27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti, góðir áheyrendur. Við íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að leitast við að leysa deilumál okkar við aðrar þjóðir með samkomulagi. Þessi skuldbinding felst í aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum, Helsinkiyfirlýsingunni og Atlantshafsbandalaginu, enda liggur í augum uppi að lífshagsmunir smáþjóða byggjast fyrst og fremst á því að deilumál þjóða á milli séu leyst með friðsamlegum hætti, en ekki valdbeitingu.

Við íslendingar höfum staðið við skuldbindingar okkar að öllu leyti. Við höfum sýnt samkomulagsvilja og fulla sanngirni, en mætt óbilgirni og nú grímulausri og ólögmætri valdbeitingu af breta hálfu.

Lengi var samkomulagsvilja okkar mætt af fullkomnu skilningsleysi af hálfu vestur-þjóðverja, þar til alger stefnubreyting hefur orðið nú á á síðustu mánuðum er leitt hefur til þess samkomulags við ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands um veiðar þýskra togara sem nú er til umr.

Samkomulag þetta styrkir stöðu okkar út á við á alþjóðavettvangi og setur sanngirni okkar, en óbilgirni breta í enn skýrara ljós en ella gagnvart umheiminum. Samkomulag þetta styrkir stöðu okkar á fundum hafréttarráðstefnunnar og er til þess fallið að vernda það ákvæði í frv. að hafréttarsáttmála sem okkur er mikilvægast samfara 200 mílna efnahagslögsögu. Samkv. hafréttarfrv. hefur strandríkið einhliða rétt til þess að ákveða hve mikið fiskmagn má taka upp úr sjó og hver skuli gera það. Á hafréttarráðstefnunni eru sterkar raddir sem vilja fela gerðardómi þetta ákvörðunarvald á þeirri forsendu að strandríkinu sé ekki treystandi að sýna sanngirni. Í samskiptum okkar og breta og með samkomulagi við vestur-þjóðverja höfum við sýnt að strandríki er fullkomlega treystandi til að eiga einhliða úrskurðarvald um hagnýtingu 200 mílna efnahagslögsögu sinnar.

Samkomulag það, sem hér er til umr., er gert milli tveggja ríkja sem hafa andstæða hagsmuni og skoðanir í fiskveiðimálum. Ljóst er að hvorugur fær öllu framgengt sem hann vill helst, og því eru auðvitað annmarkar á þessu samkomulagi frá okkar sjónarmiði, en kostirnir skipta meira máli og eru slíkir að samkomulagið er í heild í fullu samræmi við hagsmuni íslendinga

Spurningin er sú, hvort við öðlumst einir frekar og fyrr stjórn á hagnýtingu fiskimiðanna með samningum eða án samninga. Verndun fiskstofnanna er ekki eingöngu fólgin í því, hve mikið aflamagn útlendingar fá eða geta veitt á Íslandsmiðum, heldur hvernig, hvar og hvenær veiðar eru stundaðar.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand fiskstofna og annarra dýrategunda á Íslandsmiðum og nauðsynlegar friðunaraðgerðir innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, sem dagsett er 13. okt. s. l., er vitnað til skýrslu stofnunarinnar til landhelgisnefndar frá 1972, þar sem segir að einkum sé beitt 5 aðferðum við verndun fiskstofnanna :

1) Ákvæði um lágmarksstærð.

2) Lokun eða friðun veiðisvæða sem ýmist er tímabundin eða gildir allan ársins hring.

3) Ákvæði um hámarksafla.

4) Ákvæði um gerð veiðarfæra.

5) Ákvæði um leyfisveitingar til veiða.

Við skulum kanna hvernig samkomulagið við vestur-þjóðverja fullnægir þessum aðferðum og kröfum. Fyrst er ástæða til að benda á að samkomulagið tekur til alls hafsvæðisins innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar og merkir því í reynd viðurkenningu á stjórn íslendinga á þessu hafsvæði, hvað sem líður fyrirvara um að samkomulagið hafi ekki áhrif á afstöðu ríkisstj. samningsaðila til hafréttarmála. Enda er í orðsendingaskiptum utanrrh. til sendiherra vestur-þýskalands gengið út frá því að í einu og öllu sé byggt á íslenskum lögum og reglugerðum og síðari ákvarðanir íslenskra stjórnvalda virtar.

Ef farið er yfir samkomulagið í einstökum atriðum skal eftirfarandi, sem er í samræmi við kröfur íslenskra fiskifræðinga, undirstrikað:

1) Í samkomulaginu eru ákvæði um lágmarksstærð. Þýsk skip skulu ekki veiða eða hirða fisk undir því máli eða þyngd sem tilgreind er í hlutaðeigandi reglum varðandi veiðar íslendinga.

2) Í samkomulaginu eru lokuð eða friðuð veiðisvæði, ýmist tímabundið eða í gildi allan ársins hring. 50 mílurnar, að stærð 215 þús. ferkm, eru lokaðar að undanteknum 25 þús. ferkm á þrem svæðum, sem opin eru allt árið, og á einu svæði, sem er opið hálft árið. Af 200 mílna svæðinu, 758 þús. ferkm að stærð, eru nær 500 þús. ferkm algjörlega lokað. Innan hins algjörlega lokaða svæðis eru helstu uppeldisstöðvar fisks við Norður- og Austurland.

Enn fremur eru ákvæði í samkomulaginu að þýskir togarar stundi ekki þar veiðar sem íslenskum skipum eru bannaðar í því skyni að vernda svæði þar sem mikið er af ungfiski eða hrygningarfiski. Þjóðverjar skuldbinda sig þannig til að hlíta þeim friðunarsvæðum, sem nú eru í gildi eða ákveðin verða einhliða á samkomulagstímabilinu af íslenskum stjórnvöldum.

3) Í samkomulaginu er ákvæði um hámarksafla vestur-þýskra fiskiskipa, sem bundinn er ákveðnum fisktegundum, og skiptir þar okkur íslendinga mestu máli að aðaluppistaðan í 60 þús. tonna hámarksaflanum er karfi og ufsi, en þorskaflinn er að hámarki 5 þús. tonn. Þessi ákvæði eru okkur þar af leiðandi sérstaklega hagkvæm, því að hvort tveggja er, að þorskstofninn er mun veikari en karfinn og ufsinn og karfi og ufsi okkur a. m. k. helmingi verðminni en þorskurinn. Af þessu leiðir einnig, að þetta samkomulag við vestur-þjóðverja skapar ekkert fordæmi um samninga við breta.

Þegar tekin er afstaða til 60 þús. tonna hámarksafla vestur-þjóðverja hljótum við að spyrja: Hve mikið geta vestur-þjóðverjar veitt leyfislaust? Óskhyggja veitir ekki raunhæft svar. Reynslan er þar ólygnust. Árið 1973 veiddu vestur-þjóðverjar 91.7 þús. tonn, en þá þurfti landhelgisgæslan að verja 50 mílna fiskveiðilögsögu bæði fyrir ágangi breta og þjóðverja mestan hluta árs. Ef við gerum ekki það samkomulag, sem hér er til umr., verðum við í baráttu við báðar þessar þjóðir og því er rökréttur samanburður við aflahámark samkomulagsins, 60 þús. tonn, afli þjóðverja 1973, tæp 92 þús. tonn, og ætti ekki að vera spurning hvort okkur sé hagkvæmara.

4) Í samkomulaginu eru ákvæði um gerð veiðarfæra. Þýsk skip skulu ekki nota net með smærri möskvastærð en íslensk.

5) Í samkomulaginu eru ákvæði um leyfisveitingar til veiða, þar sem eingöngu 40 nafngreindir togarar hafa heimild til veiða, en togari, sem rofið hefur samkomulagið, missir veiðileyfið og verður strikaður út af listanum og fær þá enginn togari leyfi í staðinn. Hér er eingöngu um venjulega ísfisktogara að ræða, en hvorki verksmiðju- né frystitogara. 26 þessara 40 togara eru byggðir 1961 eða fyrr og enginn er yngri en frá 1965.

Auk þess sem okkur er nauðsyn að veiða og vinna fisk þurfum við að tryggja sölu sjávarafurða okkar og því er mikilvægt að bókun 6 í samningi okkar við Efnahagsbandalagið um tollalækkanir á sjávarafurðum okkar komi til framkvæmda. Þjóðverjar hafa hingað til beitt neitunarvaldi sínu gegn því, en heita nú með hliðsjón af hinu nána sambandi, sem er milli lausnar á fiskveiðideilunni og þess að bókun nr. 6 taki gildi, eins og komist er að orði, að beita sér fyrir að svo verði. Því skal ekki að óreyndu trúað að bretar muni nú breyta afstöðu sinni og beita neitunarvaldi, en ef svo verður og bókun 6 kemur ekki til framkvæmda innan 5 mánaða frestast framkvæmd samkomulagsins við vestur-þjóðverja og hafa þeir þá enga heimild til að veiða innan 200 mílnanna.

Eðlilegt er, að skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar, dagsett 13. okt. s. l., hafi mjög verið til umr. Rétt er því að rifja upp að sú skýrsla var gerð og birt að ákveðinni beiðni sjútvrh. og ríkisstj. Hafrannsóknastofnunin hafði birt fyrr á árinu tvær skýrslur, en ríkisstj. taldi nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnunin afmarkaði nánar í tölum skoðanir sínar varðandi helstu fiskstofna, ekki síst til að hafa glögg rök gagnvart erlendum viðræðuaðilum. Stjórnarandstaðan hefur látist undrandi á hinu takmarkaða aflamagni er skýrslan gerir ráð fyrir, en hafi menn lesið fyrri skýrslur ætti þessi ekki að koma mönnum að óvörum.

Meira að segja fyrrv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, lætur jafnvel eins og hann sé undrandi. Hinn 22. mars 1972 skrifaði Hafrannsóknastofnunin þó sjútvrh., en þar kemur fram m. a.: „Reiknaðist okkur til að æskilegasta sóknin sé um helmingur af núverandi sókn,“ þ. e. sókn í þorskstofninn. Umræddur fyrrv. ráðh., hv. 2. þm. Austurl., hefði því átt að vita hvernig ástand þorskstofnsins var. Engu að síður greiddi hann atkv. með bráðabirgðasamkomulagi við breta fyrir 2 árum, og upplýst er að hv. 2. þm. Austurl. vildi aðeins fyrir 3 missirum semja við vesturþjóðverja um mun meira aflamagn og stærri veiðisvæði en þetta samkomulag gerir ráð fyrir. Ég ætla ekki annað en allt gott hafi fyrir honum vakað, hið sama og okkur nú, að takmarka afla útlendinga sem mest á íslenskum fiskimiðum. Hitt er verra, að hann hefur aðra afstöðu nú í stjórnarandstöðu en áður þegar hann var í ríkisstj.

Við verðum að horfast í augu við að útlendingar halda áfram að veiða í óleyfi þótt engir samningar væru gerðir. Er þá ekki vænlegra til verndunar fiskstofnum að lækka ekki einungis aflamagn þeirra með samningum, heldur og að koma í veg fyrir að útlendingar fari ránshendi með ólögleg veiðarfæri um hrygningar- og friðunarsvæði.

Hagsmunasamtök, sem sumir kalla þrýstihópa í þjóðfélaginu, hafa gert samþykktir gegn samkomulagi við vestur-þjóðverja. Við það er út af fyrir sig ekkert að athuga, en sumir þeirra hafa með litt dulbúnum ögrunum og hótunum reynt að hafa óeðlileg svo að ekki sé sagt ólögmæt áhrif á Alþ. íslendinga. Að því leyti má líkja framkomu slíkra þrýstihópa við bresku togaraskipstjórana sem knúðu bresku ríkisstj. með hótunum til að senda herskip á Íslandsmið. Breska ríkisstj. glúpnaði fyrir hótununum, en íslenskir alþm. munu ekki láta undan slíkum hótunum. Alþm. greiða atkv. samkv. sannfæringu sinni.

Við íslendingar stöndum á örlagaríkum tímamótum. Erlent stórveldi sendir herskip á Íslandsmið, sýnir okkur óskammfeilna og ólögmæta valdbeitingu. Ég tel mér skylt að skýra frá því, að ég tel litlar líkur á samkomulagi við breta vegna framkomu þeirra, og að sjálfsögðu verður ekki við þá rætt meðan þeir eru með herskip sín innan 200 mílnanna.

Við látum aldrei buga okkur með herveldi. Við munum sýna fulla festu og órofa samstöðu í þeirri baráttu sem fram undan er, hvort sem hún varir lengur eða skemur. Við eigum að leggja áherslu á að einangra breta á alþjóðavettvangi. Samkomulagið við vestur-þjóðverja er einmitt til þess fallið. Jafnframt eigum við að stefna að samkomulagi við belga, norðmenn og færeyinga er geri ráð fyrir takmörkuðum afla þessum þjóðum til handa sem yrði samtals um það bil 20 þús. tonn innan 200 mílna og þar af enn takmarkaðra magn hvað þorsk snertir. Eftir að við höfum þannig einangrað breta á alþjóðavettvangi getum við einnig einbeitt okkur og allri landhelgisgæslunni að því að gera bretum veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu sem örðugasta þrátt fyrir herskipavernd. Með þessum hætti getum við mest og sem allra fyrst takmarkað veiðar breta og allra annarra þjóða hér við land, en í því felst eina færa leiðin til að tryggja okkur íslendingum endanlega fulla og óskoraða stjórn á fiskimiðum okkar.

Nú skiptir sköpum að við þekkjum okkar vitjunartíma og sameinumst til sigurs. — Ég þakka þeim sem hlýddu.