27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Það verður aðeins örstutt aths. frá minni hálfu að þessu sinni þar sem tíminn líður og margir eru á mælendaskrá.

Ég vil fyrst víkja að því efni, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á áðan, og staðfesta það að svofellt bréf hefur verið sent til Bonn, það er stílað til Wischnewskis, þess ráðh. sem hefur stýrt umr. um landhelgismál nú síðast, og er svona, með leyfi forseta:

„Á fundum okkar í Bonn fyrir nokkru voru viðræðunefndirnar sammála um að æskilegt væri og raunar nauðsynlegt að bókun nr. 6 tæki gildi svo fljótt sem verða má til þess að auðvelda sölu íslenskra sjávarafurða í Þýskalandi og innan alls Efnahagsbandalags Evrópu. Þér staðfestuð að ríkisstj. yðar mundi gera allt sem í hennar valdi stæði til að svo mætti verða.

Ríkisstj. Íslands væntir þess að fá upplýsingar jafnóðum um viðleitni ríkisstj. Sambandslýðveldisins í þessu efni.“

Svo eru venjulegar kveðjur.

Það er að sjálfsögðu Auðvelt að útbýta þessu bréfi, ef óskað er. Ef það er ekki talið nóg að heyra það lesið, þá er sjálfsagt að láta fjölfalda það á einhvern hátt þannig að þm. geti haft það fyrir framan sig við þessar umr.

Mig hefði langað til þess að segja örfá orð við minn ágæta vin, hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, því það er ævinlega þannig að þegar hann tekur til máls, þá vil ég reyna að svara því sem hann hefur komið að, þar sem hann flytur mál sitt jafnan prúðmannlega og rökfast. En ég sé að hann er ekki í salnum, svo að ég veit ekki nema ég ætti kannske að geyma mér að segja þessi fáu orð — og þó held ég að ég megi til að eyða eins og 5 mínútum af tíma þingsins til þess að víkja að þeirri gagnrýni sem hann beindi til mín og ríkisstj. og þá sennilega utanrrn. sérstaklega að því er við kemur því sem hann kallaði slælegan undirbúning undir útfærsluna og lélega kynningu á málstað Íslands að þessu sinni.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir það með hv. þm. að ég held að undirbúningurinn að 50 mílna útfærslunni hafi verið mjög góður. Það voru gefnir út bæklingar, það var ráðinn sérstakur blaðafulltrúi sem mér til mikillar ánægju virðist nú njóta almennrar lýðhylli, þó að ekki hafi nú alltaf verið svo. En margur er góður genginn, eins og máltækið segir. Það var ráðinn svo kynningar maður í London, Donald Hunts var nafn hans, og hann starfaði talsvert að þessum málum fyrir okkur, en deildar meiningar eru um árangur þess starfs, svo að ég vil nú ekki segja meira um það til þess að fjarstaddur maður þurfi ekki að verða fyrir meiðingum af minni hálfu.

En ég vil meina í fyrsta lagi að mjög mikið af þeim rökstuðningi, sem gilti fyrir 50 mílna útfærslunni, eigi einnig við nú og sé mönnum kunnur. Í öðru lagi vil ég meina að mjög mikil kynning á málstað Íslands hafi farið fram á þeim undirbúningsráðstefnum og hafréttarráðstefnum sem haldnar hafa verið síðan 200 mílna útfærsla almennt kom á dagskrá. Og ég vil vona að fulltrúar okkar á hafréttarráðstefnum, þ. á m. hv. 3. þm. Reykn., hafi ekki legið á liði sínu við að kynna málstað Íslands í þessu þýðingarmikla máli á þeim ráðstefnum, þar sem hann var sérstaklega valinn ásamt mönnum úr öðrum þingflokkum til þess að kynna þetta mál. Það mun vera rétt að úr einu eða tveimur sendiráðum hafi borist kvartanir um að þeir væru ekki nægilega útbúnir að gögnum til þess að rökstyðja mál sitt og okkar. Og það kann að vera að þeir hafi haft eitthvað til síns máls. En ég held þó að það heyri til undantekninga að sendiherrar hafi beðið um efni til skýringar á málstaðnum án þess að hafa fengið þær.

Hv. þm. Gils Guðmundsson, 3. þm. Reykn., talaði alveg réttilega um þá fréttafölsun og útúrsnúninga sem mjög eiga sér stað í breskum blöðum um það hve víraklippingar séu sérstaklega hættulegar og bjóði heim jafnvel limlestingum og dauða. Ég hef gert sérstakar ráðstafanir til þess að hafa blaðamannafund með breskum blaðamönnum sem hér voru staddir. Ég man nú ekki alveg nákvæmlega hvaða dag það var, líklega á mánudaginn, og ég held að það hafi tekist að koma á framfæri við þessa blaðamenn og sjónvarpsmenn, sem voru bæði frá Bretlandi, Svíþjóð og Spáni, þeim réttmætu skýringum skipherranna á því hversu hættulitlar, að ég ekki segi hættulausar, þessar víraklippingar eru, sem sannast best á því að engin slys hafa orðið þrátt fyrir yfir 100 slík tilfelli á þeim tíma síðan við hófum þessar aðgerðir.

En það má vissulega alltaf segja að betur megi gera í kynningu málstaðarins. En ég fullyrði að það er ekki ein einasta þjóð í viðri veröld, ekki ein einasta ríkisstj. sem ekki hefur fengið gögn frá okkur gegnum skrifstofuna hjá Sameinuðu þjóðunum um það hvers virði landhelgin er okkur, hver nauðsyn okkur er á verndun fiskstofnanna og þar fram eftir götunum.

Nýlega hefur verið gefinn út smábæklingur sem hv. 3. þm. Reykn. raunar gat um. Ég vona að hann verði að einhverju gagni. Og áfram er haldið slíkri útgáfustarfsemi, og ég vona að við getum kynnt okkar málstað þannig að fólk þekki hann. Við höfum notað þá alþjóðlegu fundi sem við höfum sótt, bæði ráðh., alþm. og aðrir opinberir fulltrúar, til þess að koma okkar málstað á framfæri, og ég veit að þar hefur margur unnið mjög gott starf, ýmsir þm., ýmsir embættismenn og ég ætla ekki að hætta mér út í upptalningu á því hverjir þar hafa lagt hönd að verki, en ég fullyrði að talsvert starf hafi verið unnið í þá átt að kynna þennan málstað, þótt ég geti fyllilega fallist á það að sjálfsagt megi enn betur gera, og fer ekki í neinar deilur um það.

Ég vildi aðeins taka upp hanskann sérstaklega fyrir þá starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem nokkuð hafa verið gagnrýndir fyrir slælega framgöngu í þessum málum. Ég held að sú gagnrýni eigi ekki almennt við rök að styðjast. Þegar útfærsludagurinn rann upp og þegar reglugerðin var gefin út héldu sendiherrar blaðamannafundi sem voru allvel sóttir, og þar var þessi málstaður einnig kynntur.

Hv. 3. þm. Reykn. ásakaði okkur í ríkisstj. fyrir að vera að sundra þjóðinni með því að leggja til að samþ. þessa samninga. Hann sagði að ef við vildum henda þáltill. í ruslakörfuna, þá yrði öll þjóðin á samri stundu sammála. Ég held að þetta sé ekki rétt. Ég a. m. k. þekki margt fólk sem vill samninga, og ég er sannfærður um það að ef yrði látin fara fram þjóðaratkvgr., þá mundu verða áhöld um hvor málstaðurinn yrði sterkari. (Gripið fram í: Prófum það.) Prófum það, segir hv. þm. Honum er frjálst að sjálfsögðu að leggja fram till. um það.

Ég bendi á það, að nýlega var haldið Fiskiþing og þar kom fram till. um að Fiskiþing gerðist aðili að samstarfsnefnd gegn samningum við erlend ríki. Sú till fékk 1 atkv. af 24 eða 25 fulltrúum sem sæti áttu á þinginu. Ekki virtust þessir menn vera á móti öllum samningum. (Gripið fram í: Það er búið að múlbinda þá eins og Jón.) Ég veit ekki hvaða múlbindingar þessi þinggestur er að tala um. Hann telur Jón Jónsson hafa verið múlbundinn. Hvaðan hefur hann það? Hver hefur sagt honum það? Hvað veit hann um það? Vill hann ekki leiða þá rök að því?

Nei, fyrst Jón Jónsson er hér nefndur, þá vil ég gjarnan segja það, að mér finnst mjög ómakleg þau orð sem látin hafa verið falla í hans garð, að hann hafi verið kallaður í sjútvrn. og látinn samstundis gefa yfirlýsingu sem passaði ríkisstj. Ég hef meira álit á Jóni Jónssyni en svo að sjútvrn. geti skipað honum að skrifa það sem því sýnist. Auðvitað hafa hinir fiskifræðingarnir jafnan rétt á því að hafa sína skoðun. Ég hef ekkert við það að athuga. En Jón Jónsson hlýtur að mega hafa sína skoðun og láta hana koma í ljós.

Ég er nú búinn að syndga hér meira en ég ætlaði og bið velvirðingar á því. Ég sé að hv. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, er ekki í salnum, svo að ég sleppi því þá að geta hans í þessari stuttu ræðu.