27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Jóhannes Árnason:

Herra forseti. Það var sagt hér í hliðarsal á meðan umr. stóðu yfir í gær að þessar umr. gætu aldrei orðið fullkomnar nema allir þm. Vestf. töluðu og þá helst hver á eftir öðrum og sumir oftar en einu sinni. Ég segi ekki að þetta sé ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs, ég hafði alltaf hugsað mér að segja nokkur orð um þetta mál.

Tilraun til að koma á samningum til lausnar fiskveiðideilu íslendinga og vestur-þjóðverja hafa staðið yfir öðru hverju allt frá útfærslunni í 50 sjómílur 1972, eða í rúmlega 3 ár. Allan þann tíma hafa vestur-þjóðverjar stundað veiðar á togurum sínum hér við land ólöglega. Það er fyrst nú í nóv. 1975 að hillir undir lausn þessarar deilu samkv. þeim samkomulagsdrögum sem fylgja þáltill. þeirri á þskj. 85 sem hér er til umr. Á þessu tímabili hefur orðið mikil breyting á afstöðu vestur-þjóðverja í þessu máli. Það hefur komið fram í þessum umr. að á s. l. 10 árum eða svo hafi meðalafli vestur-þjóðverja verið um 120 þús. tonn á ári á Íslandsmiðum. Í viðræðunum í fyrra var rætt um 80–85 þús. tonna afla, og það var tilboð af hálfu fyrrv. sjútvrh. hv. 2. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, í mars 1974 um 80 þús. tonn og það án allra takmarkarna á þorskveiðum sérstaklega. Nú er gert ráð fyrir 60 þús. tonna afla, þar af 5 þús. tonn af þorski sem hámark, annars aðallega ufsa og karfa. Í fyrra var gert ráð fyrir 40 ísfisktogurum og 17 frystitogurum, nú er gert ráð fyrir 70 ísfisktogurum, en frystitogarar vestur-þjóðverja koma ekki inn fyrir 200 mílur. (Gripið fram í.) 40 ísfisktogarar. Ef litið er á skrána yfir þessa 40 togara, sbr. fskj. II, kemur í ljós að 26 af þessum skipum eru frá árinu 1961 eða eldri tíma. Það elsta þeirra er 18 ára gamalt, svo eð ekki er það beint burðugt.

Það kom einnig fram í umr. í gær að í mars 1974 vildi vinstri stjórnin bjóða vestur-þjóðverjum veiðar á 54 þús. ferkm svæði innan 50 mílnanna, en samkv. samkomulagsdrögum þeim, sem hér eru til umr., eru þessi svæði innan sömu marka 25 þús. ferkm.

Þá er það ekki hvað síst þýðingarmikið að vestur-þjóðverjar viðurkenna allar þær friðunaraðgerðir innan 200 sjómílna markanna sem íslendingar munu beita sér fyrir eða ákveða og verða við þær bundnir jafnt og aðrir. Sama gildir um möskvastærð og lágmarksstærð á fiski sem heimilt er að veiða. Það verður komið á ákveðnu fyrirkomulagi, tilkynningarskyldu fyrir hina þýsku togara og beinu eftirliti af íslendinga hálfu með veiðum þeirra. Það ber að leggja megináherslu á friðunaraðgerðir á fiskislóðum umhverfis landið. Á það verður seint lögð of rík áhersla.

Þá kem ég að veiðisvæðunum innan 50 sjómílna markanna sem þetta samkomulag gerir ráð fyrir, en þau eru 4. Það er upp að 23 sjómílum fyrir Suðausturlandi, upp að 25 sjómílum fyrir Suðvesturlandi, að 40 sjómílum út af Breiðafirði og loks upp að 34–37 sjómílum út af norðanverðum Vestfjörðum 6 mánuði á ári. Ég ætla að gera hér fyrst og fremst að umtalsefni hin nýju viðhorf sem við þetta munu skapast út af Vestfjörðum.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði hér í gær að með þessu væri verið að ganga af Vestfjörðum dauðum. Minna mátti það nú ekki vera, og manni skildist að það væri verið að færa fiskveiðilögsöguna fyrir Vestfjörðum inn, en ekki út í 200 mílur. Nú er það svo að úti fyrir Vestfjörðum nær fiskveiðilögsagan hvergi út í 200 sjómílur. Kemur þar til, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, miðlínureglan gagnvart Grænlandi sem leiðir til þess að út af Horni verður línan um 75 sjómílur undan landi, en undan Bjargtöngum um 120 sjómílur út af Dohrnbanka.

Þá skoraði hv. 5. þm. Vestf. einnig á 1., 2., 3. og 4. þm. Vestf. svo og hv. 9. landsk. þm., Sigurlaugu Bjarnadóttur, að gera grein fyrir því hvernig þeir ætli að verja það fyrir umbjóðendum sínum, vestfirskum kjósendum, að greiða atkv. með þessu samkomulagi hér á Alþ. Því er nú til að svara af minni hálfu, að ég lít á það sem grundvallaratriði að þm. séu bundnir við sannfæringu sína í hverju máli og hana eina og hafi kjark til að taka afstöðu eftir því. En af einhverjum ástæðum nefndi hv. þm. ekki hv. landsk. þm. Sighvat Björgvinsson, hvernig sem á því hefur nú staðið.

Við vestfirðingar, hvorki ég né hv. 5. þm. Vestf. né aðrir, erum auðvitað ekkert ánægðir með að vestur-þjóðverjar skuli fá samningsbundinn veiðirétt innan 50 mílna fyrir norðanverðum Vestfjörðum, enda þótt aðeins sé um 6 mánaða tímabil að ræða, og að þeir skuli ekki vera útilokaðir frá veiðum út að nýju mörkunum á nokkrum stað fyrir Vestfjörðum. Þrátt fyrir þetta verð ég að segja það, að ég tel að þessi samkomulagsdrög hafi meiri kosti heldur en galla. En við hinir sömu vorum heldur ekkert ánægðir með bresku samningana í nóv. 1973 þar sem bretum voru veittar veiðiheimildir innan 50 sjómílna markanna, inn á bátaslóð úti fyrir Vestfjörðum í 10 mánuði á ári. En hv. 5. þm. Vestf. lét sig hafa það að greiða atkv. með þeim samningum hér á Alþ. Það er svo aftur sérstakt athugunarefni hvort bretar hafi veitt meira á Vestfjarðamiðum samkv. sínum samningi í 10 mánuði á ári eða hvort þar verði um að ræða meiri veiðar af hálfu vestur-þjóðverja samkv. þessu samkomulagi, ef það kemur til framkvæmda, í 6 mánuði. Svo mikið er víst, að ekki verða þjóðverjar þarna lengi að veiðum án þess að verða varir við þorsk, og hámarksafli af þorski er þó ekki meiri en 5 þús. tonn, þá er litið svo á að þeir hafi fyllt sinn veiðikvóta.

Ég vek athygli á því að það hefur mikil breyting orðið í þessum efnum síðan í viðræðum við þjóðverja á fyrra ári. Þá voru kröfur vestur-þjóðverja að fá veiðar fyrir bæði ísfisktogara og frystitogara upp að 24–36 sjómílum, ef ég man rétt úti fyrir Vestfjörðum allt árið samkv. svokallaðri brotinni línu. Nú er gert ráð fyrir því að allt svæðið fyrir Vestfjörðum innan 50 sjómílna verði alveg lokað fyrir veiðum þjóðverja í 6 mánuði á ári, frá 1. des. til 31. maí eða yfir alla vetrarvertíðina, togarar þjóðverja verði algerlega útilokaðir frá þýðingarmiklum veiðisvæðum, svo sem Víkurálnum sem er ákaflega þýðingarmikið veiðisvæði fyrir bátaflota vestfirðinga á vetrarvertíð. Það er alkunna að vestfirskir bátar hafa oft orðið þar fyrir ágangi erlendra togara og gífurlegt veiðarfæratjón af hlotist. Um slíkt á ekki að verða að ræða framar að því er vestur-þýska togara varðar ef þessi samningsdrög verða samþykkt.

Ég tók eftir því í umr. í gærkvöldi, það var orðið áliðið kvölds eða komið fram á nótt þegar hv. 3. þm. Reykv., Vilborg Harðardóttir tók til máls. Þá var það m. a. eitt sem hún hafði til málanna að leggja í sambandi við þessi breyttu viðhorf við Víkurálinn. Hún taldi að ástæðan fyrir því að Víkurállinn væri nú alfriðaður fyrir veiðum þýskra togara væri sennilega sú að hann væri í hávestur frá sumarbústað hæstv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, fyrir vestan. Ef þessi mál væru ekki flóknari en svo að afstaða sumarhúsa einstakra ráðh. gagnvart fiskimiðum réðu þar úrslitum, þá væri ekki um mikinn vanda að ræða. Það hefði svo sem ekki verið ónýtt fyrir okkur vestfirðinga ef hv. 2. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh. hefði átt sumarhús fyrir vestan í jafnhagstæðri afstöðu gagnvart veiðisvæðunum sem samið var um innan 50 mílnanna 1973. Ég nefni þetta vegna þess að svona hluti eiga þm. ekki að vera að koma fram með hér á Alþ. í slíkum umr.

Þá vil ég benda á það, að þetta samkomulag íslendinga og vestur-þjóðverja tekur gildi um næstu mánaðamót, þá verða 50 sjómílur fyrir Vestfjörðum alfriðaðar fyrir veiðum vesturþýskra togara næstu 6 mánuði. Fari svo að bókun 6 við samning Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu komi ekki til framkvæmda innan 5 mánaða, þá frestast þessi fiskveiðisamningur vestur-þjóðverja. Vestur-þjóðverjar verða að fara út fyrir mörkin á meðan svo stendur. Þetta kom fram í ákveðinni yfirlýsingu hæstv. utanrrh., er hann svaraði fsp. hv. 2. þm. Vestf. hér í gær, og hefur verið skýrt þannig. Takist ekki þetta samkomulag við Efnahagsbandalagið, þá er ljóst að samningur þessi við vestur-þjóðverja verður aðeins í 5 mánuði og vestur-þjóðverjar fara ekki framar til veiða innan 50 sjómílna og ekki heldur innan hinna nýju 200 mílna marka.

Afstaða mín í þessu máli byggist fyrst og fremst á því sem að framtíðinni snýr og heildarlausn landhelgismálsins, þeirri stundu þegar íslendingar geta einir hagnýtt 200 mílna lögsögu hér við land. Þetta er liður í okkar sjálfstæðisbaráttu. Barátta okkar íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar er ekki að hefjast nú. Hún hófst með setningu landgrunnslaganna 1948 og hefur staðið hátt á þriðja áratug. Útfærslan í 200 sjómílur er fjórði og lokaáfanginn í þessari baráttu. Það hefur áður þurft að semja, og ég lít á þann samning, sem nú stendur til að gera við vestur-þjóðverja, sem áfanga að lokamarkinu. Hann gildir aðeins í tvö ár, og ekkert hefur komið fram er gefur tilefni til að ætla að til framlengingar hans komi, enda gerast þá sumir togarar þjóðverja býsna gamlir og vart til stórræða á miðum hér.

Þá eru einnig líkur á því, að þegar þar að kemur verði störfum hafréttarráðstefnunnar lokið. Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna er það sem við íslendingar lítum eðlilega til með lokasigur í landhelgismálum okkar í huga. Það er álit margra, sem um þessi mál hafa fjallað, að samningar við vestur-þjóðverja nú og sömuleiðis norðmenn og belgíumenn verði til þess fremur að bæta aðstöðu okkar á hafréttarráðstefnunni og draga úr líkum fyrir því að komið verði á fót gerðardómsfyrirkomulagi sem yrði okkur ekki hagstætt. Um samninga við breta gegnir að mínu áliti allt öðru máli. Þeir hafa nú enn einu sinni sýnt ofbeldishneigð í þessu lífshagsmunamáli okkar íslendinga. Ég treysti ríkisstj. til að taka á þessum nýju viðhorfum vegna ofbeldis breta á þann veg að til farsældar verði, og hefur komið fram í ræðum ráðh. hvað þar komi til greina.

Herra forseti. Þess er að vænta að þjóðir heims eigi eftir að koma sér niður á alþjóðlegar reglur á sviði hafréttarmála hið allra fyrsta, þar sem strandríki hafi umráðarétt yfir 200 mílna lögsögu. En skynsamleg nýting fiskimiðanna er ekki einungis mál viðkomandi strandríkis. Það er í raun og veru mál alls mannkyns. Sjórinn er sú matarkista sem mannkynið getur ekki verið án, og það eru því almannahagsmunir í víðasta skilningi þess orðs sem hér verður að taka tillit til.

Að svo mæltu tek ég fram að ég mun greiða atkv. með þessari þáltill.