27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson virðist enn trúa því í blindni, sem Pétur Sigurðsson segir honum. (Gripið fram í: Verri eða betri?) Verri, eða jafnvel því sem hann skrökvar að sjálfum sér. Það er ýmist kát- eða grátbroslegt að heyra hæstv. ráðh. fullyrða það að gæslunni hafi alltaf verið beitt svo fast sem verða mátti á hverjum tíma. Þessi fullyrðing er svo augljóslega röng í eyrum þeirra sem til þekkja. Svo að við nefnum dæmi, þá mætti spyrja: Var t. d. ekki auðvelt að taka bresku togarana þegar þeir leituðu landvars hér í fyrra þorskastriði. Ekkert slíkt var reynt.

Á þessu ári var lítið amast við þjóðverjum á miðunum. Það var ekki fyrr en þeir félagar Pétur Sigurðsson og hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson ákváðu að kaupa 50 manna farþegaflugvél í gæsluna og urðu varir við mjög mikla gagnrýni, að farið var að klippa á víra eins og eins togara til þess að láta sljákka dálítið í þeirri gagnrýni. Heldur hæstv. ráðh. að ekki væri hægt að taka togara ef byssum skipanna væri beitt, þótt gamlar séu, svo gamlar að þær gætu verið úr Búastríðinu? Það vill svo til að ég var sjálfur á skuttogara um nokkurn tíma s. l. sumar. Allt frá Hvalbaksgrunni að austan að Reykjaneshrygg að vestan voru þýskir togarar að veiðum, sums staðar allt að 12 mílum, á sama tíma og útvarpið kom með fréttir frá yfirstjórn Landhelgisgæslunnar að þjóðverjar væru ekki nær landi en 30 mílur. Ekkert var gert til að trufla veiði þessara skipa og þar veiddu þeir þá eins og engin útfærsla hefði átt sér stað. Sannleikurinn um gæsluna er sá, að henni hefur ekki verið beitt nema að litlu leyti, og er þá vafalaust um að kenna linskulegri yfirstjórn í landi. Það er þetta, sem er sannleikurinn, og þennan sannleik held ég að hæstv. ráðh. mætti heyra oftar.

Herra forseti. Ekki veit ég síðan hvenær vestur-þjóðverjar hafa eignast þá hönk upp í bakið á okkur íslendingum að utanrrh. fann hjá sér sérstaka hvöt til þess að heimsækja húnverja þessa ásamt meðreiðarsveinum á dögunum í því skyni að færa þeim a. m. k. 7000 millj. kr. að gjöf. Síðan ég man eftir hafa þýðverskir ekki sent okkur aðrar sendingar en þær sem miður góðar mega teljast. Þeir hafa sökkt fyrir okkur skipum og myrt með köldu blóði íslenska sjómenn í stórum stíl. Varla hefur það athæfi skapað þeim inneign hjá okkur. Þeir hafa auk þess mokað upp fiski af Íslandsmiðum, að miklu leyti í okkar óþökk, þvert ofan í lög okkar og reglur, í krafti ofbeldis. Auk þess hafa þeir beitt okkur viðskiptaþvingunum og löndunarbanni, svo að enn sé rakinn hluti þess lista sem hæstv. ráðh. Einar Ágústsson telur máske til slíkra velgjörða að við megum til að launa þeim með nokkrum milljörðum í formi fisks sem við eigum og megum ekki missa.

Hæstv. ráðh. Einar Ágústsson er prúður maður og sléttur, fágaður og þægilegur í umgengni. En ekki vissi ég að hann væri hlaðinn slíkri gjafmildi í yfirmáta fyrir hönd þjóðarbúsins sem lifir nú á erlendum lántökum, á langtum minna en engan gjaldeyri og rambar nú þegar, að því er hæstv. ráðh. og félagar segja okkur, dag hvern á barmi gjaldþrots, að hann sjái sér nú sérstaka þörf á því að færa þessum NATO-bræðrum milljarða á milljarða ofan, og eru þjóðverjar þó ekkert blankir á heimsvísu. Verst er þó að það er verið að gefa úr þeim eina sjóði sem við eigum, sjóði sem er þó þannig á sig kominn að ef ekki er bæði fyllstu aðgæslu beitt og nýjar og harkalegar aðferðir notaðar til þess að stofn hans geti viðhaldist, þá tæmist hann einnig og eftir sitjum við íslendingar án okkar einu auðlindar, hnípin þjóð í vanda. Það er því augljóst að slíkur sjóður er ekki einu sinni nægilegur okkur einum, nema alger stefnu- og hugarfarsbreyting komi til af okkar hálfu, og þó þaðan af síður til þess að deila með öðrum. Allir sérfræðingar okkar hafa sent frá sér alvarlega viðvörun sem lesa má í yfirliti Rannsóknaráðs ríkisins og skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, og er ekki laust við að setji að mönnum hroll við lesturinn og alvarlegur kvíði sæki að. Aðvörunin hefur verið rituð á veginn.

Niðurstöður vísindamanna eru einfaldlega þær, að sá afli, sem við getum auðveldlega sótt á okkar mið, er ekki meiri en svo og raunar minni, að hvert tonn, sem aðrar þjóðir fiska hér á Íslandsmiðum, er frá okkur tekið, þannig að við verðum þá, ef við ætlum ekki að eyða fiskstofnunum, að draga úr okkar eigin afla að sama skapi og meira að segja meira en allir aðrir. Samt fóru þeir félagar, hæstv. ráðh. Einar Ágústsson og fylgisveinar, til þeirra þýsku og gáfu þeim milljarðana. Ég segi : gáfu, því að mér er ómögulegt að koma auga á að við höfum fengið nokkuð í staðinn. Eða var það? Fengum við viðurkenningu á útfærslunni? Nei, við fengum alls enga viðurkenningu á útfærslunni, jafnvel þótt við hefðum opnað gömlu 50 mílna lögsöguna fyrir þeim upp á gátt á mörgum mjög viðkvæmum svæðum: á Vestfjörðum á miklum þorskamiðum, á Eldeyjarsvæðinu, þar sem bæði er hægt að fá karfa og ufsa og fleiri tegundir, og síðast en ekki síst við Suðausturland. Þar munu þjóðverjar fiska mestan sinn ufsa. Við Suðausturland hafa þeir fengið aðgang að austurhluta Mýragrunns, Hornafjarðardjúp, Stokknesgrunn, Lónsdjúp, Papagrunn, Berufjarðarál, Hvalbaksgrunn, Reyðarfjarðardýpi báðum megin og Gerpisgrunn. Þeir geta farið á þessum svæðum allt að 12–13 mílur inn á grunnið og geta þar með togað fyrir öll horn á grunnunum þarna út af Suðausturlandinu. Þeir geta togað á þeim svæðum þar sem þeir hafa fengið drýgstan afla til þessa.

Í sambandi við þessa samninga er mikið talað um bókun 6 í sambandi við samning við Efnahagsbandalag Evrópu. Það var þannig, eins og við munum hér í hv. Alþ., að við gerðum samning við Efnahagsbandalagið um gagnkvæmar tollalækkanir. En þessi samningur var svo furðulegur að einu leyti að! ég get ekki stillt mig um að minnast á það. Það voru útlendingarnir, það var Efnahagsbandalagið sem setti fyrirvara, og sá fyrirvari var einhliða og enginn fyrirvari settur af okkar hálfu á móti. Og hann var um það, að ef þeir fengju ekki viðunandi lausn á landhelgismálinu, eins og þeir orðuðu það, þá fengjum við ekki tollalækkanir á okkar fiskafurðum í útlöndum. Á sama tíma og við höfum verið að lækka tolla á vörum, sem við flytjum inn frá Efnahagsbandalaginu, hafa þeir verið að hækka tolla á þeim fiski, sem við erum að selja til þeirra.

Þessi samningur, eins og flestallir samningar við útlendinga sem ég man eftir, einkennist af mikilli linkind við útlendinga. Og sá samningur, sem lagður hefur verið á borðið hjá okkur núna, er líklega einn sá allra versti þeirra. Það má líka spyrja: Hvað tekur við að samningstímanum loknum? Eru einhver ákvæði um að þetta eigi að skoðast sem aðlögunartími? Um það er ekkert orð. Þessir hlutir hafa verið raktir af svo mörgum ræðumönnum hér áður að ég læt hér við sitja, þótt svona mætti lengur telja. En það er augljóst að samningurinn er einhliða í þágu þjóðverja. Það, sem við fáum að gera í staðinn, er að draga úr okkar afla og með því að rýra aflahlut sjómanna, kaup verkafólks og bjóða atvinnuleysinu heim.

En því miður er þetta ekki það eina sem semja á um. Samningar eru í undirbúningi eða tilbúnir til handa norðmönnum, belgum og færeyingum, og hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir áðan úr þessum stóli að það ætti að semja við breta. Ég sé enga ástæðu til þess að semja við neina af þessum aðilum, einfaldlega vegna þeirra sömu raka og ég nefndi áður, og allra síst við breta sem enn einu sinni hafa forheimskað sjálfa sig á að senda herskip á okkur, þann andstæðing einan sem virðist hæfa flota hennar hátignar Elísabetar. Það á að gera bretum það ljóst, að ef þeir beita herskipum á Íslandsmiðum, verður aldrei við þá samið, og það verður að gera þeim þetta strax ljóst. Njósnaflug breta verður að hætta og loka flugvöllum landsins algerlega og undantekningarlaust fyrir þeim. Ef bretar beita herskipum gegn okkar skipum á Íslandsmiðum, þá er auðvitað sjálfsagt að slíta stjórnmálasambandi við slíka ofbeldismenn. Það er svo sjálfsagt að ég hirði ekki um að rökstyðja það nánar. Menn semja ekki við byssubófa sem standa fyrir framan menn með opna byssukjafta. Ef bretar beita hervaldi, ef bretar beita freigátunum sínum móti skipum okkar á Íslandsmiðum, þá get ég ekki séð nein rök, a. m. k. ekki nein skynsamleg rök, sem geta mælt með því að þessar tvær þjóðir geti verið í hernaðarbandalagi saman. Ég er viss um að bretar fara að hugsa sig um ef við tilkynnum þeim þetta nú þegar.

Samningurinn við breta, sem greinilega er í undirbúningi, er þó allra verstur, vegna þess að bretar veiða næstum eingöngu þorsk. Þorskur er a. m. k. langstærsti hlutinn í þeirra afla, og það er ekki nóg með að það sé eingöngu þorskur, þ. e. a. s. sú fisktegund sem hallast stendur hér á Íslandsmiðum, heldur veiða bretar mikið af smáþorski. Af þessum fiskum megum við ekkert missa. Þeim mun meir sem þeir fá af honum, þeim mun minna kemur í okkar hlut. Og ef af þessum samningum verður, þá verðum við að skerða okkar eigin afla um allt að 40% strax. Slíkur niðurskurður á afla íslendinga er slík blóðtaka sem við þolum ekki, og síðar, ef áfram verður haldið á sömu braut, verður hlutur okkar miklu minni, ef þorskinum verður þá ekki algerlega útrýmt á Íslandsmiðum.

Með þessum samningum og þeim samningum, sem greinilega fylgja á eftir, er verið að leika sér með gálausum hætti með fjöregg þjóðarinnar, og það er hættulegur leikur. Alvarleg viðvörun hefur verið gefin af hæfustu sérfræðingum þjóðarinnar, svo að það er ljóst að þeir, sem samþykkja áðurnefndan samning og væntanlega samninga, gera það vitandi vits um að slíkur verknaður býður alþýðu þessa lands versnandi kjör og stórkostlega skerta atvinnu. Slíkt athæfi er illt verk. Þess vegna ber stjórninni að leggja þessa þáltill til hliðar og snúa sér gegn ránsmönnunum af fullri festu. Með því að gera það hefði hún alla þjóðina að baki sér. Sameinaða þjóð ásamt styrkri stjórn er erfitt að brjóta á bak aftur.

Herra forseti. Ég vil áður en ég lýk máli mínu leyfa mér að lesa hér ályktun um landhelgismál sem mér barst í hendur nú fyrir stundu frá Vestmannaeyjum. Þar var haldinn fjölmennur fundur í dag og að fundinum stóðu mörg félög, þ. á m. eftirfarandi: Kennarar, Verkakvennafélagið Snót, Verkalýðsfélag Vestmannaeyja, Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Sjómannafélagið Jötunn, Vélstjórafélag Vestmannaeyja, Félag járniðnaðarmanna, Félag byggingarmanna, Verslunarmannafélag Vestmannaeyja, ég endurtek: Verslunarmannafélag Vestmannaeyja, Vörubílstjórafélag Vestmannaeyja, húsasmíðameistarar o. fl. Og ályktunin er svo hljóðandi:

„Fjölmennur fundur haldinn á Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum fimmtudaginn 22. nóv. 1975 mótmælir hvers kyns samningum við erlendar þjóðir um veiðiheimildir innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar. Fundurinn mótmælir eindregið vopnaðri innrás breta í fiskveiðilandhelgi Íslands.“