarbannsins í Bretlandi. Það var að vísu samningur sem kostaði okkur ekki miklar kvaðir og í raun og veru ekki aðrar en þá, að við hétum því að stíga ekki nýtt skref í landhelgismálinu fyrr en fjallað hefði verið um landhelgismálið á þingi Sameinuðu þjóðanna, en þá hafði alþjóðalaganefndin skilað þangað áliti. En jafnframt var svo gerður samningur um afnám löndunarbannsins í Bretlandi. 1961, eftir strangt stríð þá, enduðu líka átökin með samningi. Og 1973 enduðu líka átökin við breta um stundarsakir og til bráðabirgða, eins og skýrt var tekið fram, með samningi. Og enn mun þessari deilu um 200 mílurnar ljúka með samningi. Alltaf hefur það farið svo að samningarnir hafa fært okkur að markinu og við höfum náð markinu. Og alltaf hafa Íslendingar staðið saman sem einn maður um að ná þessu lokamarki. Þetta er höfuðatriðið. Þetta má ekki gleymast, þótt við deilum hér, og það er þetta sem fyrst og fremst ætti að halda á loft.

En það er misskilningur, sem kom fram, að ég held hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, í gær, — ég bið hann afsökunar ef það er einhver annar þm. sem hefur haft orð á því, — að það hefði alltaf verið eiginlega þjóðarsamstaða í landhelgismálum. Ég sé að þm. vill ekki kannast við að hann hafi sagt það, þá sagði einhver annar það. Það er rétt, að það hefur verið þjóðarsamstaða um þetta sem ég var að tala um. En það hefur ekki verið þjóðarsamstaða um málsmeðferðina. Það sagði, held ég, annar þm. hér í gær að aldrei hefði verið eins mikil mótmælaalda og þung undiralda gegn samningum eins og einmitt nú. Sem betur fer eru menn fljótir að gleyma í pólitík. En það var svo hér á Alþ. 1961, að það voru ekki allir sammála um þann samning sem þá var gerður við breta og þjóðverja, og þá stóð svo á hér á Alþ. að það var stærri stjórnarandstaða þá heldur en nú, og þá man ég ekki betur en öll stjórnarandstaðan stæði saman sem einn maður gegn því að þessir samningar væru gerðir. Og þó að mörg stóryrði hafi hrotið í þessum umr. sem hér fara fram, þá held ég að það sé óhætt að fullyrða að þau hafi ekki verið minni og heldur meiri þá en nú, auðvitað að undanteknum amtmanninum sem talaði hér í gærkvöld.

Það var sitt hvað sem við stjórnarandstæðingar höfðum þá við þennan samning að athuga, alveg eins og stjórnarandstæðingar nú hafa við þann samning að athuga sem nú stendur til að gera. En það var eitt og fyrst og fremst eitt alveg sérstakt atriði sem við vorum andvígir, og það var það ákvæði í samningnum sem skuldbatt okkur almennt og fyrir fram til að hlíta úrlausn Alþjóðadómstólsins um útfærslu landhelgi í framtíðinni. Hins vegar var það mjög jákvætt við þennan samning frá 1961 að í honum féllu bretar frá mótmælum gegn útfærslunni, gagnstætt því sem þeir höfðu gert 1956, vegna þess að þá tóku þeir kirfilega fram að þeir héldu fast við sín fyrri lagasjónarmið í því efni og viðurkenndu alls ekki 4 sjómílur. Það var deilt um það, hvort þetta jafngilti viðurkenningu eða ekki. Reynslan sýndi að það jafngilti viðurkenningu, og eftir umþóttunartímann, þriggja ára, þá giltu 12 sjómílurnar. Bráðabirgðasamkomulagið, sem gert var við breta 1973, hefur nokkuð borið hér á góma og mitt nafn hefur víst eitthvað verið nefnt í því sambandi. Ég vona þess vegna að mér fyrirgefist þó að ég víki aðeins að því.

Ég vil fyrst segja það, að það var beinlínis tekið fram í alþingissamþykktinni frá 1972, að ríkisstj. skyldi vinna að því að ná samningum um tiltekinn umþóttunartíma við þær þjóðir sem hér höfðu veitt. Samkv. þessu umboði vann fyrrv. ríkisstj. að því að ná samningum bæði við breta og vestur-þjóðverja um vissan umþóttunartíma, og voru haldnir margir samningafundir um það efni. En þeir báru ekki árangur. Það bar sitt hvað á milli þangað til tókst að fá þennan bráðabirgðasamning við breta 1973.

Það er mikill misskilningur, sem kannske var látið að liggja, að ég hafi laumast til að gera þann samning. Ég fór á fund forsrh. breta bæði með vitund og samþykki ríkisstj., bæði með vitund og samþykki utanrmn. Ég kom ekki heim með neinn samning, ég kom heim með samningsdrög, lýsti því alveg skýrt og skorinort yfir, bæði við fréttamenn og á Alþ., að það væri algerlega óskuldbundið gagnvart þessum samningsdrögum.

Viðtökurnar við þeim samningsdrögum voru að vísu nokkuð á aðra lund en segja má að hafi orðið við þeim samningsdrögum sem hér liggja fyrir. Ég vil fyrst segja það, að það var aldrei gefið í skyn að með þessu samkomulagi væri bundinn endi um alla eilífð á deiluna við breta. Samkomulagið hét „Samkomulag um bráðabirgðalausn deilunnar um veiðar brezkra togara“, og í umr. hér á Alþ. lýsti ég því alveg skýrt og skorinort yfir að þarna væri um bráðabirgðasamkomulag að ræða. Ég sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta, svo:

„Menn spyrja hvað tekur við þegar þessu samkomulagi lýkur. Sumir eru svo bjartsýnir að halda af hafréttarráðstefnan verði þá búin að leysa vandann. Ég er ekki einn í þeirra hópi. Ég held að það verði miklu lengri tími þangað til hafréttarráðstefnan verður búin að ganga fullkomlega frá sínum málum. En ég er svo bjartsýnn að það muni að tveimur árum liðnum verða svo að þá hafi bretar fengið þann umþóttunartíma sem þeir geti sætt sig við og verði þá búnir að breyta sínum skipastól þannig, að hann verði ekki eins háður veiðum á Íslandsmiðum og hann hefur verið að undanförnu.“

Það má segja að í þessu efni hafi ég verið of bjartsýnn. En þó getur enginn um það sagt, hvað átt hefði sér stað og hvort það hefði verið farið fram á nokkra framlengingu á þessu samkomulagi ef ekki hefði verið stigið nýtt og stærra skref í landhelgismálunum. En ég sagði að þessum samkomulagsdrögum hefði verið tekið nokkuð á annan veg en nú, og ég hygg að það sé rétt. Þá tjáðu æðimörg samtök sig um þetta samkomulag og m. a. Landsamband ísl. útvegsmanna sem þá sendi frá sér bréf um þetta efni sem svo hljóðaði, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér leyfum oss að tjá yður, herra forsrh., að eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar og varastjórnar LÍÚ og formanna útvegsmannafélaga víðs vegar um land sem haldinn var í Reykjavík laugardaginn 20. okt.:

„Fundurinn samþykkir að mæla með því við ríkisstj., að hún geri samning um lausn fiskveiðideilunnar við breta á þeim grundvelli sem nú er fáanlegur og forsrh. Ólafur Jóhannesson kynnti fulltrúum LÍÚ á fundi 19. okt. s. l.“ Ályktunin var samþ. með 21:1 atkv.

Ég læt það liggja á milli hluta hvert þetta eina atkv. var.

Sama dag og ég talaði við Landsamband ísl. útvegsmanna, þá ræddi ég líka við Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda sem ætti að hafa og hefur auðvitað allgóðan kunnugleika á þessum málum. Og frá þeim fékk ég svo hljóðandi svar:

„Í framhaldi og tilefni af viðræðum, sem þér, hæstv. forsrh., efnduð til föstudaginn 19. þ. m. með nokkrum fulltrúum félags vors og Landsambands ísl. útvegsmanna, þar sem þér gerðuð grein fyrir grundvelli sem nú væri fyrir lausn á fiskveiðilögsögunni við breta, var haldinn fundur í félagi voru 20. þ. m. og var þar samþykkt svofelld ályktun:

„Almennur fundur í Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, haldinn í Hafnarhvoli í Reykjavík laugardaginn 20. okt. 1973, lýsir eindregnum stuðningi við þær till. sem forsrh. Íslands og Bretlands hafa orðið ásáttir um að bera fram sem bráðabirgðalausn í fiskveiðideilu um tveggja ára skeið. Telur fundurinn að með samþykkt till. þessarar sé afstýrt hættuástandi sem gæti, ef heldur áfram, leitt til mannskaða og fjárhagstjóns sem aldrei yrði bætt. Skorar fundurinn á Alþ. að samþykkja till.

Þess skal getið að allir meðlimir félagsins áttu aðild að afgreiðslu málsins og var ályktunin samþ. samróma.“

Sams konar eða svipaðar samþykktir voru einnig gerðar í Sjómannasambandi Íslands og Sjómannafélagi Reykjavíkur og fleiri sem ég hirði ekki um að rekja. Og þessi samkomulagsdrög voru samþ. hér á Alþ. með miklum meiri hl., en að vísu ekki einróma fremur en nokkru sinni ella, þegar um málsmeðferð hefur verið að tefla og um hefur verið að ræða samninga. Þá voru nokkrir á móti, og við því er auðvitað ekkert að segja frekar en áður og frekar en nú. Menn hafa eðlilega sína skoðun og eiga rétt á því.

En það er alltaf erfitt að fullyrða um það, hver sé afstaða þjóðar. Það fer engin bein könnun fram á því. Ég hygg þó að flestir muni við það kannast, að þjóðin hafi andað léttar eftir að þessi samningur var samþykktur.

Ég hef aldrei lagt á það neina launung, að ég vissi að alþb.-menn, samstarfsmenn mínir í stjórninni, voru þessum samningi andvígir í raun og veru, og það er engin ástæða til þess að fara dult með það. Þeir greiddu samt sem áður að yfirveguðu ráði þessum samkomulagsdrögum atkv., og það verð ég að álíta að hafi verið skynsamlega ráðið hjá þeim. Á þetta vildi ég aðeins benda í sambandi við þennan samning við bretana og sérstaklega undirstrika þetta, að það var ekki farið á bak við einn eða neinn í því efni og það gekk enginn að því gruflandi að þarna var í raun og veru aðeins um vopnahléssamning að ræða, þó að margir væru þá svo bjartsýnir að halda það og halda því fram að hafréttarráðstefnan mundi þá verða búin að leysa þessi mál.

Viðtökurnar nú við því samningsuppkasti, sem fyrir liggur, eru á annan veg. Það er staðreynd að ýmis samtök, fjölmenn samtök, hafa gert samþykktir sem beinast gegn þessu fyrirhugaða samkomulagi, og í umr. í gærkvöld lýsti hv. þm. Björn Jónsson því yfir að Alþýðusambandið mundi beita sér gegn þessu samkomulagi af því afli sem það ætti yfir að ráða. Við vitum að þetta eru mjög þýðingarmikil samtök og þau hafa yfir miklu afli að ráða, og við hlustuðum vissulega með athygli á þessi varnaðarorð. En það, sem gladdi mig sérstaklega, var að Björn Jónsson tók fram og undirstrikaði að þetta mundu þessi samtök gera með hverjum löglegum hætti. Og það er ekki neitt við það að athuga.

Þessi samtök hafa sinn rétt til að berjast gegn slíkri samþykkt með löglegum hætti. En eftir sem áður og þó að okkur sé ljóst hér á Alþ. að þetta séu þýðingarmikil samtök og afstaða þeirra geti haft margvíslegar afleiðingar, þá er það eftir sem áður skylda okkar hér á Alþ. að taka ákvörðun um efnið og bera á henni ábyrgð. Okkur getur yfirsést sem ákvörðunina tökum, en við verðum þá að taka afleiðingunum af því þegar þar að kemur. Það er Alþ. íslendinga, sem á að taka ákvarðanir sem þessar — Alþ. íslendinga sem ýmsar blaðursskjóður hafa gert sér leik að að undanförnu að kasta og hreyta ónotum í, — þessa stofnun íslensku þjóðarinnar sem er í reyndinni æðsta stofnun hennar, hefur verið burðarásinn í allri hennar frelsis- og sjálfstæðisbaráttu frá öndverðu. Ég held að við alþm. ættum a. m. k. að reyna að standa á verði um það að halda uppi virðingu Alþ. og haga okkar vinnubrögðum ekki á þann hátt að þeir dómar, sem um Alþ. hafa verið felldir, gætu kallast sannmæli. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að við, sem hér erum og kunnum að taka þá ákvörðun sem hér liggur fyrir, við föllum náttúrlega, við gleymumst. En Alþ. íslendinga mun standa. Það stendur á meðan Ísland er til. (Gripið fram í.) Hvað var þessi ágæti maður að segja? (Gripið fram í: Hvað er Alþingi án þorsksins?) Án þorsksins, já. Þorskurinn er mikil undirstaða efnahagslífs okkar íslendinga. En það eru líka til þorskar á þurru landi.

Það lét einn ónefndur þm. að því liggja í umr. í gærkvöld að ég hefði verið eitthvað óheill í samstarfi í vinstri stjórninni. Mér væru það mikil vonbrigði, svo að ég segi ekki meira, ef samstarfsmenn mínir í þeirri stjórn bera mér það á brýn. Það er nú svo, að hverjum og einum þykir sinn fugl fagur, já, jafnvel þótt hann sé nú fjaðralaus og magur, og það er nú svo með mig að mér þykir vænt um vinstri stjórnina og hef aldrei farið dult með það. Ég álít að hún hafi reist sér óbrotgjarnan minnisvarða í íslenskri sögu. Ég álit, að hún hafi hafið atvinnubyltingu hér á þessu landi. Þeirri atvinnubyltingu er haldið áfram af núv. ríkisstj.

Nú koma menn og segja: Það eru komin allt of mörg skip inn í landið.— Guð hjálpi þessum mönnum. Hvers vegna missti Ísland sjálfstæði sitt á sínum tíma? Af því kannske fyrst og fremst að íslendingar hættu að sigla, af því að íslendingar hættu að eiga skip og urðu ósjálfbjarga og upp á aðra komnir. Nei, það eru ekki komin of mörg skip.

Ég held að við í vinstri stjórninni höfum, á meðan hún var og hét, átt gott samstarf saman, og ég sé sannarlega ekki eftir þeim árum. Og mér er ljúft að taka það fram, að ég tel að Alþb. hafi staðið alveg heilt í þeirri ríkisstj., og eins og ég sagði, þá yrði ég fyrir vonbrigðum ef alþb.-menn gæfu okkur framsóknarmönnum ekki sama vitnisburð, ja, kannske að undanteknum amtmanninum (StJ: Ég mun bæta við þennan vitnisburð seinna í dag.) Ég efast ekki um það. Hv. alþm., sem greip fram í, er þekktur af sinn rabbi, skemmtilega rabbi, og ég efast ekki um að hann getur rabbað eitthvað áfram við okkur hér í dag, seinna. En ég hlýt þó að taka meira mark á þeim, sem störfuðu saman í ríkisstj. heldur en hv. þm. Stefáni Jónssyni í þessu efni. Og það er kunnugt af hverju vinstri stjórnin bilaði, að einn samtakamaðurinn brást fyrst og fremst. Hann var einn af þeim sem greiddu atkv. gegn samkomulagsdrögunum við breta, en hann datt nú — ég vil ekki segja því miður — hann datt upp fyrir i næstu kosningum. Ekki var nú gróðinn, sem hann hafði af mótstöðunni, meiri en svo. Og svo fór að lokum, eins og öllum er kunnugt að ég fer ekki að rifja hér upp, að meiri hl. Samtakanna snerist gegn stjórninni og flutti vantraust á hana og þá féll hún. Og það er af þeim ástæðum sem hún fór.

Annars er mér hjartanlega sama um hvað hv. þm. Stefán Jónsson heldur um þetta efni og hvort hann heldur að það sé mér að kenna að vinstri stjórnin fór út um þúfur eða ekki. Það er illa farið með tíma Alþ. að ræða um hann sérstaklega hér, og það ætla ég ekki að gera nema að ákaflega litlu leyti. Það er þó alltaf kurteisi að þakka fyrir sig, og ég get ekki látið hjá líða að þakka honum fyrir það lof sem hann bar á mig hér í gærkvöld. Það er nú svo að flestir menn eru þannig gerðir að þeim þykir lofið gott, jafnvel þótt það sé oflof. Og auðvitað var það oflof sem hann bar á mig, bæði mín miklu áhrif í mínum eigin flokki og mín yfirþyrmandi áhrif i vinstri stjórninni, jafnframt því sem hann gerði svo hlut sinna manna þar minni en réttmætt var og er. En það er nú einu sinni svona, að þar sem skáldæðin er rík, þá getur hún stundum borið raunveruleikann ofurliði og leitt mann jafnvel út á villigötur. Og ekki meira um það.

Ég skal þá víkja dálítið að því samkomulagi sem hér liggur fyrir, en vil fyrst endurtaka það sem ég sagði, að það var vilji til þess i vinstri stjórninni hjá öllum að leysa þessi mál með samningum um umþóttunartíma. Og í raun og veru héldum við að þjóðverjar væru miklu auðveldari en bretar, og við héldum að samningar við þá mundu nást, sérstaklega eftir að samkomulag hafði verið gert við bretana. En sú von brást, og það voru fyrst og fremst tvö atriði sem strandaði á. Það voru fyrst og fremst tvö atriði, og ég held að ég þori að fullyrða að ef þau atriði hefðu fengist í lag, þá hefði ekki strandað á öðrum atriðum þó að um þau væri víss deila. Og þessi tvö atriði voru það, að þjóðverjar héldu fast við að verksmiðjuskip og frystitogarar mættu vera með í samkomulaginu og fá veiðiheimildir. Því var alltaf algerlega neitað af okkar hálfu, og það var eitt þýðingarmesta atriðið við breska samkomulagið að þar voru frystitogararnir útilokaðir og þar með skapað það fordæmi sem auðveldaði okkur í samtölum við aðrar þjóðir að halda þessu fram ríkt. Þetta var fyrra atriðið. Hið síðara var það, að vestur-þjóðverjar vildu af lögfræðilegri þrákelkni endilega hafa það í samkomulaginu að þeir mættu koma einhvers staðar, þótt ekki væri nema á tveimur stöðum, upp að 12 mílunum, vegna þess að annars töldu þeir að þeir væru að viðurkenna 50 mílurnar. Það voru þessi tvö höfuðatriði sem strandaði á, þó að ágreiningur væri um hversu nærri þeir almennt mættu koma, annars vegar 30 mílur kannske, sem við höfum nefnt, en hins vegar 25 sem þeir vildu miða við sem höfuðlínu. Og enn fremur var ágreiningur um aflamagnið, en þó ekki meiri en svo, að ég hygg að hann hefði jafnast ef það hefði verið hægt að fá botn í þessi tvö atriði sem ég nefndi.

Og þá skal ég til þess að lengja ekki mitt mál úr hófi gera grein fyrir því, hvers vegna ég nú er með því samkomulagi sem hér liggur fyrir. Það er þá í fyrsta lagi, að það hafa nú fengist strikuð út þessi tvö atriði sem stóðu áður sérstaklega í vegi. Það er alveg skýrt í þessu samkomulagi að verksmiðjutogarar og frystitogarar koma ekki til greina, það er ekki samið um þá, þeir eru strikaðir út. Og það er enn fremur fallist á það i þessum samkomulagsdrögum að þjóðverjar komi hvergi upp að 12 sjómílum. Þetta eru vitaskuld mjög þýðingarmikil atriði, og það er náttúrlega misskilningur að ætla að halda því fram að hér sé um einhverja dulbúna verksmiðjutogara að ræða, jafnvel þótt það séu í þeim einhverjar kvarnir eins og víðar.

Það er sagt að það hafi verið tekið fram í drögum, sem menn sáu hér fyrst, að þar hafi verið ákveðið að þeir mættu vinna úr úrgangi mjöl og lýsi. Hvað hefur gerst eftir að við skoðuðum þessi samkomulagsdrög? Hefur þetta ekki verið algerlega strikað út? Ég ætla að það geti engum dulist að eftir lögfræðilegum skýringum sé það nú alveg skýrt, að þegar þannig hefur verið fellt niður ákvæði sem hefur þó verið þarna, þá verður það ekki skilið á annan veg en þann, að það kemur ekki til greina að þeir megi gera þetta.

Annað atriði, sem veldur því að ég get fallist á þetta samkomulag, er það um hvers konar fisktegundir er þarna að tefla. Þarna eru aðalfisktegundirnar karfi og ufsi, sem þjóðverjar hafa reyndar veitt hingað til fyrst og fremst, og alveg bundið takmörkunum hve mikið þeir megi veiða af þorski. Þeir mega aðeins veiða af þorski 5000 tonn. Það er alveg skýrt að þegar þeir hafa veitt 5000 tonn af þorski, hvort sem þeir hafa veitt mikið eða lítið af karfa og ufsa, þá verða þeir að hætta veiðum. Þetta er algerlega ótvírætt af 2. tölul. í þessari orðsendingu, þar sem segir:

„Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands ábyrgist“ o. s. frv. að fara ekki fram úr þessum heildarafla sem þar segir og þar af þorskafli ekki meiri en 5 þús. tonn. Stjórn Vestur-Þýskalands hefur skuldbundið sig til þess, — að jafnskjótt og þeir hafi veitt 5 þús. tonn af þorski, þá skuli veiðum hætt, vegna þess að stjórn Vestur-Þýskalands, þótt voldug sé, getur ekki ábyrgst það, ef veiðum er haldið áfram að ekki slæðist eitthvað með af þorski til viðbótar. Þess vegna hefur hún með þessu ákvæði alveg ótvírætt skuldbundið sig til þess að stöðva veiðarnar á Íslandsmiðum þegar 5 þús. tonnum af þorski er náð, hvað sem liður aflanum af karfa og ufsa. En það þarf ekki að endurtaka það, sem hér hefur verið sagt og hefur komið fram í áliti fiskifræðinga, að það er reyndar þorskurinn sem er okkar viðkvæma mál í þessu efni, en karfinn og ufsinn eru það síður af mörgum ástæðum. Það er meira af þeim tegundum. Það hafa jafnvel ekki farið fram svo fullkomnar rannsóknir í þeim efnum að fiskifræðingar vilji staðhæfa að þau mörk, sem þeir nefna í því efni, séu endanlega rétt, það taka þeir fram. Og svo í þriðja lagi eru þessar fisktegundir, karfi og ufsi, miklu verðminni og illseljanlegri en þorskurinn. Og þetta var auðvitað meginatriðið þegar um þessa samninga er að ræða. Þetta hefur auðvitað verið tekið fram af mörgum sem hér hafa talað á undan mér, svo að það er ekki ástæða til þess að fjölyrða um það. En ég undirstrika að það er þetta atriði sem ræður miklu í mínum huga, að ég tel þetta samkomulag eftir atvikum aðgengilegt og að það sé rétt af okkur að gera það.

Þá bendi ég enn fremur á það og það hefur líka mikil áhrif, að í þessu samkomulagi felst viðurkenning á verndun friðunarsvæða sem íslendingar ákveða. Það stendur i 5. lið þessarar orðsendingar. Það var einhver hv. þm. að tala um það í gær að það væri engin trygging fyrir því að smáfiskur væri verndaður. Ég sé ekki betur en þarna standi: „Í því skyni að vernda svæði þar sem mikið er af ungfiski og hrygningarfiski á hafsvæðinu umhverfis Ísland, ábyrgist ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands, að þýskir togarar stundi ekki þær veiðar, sem íslenskum skipum eru bannaðar af þar til bærum stjórnvöldum.“ Ég hef haldið að ungfiskur og smáfiskur féllu dálítið saman, þannig að ég held að það geti nú ekki verið neinn vafi á því að það sé smáfiskur sem er verndaður einnig með þessu ákvæði. Og ég vil enn fremur í þessu sambandi benda á 6. lið tölul. 2, þar sem þetta er líka undirstrikað, að þau skuldbindi sig til þess að veiða ekki fisk þar undir t. d. þeim stærðarmörkum sem þar er um að ræða. (Gripið fram í: Það eru skyndilokanirnar.) Það eru skyndilokanirnar, sem vantar í þetta, já. En því miður, vantar þær ekki enn þá í okkar íslensku löggjöf? (Gripið fram í: Það er verið að betrumbæta.) Já, en það er nú ekki komið í gegnum Alþ. enn. Það er eins líklegt að það heyrist eitthvert tal á hv. Alþ. áður en þau drög, sem hafa verið undirbúin um það efni, verða að lögum.

Það hefur verið aðeins hreyft þeirri aths. við hetta samkomulag að það gæfi ekki íslendingum nægilegt tækifæri til þess að hafa eftirlit með því að þjóðverjar fylgdu þeim reglum, sem hér eru settar. En ég fyrir mitt leyti get ekki séð að á því séu nokkur tvímæli að íslendingar hafi algerlega fullan rétt í þessu efni. Og þar er einmitt 2. mgr. 8. tölul. Það er alger misskilningur að setja þá mgr. í samband við fyrri mgr. Ef það hefði átt að vera, þá hefði þetta ekki verið sérstök mgr. En þetta er sérstök og sjálfstæð mgr., þar sem segir: „Eftirlitsmenn mega fara um borð í þýsk skip til að kynna sér leiðarbók og aflaskýrslur svo og rannsaka veiðarfæri og afla um borð.“ Þetta er alveg ótvírætt. Og ef þetta skyldi nú eitthvað koma til kasta landhelgisgæslunnar, sem ég veit ekki, það er allt eins líklegt að það væri í höndum Hafrannsóknastofnunarinnar, þá skyldi sannarlega ekki standa á mér að ráða t. d. hv. þm. Stefán Jónsson sem eftirlitsmann ti1 þess að fara um borð í þýsku togarana til þess að kanna þetta. (StJ: Ég heyrði ekki almennilega, hvað ráðh. sagði.) —- að ég skyldi glaður ráða hv. þm. sem eftirlitsmann til þess að fylgjast með veiðum, ef það félli í hlut landhelgisgæslunnar að hafa þetta eftirlit með höndum. (StJ: Ég hef farið út með landhelgisgæslunni.) Já, já. og notið þar góðrar fyrirgreiðslu, vona ég. (StJ: Í tíð annars forsrh.) Já, en hv. þm. hefur kannske ekki leitað eftir því í minni tíð? (StJ: Að vísu gerði ég það, en fékk synjun.) Jæja.

Að lokum er þess að geta, að samkv. þessu samkomulagi er það svo að það má fresta því eftir 5 mánuði ef bókun nr. 6 verður þá ekki komin til framkvæmda, þannig að það er allt eins líklegt, eins og horfir nú, að þetta samkomulag verði í reynd ekki til tveggja ára, heldur aðeins til 5 mánaða.

Ég er auðvitað þakklátur fyrir allt lof sem borið er á fyrrv. ríkisstj., og það er rétt, eins og hér hefur komið fram hjá ýmsum þm., að hún vann vasklega í landhelgismálinu, m. a. með því að gera ýmsa bæklinga og kynna málið rækilega, m. a. með því að senda út sendimenn til kynningar á málinu. Það er t. d. að mínu áliti ekki nokkurt vafamál að sendiför þeirra Hannesar Jónssonar og Steingríms Hermannssonar á þing Afríkuríkja hafði — ja, ég vil segja hafði afgerandi áhrif á afstöðu þá sem þessi ríki tóku svo síðar. Sannarlega fór hv. þm. Jónas Árnason í margar ferðir til Bretlands og ræddi þar við menn, og ég vanmet það alls ekki hvað hann gerði í þeim efnum.

Hinu verð ég svo að vísa til föðurhúsanna, þegar annaðhvort er látið að því liggja að landhelgisgæslan hafi verið slöpp — eða ef menn veigra sér við því að beina nokkrum skeytum að skipshöfnum landhelgisgæslunnar, þá a. m. k. að dómsmrh. hafi verið slappur, og það er ekki nema réttmætt því að hann ber ábyrgðina og stendur undir henni. Ég vil vísa því heim til föðurhúsanna. Landhelgisgæslan hefur alltaf gert það sem hún hefur getað og verið beitt þannig. Og ég met miklu meir það sem t. d. skipherrar í landhelgisgæslunni segja um mín skipti af þessum málum og mitt samband við þá heldur en það sem hv. þm. Stefán Jónsson segir. Og mér er óhætt að segja það, að það hefur aldrei af minni hálfu verið haldið aftur af þeim. Þegar flotinn á sínum tíma kom á Íslandsmið var varðskipunum beitt eftir því sem mögulegt var. Hins vegar sýndi það sig, að landhelgisgæsluna skorti auðvitað eðlilega afl á við þann óvin sem við var að eiga, og sérstaklega gagnvart þeim baráttuaðferðum sem beitt var gegn varðskipunum, sem sé að það var lögð sérstök stund á það af hálfu dráttarbátanna og reyndar togara einnig að sigla á varðskipin. Það gerðist æ ofan í æ, og varðskipin löskuðust af þeim sökum og urðu þess vegna stundum að dvelja til viðgerðar um nokkurn tíma í höfnum. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um að það verður nú beitt sömu aðferðunum í þessu efni. Skipherrarnir á varðskipunum hafa sýnt það áður að þeir eru vaskir menn og hljóta, þótt með annarlegum hætti sé, aðdáun i raun og veru hinna bresku sjómanna sem þeir eru að fást við, af því að þeir geta ekki komist hjá því að viðurkenna það og sjá hvílíkir afburðasjómenn þar eru að verki.

Það verður auðvitað áfram haldið þeirri stefnu í þessu efni eins og áður hefur verið gert, að landhelgisgæslunni verður beitt af fullum krafti og hún látin gera það sem í hennar valdi stendur til þess að trufla og aftra veiðum breskra togara hér — og taka þá ef mögulegt er. En það hefur hingað til reynst erfitt að taka togara sem ekki vilja hlýða stöðvunarmerkjum. Það er enginn leikur að fara um borð i togara til að taka þá fasta ef þeir eru á fullri ferð. Þó hefur tekist að stöðva togara og færa hann til hafnar. Það er satt að 1andhelgisgæslan er betur búin nú til þess að mæta átökum en áður, og verður vonandi til þess kostað að hún verði enn betur undir það búin. En hitt verða menn þá jafnframt að hafa í huga, að það er dálítið annað að verja 200 sjómílna svæði heldur en 50 sjómílna. Það er dálítið annað og var dálítið annað að verja 12 sjómílna svæði heldur en 50 sjómílna svæði, þannig að þessi atriði verður að taka með í reikninginn.

En ég ætla ekki að fara í þessu sambandi að ræða annars um baráttuna við breta. Ég veit að það er svo, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að allir íslendingar eru sammála um að standa saman og verjast með öllum mætti og svara með viðeigandi hætti innrás breta. Og það ber ekki allt upp á sama daginn í því efni. Þar skiptir mestu máli að úthaldið sé fyrir hendi, vegna þess að ég spái því að við eigum fyrir höndum langt stríð við breta að þessu sinni, og undir það skulum við búa okkur.

Eins og ég sagði áðan, þá er ekkert sjálfsagðara en menn deili hér á Alþ. Alþ. er glerhús í vissum skilningi, opinn vettvangur sem öll þjóðin getur fylgst með og á að fylgjast með umr. sem hér fara fram. En það eru og verða alltaf á hverjum tíma einhver vandamál uppi þar sem Alþ. verður að taka afstöðu, og þá verður meiri hl. að ráða og bera ábyrgð á því og taka afleiðingum sinna verka. Og þannig verður það í þessu máli. Menn flytja mál sitt og fá tækifæri til þess á allan hátt, en síðan verður svo eftir okkar réttu leikreglum og okkar stjórnskipun Alþ. eða meiri hl. að taka ákvörðunina. Það er ekkí hægt að haga þessu á annan hátt. Ég veit að allir hv. alþm. eru sammála um að þannig eigi þetta að vera og þannig hljóti þetta að vera. Og það veltur á ýmsu hverjir eru í meiri hl. eða minni hl. hverju sinni. En þegar deilan er afstaðin, þá munu stóryrðin gleymast fljótt, en hitt verður munað, að það er áfram stigið. Við a. m. k. stigum þetta skref i þeirri trú að það þoki okkur nær því marki, að Ísland fái að fullu og öllu viðurkenndan yfirráðarétt sinn yfir 200 sjómílum. Við megum ekki gleyma því, að við erum ekki einir í heiminum og það er litið á okkar málstað úti í hinum stóra heimi talsvert misjöfnum augum. Við þurfum að vinna samúð og skilning nægilega margra til þess að fá okkar mál fram. Við höfum notið víða samúðar og skilnings fyrir okkar málstað. Og við verðum að gæta þess að halda þannig á málum að við hrindum ekki frá okkur þeim öflum, sem gætu viljað styðja í þessu efni, að ná þessu lokamarki, og það er lokamarkið, sem við eigum að horfa á, jafnvel þótt við endrum og eins verðum að gera krók á leiðina. það, sem máli skiptir, er að komast ú leiðarenda, ekki endilega hvort það tekur árinu lengur eða skemur.

Það er ekki nokkur vafi á því að með þessum samkomulagsdrögum eru þjóðverjar á leiðinni að viðurkenna okkar útfærslu. Það felst í þessu í reynd mjög veigamikil viðurkenning. það er ljóst þegar litið er t. d. á þá togara sem þarna er um að ræða, að þeir eru nú allmargir komnir til ára sinna og mundu margir á íslenska vísu líklega vera taldir aflóga. Og allt gengur þetta í þá átt og auðvitað er það leiðin til að vinna mál að dreifa óvinunum, að einangra aðalóvininn, og það er það sem við erum að reyna að gera í þessu máli —- og það tekst.