27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki fullákveðið afstöðu mína til þessa máls fyrir þær umr. er nú hafa staðið. Bæði var að ég er þeirrar skoðunar að samkomulagsleiðir eigi að fara í samskiptum þjóða sé þess sæmilegur kostur og ég hafði á þeim stutta tíma, er mér hafði gefist til að athuga samningsdrögin, ekki áttað mig nægilega á hvað í þeim fælist, vildi líka heyra rök þeirra er í samningum höfðu staðið, og hlusta á mótrök. Ég var ekki heldur viss um hvort líta átti á samkomulagsdrögin sem endanlegt samningsuppkast sem yrði að samþykkja eða hafna eða hvort gerlegt væri að toga það til betri vegar fyrir okkur ef þurfa þætti.

Af umr. virðist svo að engu fáist breytt, og tek ég afstöðu á þeim forsendum. Nú er mér ljóst að það er léttara á að horfa en í að komast. Vandi og ábyrgð ríkisstj. og stjórnarliða varðandi ákvörðunartöku í þessu máli sem öðrum örlagríkum er drjúgum meiri en stjórnarandstöðu. Þeirra er völin og kvölin. Ég tek ekki þátt í þeim vopnaburði að berja þá orðum. Ég læt mér ekki detta í hug að nokkur þeirra taki afstöðu í svo afdrifaríku máli nema eftir vandlega íhugun.

Meðrökin með þessum samningi finnst mér þessi veigamest: Samningurinn auðveldar okkur að einbeita landhelgisvörnum okkar gegn höfuðágangsþjóð okkar, bretum, minnkar nokkuð áhættu landhelgisgæslunnar, og það tel ég mikils virði. Í öðru lagi eykur hann á líkur þess að vestur-þjóðverjar virði meira en ella hrygningar- og ungfiskasvæði miða hér við land. Í þriðja lagi sýnir hann öðrum þjóðum að við freistum samkomulagsleiða eftir getu.

Vafasöm þykja mér hins vegar þau rök að hann bæti aðstöðu okkar á hafréttarráðstefnunni, og vísa þar til ummæla hv. þm. Benedikts Gröndals, en hann hefur mjög fylgst með störfum ráðstefnunnar og andrúmslofti þar. Umdeilanleg þykja mér líka þau rök að samningurinn flýti fyrir gildistöku bókunar 6, því að hún gerist augljóslega ekki nema samið verði við breta. En ég kem ekki auga á að þess sé eða verði nokkur viðhlítandi kostur, einfaldlega vegna þess að við höfum engin efni á að bjóða þeim nokkra samninga, nokkra samningskosti, sem hugsanlegt er að þeir líti á.

Og þá kem ég að höfuðmótrökum umrædds samnings að minni skoðun, hinu stórminnkaða aflamagni á Íslandsmiðum og varnaðarskýrslu fiskifræðinga okkar. Höfum við efni á að semja um að hleypa vestur-þjóðverjum og síðan öðrum erlendum þjóðum langt inn fyrir 50 mílna mörkin á Vestfjarða-, Reykjanes- og Suðausturlandsmiðunum að athugaðri skýrslu og upplýsingum fiskifræðinga okkar? Höfum við efni á að leggja þorsk-, ýsu-, karfa- og ufsastofnana hér við land í líka upprætingarhættu og við bjuggum síldarstofninum hér fyrir nokkrum árum með þeim afleiðingum að síldveiðar þurru hér með öllu? Mér finnst að rökin hlaðist hér upp gegn samningunum. Hvað verður um Vestfirði, íbúa þeirra og afkomu, ef bolfiskafli þverr þar með öllu innan örfárra ára vegna ofveiði? Hvað um verstöðvar Suðurnesja, hvað um Hornafjörð og sunnanverða Austfirði? Og hvað um afkomu þjóðarinnar allrar þegar mið öll hér við land kynnu að verða þrotin af fiski?

Hér finnst mér rök fylgjenda samkomulagsins ekki slá á ótta manns né heldur að þeir hafi fært sannfærandi rök að því gegn staðhæfingum landhelgisgæslunnar,mannanna, sem í eldinum standa, að þeir geti ekki haldið veiðum vestur-þjóðverja undir samkomulagsmagni, þótt þeir berjist líka við breta.

Það er þessi ógnvekjandi mynd varðandi aflamagn okkar sem veldur því að ég get akki greitt þessum samningi atkv. mitt, þótt ég sé í grundvallaratriðum fylgjandi samkomulagsleiðum. Mér finnst við ekki hafa efni á að gera hann við orðnar aðstæður. Það er eins og taka brauð frá munni barna okkar til þess að sýnast gestrisin. Gestrisni er góð, en láti húsbóndinn hana ganga út yfir heimilisfólkið, þá er hún orðin ofrausn sem ekki er hægt að virða né meta.

Að vandlega athuguðu máli tel ég samninginn við vestur-þjóðverja, eins og hann er lagður fyrir Alþ. ofrausn af hálfu okkar íslendinga, ekki samning, ekki gestrisni byggða á getu, og greiði því atkv. gegn honum.