27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég skal hafa þetta stutt og standa við það nú í þetta sinn.

Það er út af ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds að hann segir í fyrsta lagi að það sé engin viðurkenning í uppkastinu. Það má um það deila hvort lagaleg viðurkenning sé. Ég hygg að það sé tæplega. En viðurkenning í verki álít ég að sé hiklaust í samningum, þar sem vitnað er til íslenskra laga og þeir semja við okkur um leyfi fyrir tiltekin skip á hafsvæðum sem við teljum okkur. Ef ég bið hv. þm. Ragnar Arnalds um að leyfa mér að tína ber í landi sem hann á, þá hlýt ég um leið að vera að viðurkenna að hann eigi landið, annars mundi ég ekki fara fram á þetta leyfi. (Gripið fram í.) Og þó er sérbókun. Það er vissulega rétt.

Hvað taki við þegar samningstímabilinu lýkur? Það sagði ég í gær, að ég líti svo til eindregið að ekki yrði um frekari samninga að ræða. Um það er ósamið að sjálfsögðu. Uppkastið ber það með sér að um það er ekki neinn samningur, en það er mitt álit að þá komi ekki frekari samningar til greina og ég mun ekki standa að því.

Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvaðan áætluð veiðitala þjóðverja á árinu sem er að líða sé fengin. Það er talað um það hér hvað eftir annað að það muni verða 40 þús. tonn. Ég hef þrátt fyrir miklar eftirgrennslanir ekki getað fengið þetta staðfest. Það eina, sem ég hef getað fengið staðfest, er að 1. júní hafi þjóðverjar verið búnir að veiða 26 þús. tonn. Hvort þetta er gert með líkindareikningi, að finna út 40 þús. tonn, sem mundi þá þýða verulega aflaminnkun þá 7 mánuði ársins sem eftir eru, það skal ég ekki um segja. En mér þykir einkennilegt ef embættismenn rn. geta ekki fengið upplýsingar sem virðast liggja á lausu fyrir aðra.

Ég tók eftir því líka að Hattersley talaði um að tilboð okkar til þjóðverja jafngilti yfir 90 þús. tonnum til breta. Mér finnst þetta engan veginn sambærilegt, þar sem hér er um miklu verðmætari fisk að ræða, sem bretar eru að gera sér vonir um að fá að veiða, heldur en við erum að semja um við þjóðverja.

Svo kemur að lokum að þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín beint. Ég hef kannske verið óþarflega stuttorður í gær og það er ágætt að leiðrétta það þá. Það sem gerist, ef bókun 6 tekur ekki gildi eftir 5 mánuði, er það að ríkisstj. mun segja samningnum upp. Eftir það eru allar veiðiheimildir fallnar úr gildi. Og það er skoðun okkar — ég verð að taka það fram að það er skoðun okkar — að þá verði þjóðverjar að sjálfsögðu að fara út fyrir landhelgismörkin, en um það segir ekki í samningnum eins og menn geta ljóslega séð. Um það, hvað gerist með togara sem verður brotlegur eftir að þetta umrædda tímabil er liðið, þá vil ég hiklaust segja það að hann verði strikaður út og ekki samþ. að nýju. — Ég hef ekki frekari svör við spurningum hv. þm.