27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég vildi ekki láta lengri tíma líða þar til ég svara fsp. sem til mín hefur verið beint.

Hv. 2. þm. Vestf. spurði mig um hver afstaða hæstv. sjútvrh. væri til samkomulagsdraga þeirra sem hér eru til umr. Ég vil með ánægju svara þeirri fsp. Ég hef rætt við hæstv. sjútvrh., sem er erlendis í sjúkraleyfi, og hann mælir með samþykkt þessara samkomulagsdraga. Hann sér annmarka á þeim eins og við höfum séð hér í þingsölum, en kostina telur hann slíka að ekki fari á milli mála að samþ. beri þessi samkomulagsdrög og gera samkomulagið.

Þá vil ég svara eða nefna a. m. k. tvær fsp. sem hv. 5. þm. Vestf. hefur beint til mín, en í raun er þeim svarað af hæstv. utanrrh. áður í umr.

Önnur fsp. er á þá lund hvort til mála komi samkomulag við breta eins og komið er. Svarið er birt þegar í mótmælum ríkisstj. við valdbeitingu breta, þar sem segir að slík valdbeiting útiloki allar frekari viðræður við ríkisstj. Bretlands um mögulegt samkomulag.

Hin fsp. hv. þm. var um það, hvort það væri opið enn að bretar geti fengið 65 þús. tonn. Þeirri fsp. hefur hæstv. utanrrh, svarað, að tilboð, sem búið er að hafna, er auðvitað fallið niður.