27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Forustuflokkur núv. ríkisstj., Sjálfstfl., hefur gegnt næsta sérstæðu hlutverki í sögu landhelgismálsins s. l. 17 ár. Hér gefst ekki tími til að rekja þá sögu svo sem vert væri, einungis skal drepið á örfá atriði.

Flokkur þessi neitaði að standa með öðrum stjórnmálaflokkum að útfærslu landhelginnar í 12 mílur er hún var ákveðin vorið 1958. Það sama haust kúgaði sterkt almenningsálit flokksforustuna að vísu til að breyta um stefnu í bili og samstaða þjóðarinnar náðist þá um sinn.

Haustið 1960 var tekið upp nýtt samningamakk við breta undir forustu Sjálfstfl. Það gerðist á þeim tíma þegar bretar höfðu gefist upp við að fiska innan 12 mílna undir herskipavernd og friðun fiskveiðilandhelginnar var næstum orðin alger. Makk þetta bar árangur í fyllingu tímans: Samninginn alræmda við breta og vestur-þjóðverja frá 1961, einhvern versta samning sem saga íslenskrar þjóðar kann frá að greina, og enn í dag súpum við seyðið af þeim samningi.

Allt viðreisnartímabilið, í full 12 ár, þegar Sjálfstfl. réð hér lögum og lofum, gerðist ekki neitt í fiskveiðilögsögumálum. Fyrir kosningar 1971 vildi Sjálfstfl. bíða og halda að sér höndum. Þeir sjálfstæðisgarparnir voru ekki tilbúnir þá að styðja útfærslu eða ákvörðun um útfærslu í 50 mílur. Þeir sáu þann kost vænstan að koma til liðs við málið á Alþ. síðar, en höfuðmálgagn flokksins, Morgunblaðið, vann sér það helst til frægðar í málinu á tímum vinstri stj. að staðhæfa að útfærslan í 50 mílur væri einskis virði og hefði algerlega misheppnast. En svo gerist það, þó ekki fyrr en nokkru eftir að flutt hafði verið á alþjóðavettvangi að tilhlutan vinstri stj. till. um 200 mílna auðlindalögsögu strandríkja, að Sjálfstfl. breytir heldur en ekki um stefnu í landhelgismálinn að því er virðist. Nú þóttist hann hafa fundið púðrið og setti á oddinn kröfuna um skjóta útfærslu í 200 mílur, alls ekki síðar en á árinu 1974.

Það var ekki laust við að margir yrðu dálítið forviða þegar sá flokkur, sem verið hafði öllum öðrum meiri dragbítur í landhelgismálinu, hugðist nú taka forustuna og draga 200 mílna fánan að hún. Og íslendingar spurðu hver annan, sumir með undrunarsvip, aðrir kannske dálítið efagjarnir: Ætla nú heybrækurnar líka að fara að verða menn? — Og það var ekki annað á sjálfstæðiskempunum að heyra en þeim væri bláköld alvara.

Vitanlega fögnuðu menn. Hér höfðu orðið svo snögg sinnaskipti að helst varð við það jafnað þegar ljósið mikla rann upp fyrir Páli postula forðum og hann sá á andartaki að kristindómurinn, sem hann hafði barist gegn af mestri hörku, var harla góð kenning.

Þeir sem trúðu á heilindi Sjálfstfl. í landhelgismálinu svo og hinir vantrúuðu fengu svarið í fyrrakvöld. Heilindi Sjálfstfl. og svokölluð forusta hans um 200 mílna útfærslu birtist loks í reynd í plagginu, sem lagt var þá á borð þm., í samningunum um að vestur-þjóðverjar fái að veiða hér 60 þús. tonn af fiski á ári í 2 ár utan og innan 50 mílna.

Það blasir nú við hverjum manni, sem þekkir til fiskislóða, að með samningi þessum tryggja þjóðverjar sér nær öll veigamestu veiðisvæði sem þeir hafa fiskað á hér við land og sóst eftir að mega fiska á framvegis. Gagnvart þjóðverjum er því útfærslan úr 50 í 200 mílur gersamlega þurrkuð út í reynd um 2 ára skeið og á nokkrum mikilvægum veiðisvæðum við landið er farið langt inn fyrir 50 mílur. Þar er landhelgin færð inn, ekki út. Síðan er reynt að blekkja með því að benda á hafsvæði þar sem enginn fiskur er og engum dettur í hug að setja veiðarfæri í sjó, og við menn er sagt: Þarna friðum við mörg þúsund ferkm sjávar. — Þetta er því líkast, sem gerður væri samningur um beitarafnot á besta haglendi Suðurlandsundirlendisins, en síðan sagt ákaflega spekingslega: Hins vegar er viðsemjanda stranglega bannað að beita á Vatnajökul.

Ég fæ ekki betur séð en 200 sjómílna fáni Sjálfstfl. sé því miður hrapaður niður í hálfa stöng.

Samningur sá, sem nú á að gera við vesturþjóðverja og farið er fram á að Alþ. staðfesti, er meingallaður á ýmsa lund. Sýnt hefur verið fram á að aflamagnið, 60 þús. tonn, er nær því hið sama og þjóðverjar veiddu hér 1974 og meira en talið er að afli þjóðverja hér verði á þessu ári. Þá eru veiðiheimildirnar innan 50 mílna fordæmanlegar. Ekki er þar viðhlítandi viðurkenning á 200 mílna fiskveiðilögsögu, heldur er beinlínis tekið fram í bréfi að um slíkt sé ekki að ræða.

En kjarni máls er ekki sá, hvort þessi samningur einn út af fyrir sig sé sæmilegur, lélegur eða kannske mjög vondur. Kjarni málsins er sá, að eins og nú er ástatt um fiskstofna á Íslandsmiðum höfum við ekki um neitt að semja við erlendar þjóðir, en samningur þessi er hins vegar aðeins upphaf samningagerðar við 5, 6, 7 eða jafnvel fleiri þjóðir. Og í þessari samningalotu er byrjað á Vestur-Þýskalandi, á því ríki sem hefur beitt okkur viðskiptaþvingunum undanfarin ár. Sagt er við þessa auðugustu þjóð heimsins: Gerið svo vel, sendið hingað 40 togara búna fiskmjölsverksmiðjum og sækið á mið okkar 60 þús. tonn af fiski á ári í 2 ár. Það verður að vísu minni aflahlutur íslendinga. Við verðum að takmarka eigin veiðar. Við verðum að leggja skipum eða skammta aflamagn til útgerðarstaða. — Er ekki skiljanlegt að alþýða Íslands spyrji undir þessum kringumstæðum: Höfum við efni á slíkri rausn, á sama tíma og lífskjör hins vinnandi fjölda eru skorin stórlega niður, landið er að sökkva í skuldir og atvinna dregst saman. Er þá nokkurt vit í því að semja við útlendinga um lífsbjörgina? Er slík stefna réttlætanleg? Verða ekki afleiðingar hennar enn aukin lífskjaraskerðing? — Þannig spyrja menn þessa dagana og fólk mótmælir. Það mótmælir jöfnum höndum hernaðarofbeldi breta, allri samningagerð um veiðar útlendinga í fiskveiðilandhelginni og háskalegri kjaraskerðingarstefnu hæstv. ríkisstj.

Þegar hin dapurlega skýrsla íslenskra fiskifræðinga um ástand fiskstofna á Íslandsmiðum birtist í síðasta mánuði töldu margir að nú hlytu ráðamenn að breyta um stefnu í samningamálum og segja hreinskilnislega: Það er því miður ekki um neitt að semja við aðrar þjóðir. Hvert orð í skýrslu fiskifræðinganna er röksemd gegn öllum samningum. Efnahagsleg framtíð þjóðarinnar er undir því komin að ekki verði veitt meira á miðunum við landið fyrst um sinn en íslendingar veiða nú þegar sjálfir, og þurfa þeir raunar mjög að gá að sér og draga stórlega úr smáfiskaveiði.

Eftir birtingu þessarar skýrslu um ofveidda fiskstofna, sem breskir fiskifræðingar hafa viðurkennt rétta í meginatriðum, var ekkert eðlilegra en jafnvel þeir íslensku ráðamenn, sem áður höfðu talið nokkurt svigrúm til samninga um veiðiheimildir, endurskoðuðu þá afstöðu og breyttu um stefnu. En slíku var ekki að fagna. Þessa dagana er verið að fjalla um samning við vestur-þjóðverja, ríkustu þjóð veraldar, og sá samningur aðeins hluti af miklu stærri heild. Umr. á Alþ. í gær og í dag hafa leitt í ljós, svo að ekki verður um villst, að hér er ekki um eitt afmarkað mál að ræða, heldur fyrsta kapítula í heilli samningasögu. Annar kapítuli, samningurinn við belgíumenn, liggur á borðum ráðh. og bíður fram yfir helgina. Samningar við norðmenn og færeyinga eru mjög skammt undan. Og bíða svo ekki austur-þjóðverjar, pólverjar og sovétmenn handan við næsta leiti? Ætlar þessi auðuga rausnarstjórn íslendinga ekki líka að semja við þá? Og hvað er að segja um samninga við breta? Varla ætlar hæstv. ríkisstj. að halda áfram samningamakki við þá eftir að þeir hafa nú í þriðja sinn sótt okkur heim með herskipum sínum. Jú, það mega landsmenn allir vera vissir um að áfram verður unnið að samningagerð við breta. Sú kokkamennska mun fara fram á bak við tjöldin undir yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins, og þar mun ekkert sparað til að knýja fram samninga. Þegar samningar hafa svo raunverulega tekist verður dálitið leikrit sett á svið. Bresku herskipin — NATO-skipin bresku, — sigla þá út úr íslenskri landhelgi. Nokkrir breskir og íslenskir NATO-ráðh. snæða saman hádegisverð og fáeinir NATO-þm. stjórnarflokkanna fá ögn að borða líka. Þeim veitist sú upphefð að sjá íslensku NATO-ráðh. og bresku NATO-ráðh. skála fyrir einstæðri vináttu NATO-ríkjanna tveggja, Stóra-Bretlands og Litla-Íslands. Hvort samið verður á sínum tíma við breta um 65 þús. tonn af fiski, eins og íslenskir ráðamenn hafa þegar boðið, um 110 þús. tonn, eins og bretar nefndu, eða eitthvað þar á milli. það skal ósagt látið. Tíminn mun leiða það í ljós. Hitt ber samningurinn við vestur-þjóðverja greinilega með sér, að gert er þar ráð fyrir að innan 5 mánaða í allra lengst lagi verði lokið samningum við allar þjóðir Efnahagsbandalagsins og refsitollar þess bandalags gagnvart íslendingum afnumdir.

Hæstv. ráðh. hafa um það hjartnæm orð að nú beri nauðsyn til að allir íslendingar standi saman á örlagastundu þegar bretar sækja okkur heim með herskipum í þriðja sinn á 17 árum. Vissulega mun þjóðin standa sameinuð í baráttunni við breta. Hún mun standa að baki stjórnvalda um allar raunhæfar og tiltækar aðgerðir til að mæta breska ofbeldinu og svara því á verðungan hátt. Hún ætlast til þess að landhelgisgæslunni verði gert kleift að halda uppi sem allra árangursríkastri gæslu, skipastóll hennar og mannafli aukinn eftir því sem þarf. En fleira þarf hér til að koma. Venjuleg diplómatísk mótmæli duga ákaflega lítið. Á þau er ekki hlustað. Nú þarf sem allra fyrst að mæta ofbeldinu með raunhæfari og áþreifanlegri hætti.

Alþb. hefur þegar sett fram hugmyndir um eðlilegar og sjálfsagðar fyrstu aðgerðir. Við eigum tafarlaust að kalla sendiherra okkar í Bretlandi heim í mótmælaskyni og við eigum að hóta slítum stjórnmálasambands við breta ef herskipin verða ekki farin út úr landhelginni innan tiltekins mjög skamms tíma. Og vitanlega eigum við að gera meira. Við eigum að ganga hreint til verks. Rétta svarið við þriðju innrás breska NATO-hersins er að sjálfsögðu það, að við leggjum fram úrsögn úr NATO og segjum upp herstöðvarsamningnum við Bandaríkin. Sjálfsagt gerir núv. ríkisstj. ekkert slíkt. En það má hún vita, að þeim fer óðum fjölgandi sem sjá hve fjarstæðukennt og fáránlegt það er að eiga aðild að svonefndu varnarbandalagi, þar sem einu stærsta bandalagsríkinu er látið haldast uppi að ráðast hvað eftir annað með hernaðarofbeldi inn í lögsögu minnsta þátttökuríkisins, þess sem er óvopnað með öllu.

Að lokum þetta: Þegar hæstv. ráðh. ræða nú af fjálgleik um nauðsynlega samstöðu þjóðarinnar láist þeim að tilgreina ástæðuna fyrir því að um mikilvæg framkvæmdaatriði landhelgismálsins skiptast íslendingar nú í tvær öndverðar fylkingar, með og móti samningagerð við aðrar þjóðir. Ástæðan er sú, að ríkisstj. hefur virt að vettugi allar ábendingar og áskoranir næstum því einróma um að gera ekki óhappasamninga, sem skerði lífskjör fólksins. Það er ríkisstj. sem hefur sundrað þjóðinni í afstöðunni til þessa máls. Hæstv. ríkisstj. hefur enn tækifæri til að sameina þjóðina alla að baki sér í landhelgismálínu. Hún getur gert það með því að sýna nú fulla einurð gagnvart bretum. Hún getur jafnframt gert það með því að draga þessa þáltill. til baka og lýsa yfir að við núv. aðstæður séu engin rök til þess að gera samninga við aðrar þjóðir um veiðar innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. — Góða nótt.