27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti, góðir hlustendur. Fyrir nokkrum dögum hófu bresk stjórnvöld þriðja þorskastríð sitt við okkur íslendinga. Í dag gína fallbyssur hinnar bresku vinarþjóðar yfir starfsmönnum landhelgisgæslu okkar. Í hinum fyrri þorskastríðum höfum við sýnt samstöðu og einbeitni gegn breska ljóninu og algjörlega neitað að láta undan síga gegn valdbeitingu þessa gamla nýlenduveldis. Einbeitni og samstaða landsmanna hefur ásamt góðum málstað verið sterkasta vopn íslendinga sem leitt hefur okkur til sigurs. Þær ríkisstj., sem voru við völd þegar hin fyrri þorskastrið hófust, vinstri stjórnirnar 1958 og 1972, höfðu ótvíræða forustu um myndun slíkrar þjóðarsamstöðu. Þessu er því miður öðruvísi farið nú. Í stað þess að beita sér af alefli fyrir samstöðu meðal þjóðarinnar efnir hæstv. ríkisstj. beinlínis til ófriðar. Á örlagastundu standa hæstv. ráðherrar og þeir hv. þm., sem þá styðja, vitandi vits að því að skapa alvarlegan ágreining meðal landsmanna í landhelgismálinu. Þetta gera þeir með því að knýja fram þá samninga við vestur-þjóðverja sem hér eru til umræðu, — samninga sem verkalýðshreyfingin í landinu, fjölmörg félagasamtök alþýðumanna til sjávar og sveita, öll stjórnarandstaðan og ýmsir aðrir aðilar hafa lýst eindreginni andstöðu við.

Það er engin furða þótt hæstv. iðnrh. hafi sárnað það sem hefur gerst í þessu máli. Honum hefur sárnað sú mikla mótmælaalda sem risið hefur meðal þjóðarinnar. Hann finnur greinilega þann napra kulda sem að honum streymir nú og þeim öðrum hv. stjórnarliðum vegna þess sem hér á að gera í sambandi við samkomulag við vestur-þjóðverja.

Þessi aðgerð hæstv. ríkisstj. er reyndar í fullu samræmi við forkastanleg vinnubrögð hennar í málinu frá upphafi. Samningarnir, sem gerðir hafa verið við vestur-þjóðverja og ætlunin er að Alþ. samþykki á örskömmum tíma, staðfesta rækilega alla þá gagnrýni sem stjórnarandstæðingar hafa haft í frammi gegn hæstv. ríkisstj. á undanförnum vikum og mánuðum í sambandi við landhelgismálið. Í þessu lífshagsmunamáli allra landsmanna hefur ríkisstjórnin leitast við af fremsta megni að halda leyndum öllum upplýsingum um samningamakk sitt við aðrar þjóðir.

Margháttaðar samningaviðræður hafa farið fram frá því að þjóðin sameinaðist um útfærsluna í 200 sjómílur fyrr á þessu ári. Í slíkum viðræðum hefur ríkisstj. lagt fram margvísleg tilboð um aflamagn útlendingum til handa. En almenningur í landinu, sem á lífsafkomu sína undir slíkum samningum, hefur mjög lítið og nánast ekkert fengið að vita um gang þessara viðræðna, um það hvað boðið hefur verið og hvað ríkisstj. hefur raunverulega verið að gera. Stjórnarandstæðingar hafa að vísu einstaka sinnum fengið nokkrar upplýsingar um viðræðufundi þessa í landhelgisnefnd, en slíkar upplýsingar hafa þá verið stimplaðar trúnaðarmál í bak og fyrir. Það er þess vegna fyrst nú, 10 vikum eftir að formlegar viðræður voru teknar upp við vestur-þjóðverja um fiskveiðiheimildir innan 200 mílna markanna, að landsmenn geta kynnt sér um hvað hefur verið fjallað í þessum viðræðum. Þetta fá landsmenn fyrst að vita eftir að samningar hafa verið gerðir.

Þótt ég hafi ekki borið sérstakt traust til núv. hæstv. ríkisstj., þá verð ég samt sem áður að játa að ég hefði að óreyndu svarið fyrir að ríkisstj. mundi láta sér til hugar koma að gera þvílíka samninga við vestur-þjóðverja sem raun ber vitni. Þessi samningur er langtum verri fyrir íslendinga en mig hefði órað fyrir að hæstv. ráðherrar mundu ljá máls á, ekki síst með skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, svörtu skýrsluna svonefndu, í huga. Þessi skýrsla og sömuleiðis þær skýrslur, sem síðar hafa komið fram, sanna ómótmælanlega að ekkert er lengur til skiptanna milli þjóða á Íslandsmiðum. Skýrslan tekur af öll tvímæli um það, að því aðeins er hægt að semja við útlendinga um afla þeim til handa að afli okkar íslendinga sé beinlínis skorinn niður sem því nemur. Þetta er kjarni málsins. Og jafnvel breskir fiskifræðingar hafa viðurkennt að skýrslan og þar með þessi staðreynd sé rétt. Hæstv. ríkisstj. hefur því með þessari skýrslu haft slíkt vopn í hendi í viðræðum við aðrar þjóðir að það eitt hefði átt að nægja til að sýna útlendingum svart á hvítu að íslendingar hefðu ekki lengur um neitt að semja. En því miður virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa kunnað með þetta vopn að fara. Það ber samningurinn við vestur-þjóðverja glöggt vitni.

En lítum þá nánar á þennan samning. Af þeim fjölmörgu atriðum, sem gera það að verkum að SF eru eindregið á móti samningnum, vil ég hér sérstaklega benda á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi aflamagnið. Samningurinn gerir ráð fyrir að vestur-þjóðverjar veiði hér við land allt að 60 þús. tonn á ári næstu 2 ár, þar af 5 þús. tonn af þorski. Raunverulegt aflamagn vestur-þýskra togara á Íslandsmiðum hefur farið minnkandi með ári hverju nú að undanförnu. Árið 1973 veiddu þeir tæplega 92 þús. tonn, árið 1974 nam afli þeirra á Íslandsmiðum 68 þús. tonnum og líklegt þykir að afli þeirra fari ekki yfir 40 þús. tonn á þessu ári. Stór hluti þessa aflamagns hefur verið tekinn fyrir utan 50 mílur. Nú samkv. samkomulagi við vestur-þjóðverja á að taka mikið af honum fyrir innan 50 mílur.

Með samningum við vestur-þjóðverja er þeim heimilt að veiða 50% meira á Íslandsmiðum á næstu tveimur árum en þeim hefur tekist að veiða með ólöglegum hætti á yfirstandandi ári. Það er alveg ótrúlegt, en því miður satt, að á sama tíma og fiskifræðingar hamra á því hversu mjög verði að draga úr sókninni í fiskstofnana hér við land skuli ríkisstj. semja við vestur-þjóðverja um 50% aukningu á raunverulegu aflamagni, enda hefur það komið í ljós þegar að bretar telja þetta hagstætt til viðmiðunar fyrir síg í hugsanlegum samningaviðræðum við ríkisstj. En slíkar viðræður munu örugglega fara fram á þeim 5 mánaða tíma sem ríkisstj. hefur augljóslega gefið sér með þessum samningi til þess að ná samkomulagi við breta. Hattersley telur að með hliðsjón af samningnum við vesturþjóðverja sé sambærileg tala fyrir breta 95 þús. tonn. Þetta hafið þið, hlustendur góðir, vonandi heyrt og séð í sjónvarpinu í gærkvöld.

Í öðru lagi eru það veiðisvæðin. Samningurinn gerir ráð fyrir því að á mjög stóru svæði úti fyrir Vestfjörðum og allt suður fyrir Reykjanes og fyrir utan sunnanverða Austfirði sé landhelgin í reynd ekki færð út, heldur inn. 200 mílna útfærslan gildir alls ekki fyrir svæðið allt frá Kögri suður fyrir Reykjanes. Á því svæði er landhelgin þvert á móti færð inn. Vestur-þjóðverjar fá að veiða eins og þeir vilja á þessu svæði milli 50 og 200 mílnanna, og á þremur mjög mikilvægum svæðum út af Vestfjörðum, Vesturlandi og Reykjanesi fá þeir einnig að veiða langt fyrir innan 50 mílna mörkin, eða frá Kögri að Barða inn að 34 mílum, fyrir utan Breiðafjörð inn að 40 mílum og sunnan við Reykjanes inn að 23 mílum. Auk þess fá þeir svo heimild til þess að veiða inn að 25 mílum undan Suðausturlandi. Og þessi veiðisvæði eru vissulega ekki valin af handahófi. Þessi svæði eru öll viðurkennd mikil veiðisvæði. Svæðið út af Vestfjörðum er eitt dýrmætasta svæðið, ekki bara ufsa- og karfasvæði heldur líka þorsksvæði. Þetta svæði á að vera opið hálft árið. Fyrir þessi svæði er svonefnd útfærsla í 200 mílur því mesta öfugmæli sem ég hef heyrt. Þar hefur núv. hæstv. ríkisstj. ekki fært landhelgina út í 200 mílur, heldur inn. Hún hefur þvert á móti fært hana inn í allt að 23 mílur. Ég hélt að þegar ákveðið var að færa fiskveiðilandhelgina út í 200 mílur ætti sú útfærsla að gilda fyrir allt land og þá eins fyrir Vestfirði. Nú hefur komið í ljós að svo var ekki.

Í þriðja lagi er það skipalistinn. Með samningnum fylgir listi yfir 40 vestur-þýska togara sem eiga að fá heimild til að veiða innan fiskveiðilandhelginnar. Talsmenn ríkisstj. tala mikið um það hér að verksmiðju- og frystitogarar séu útilokaðir. Staðreyndin er hins vegar sú, að um borð í ýmsum togara þessara, sem fá eiga veiðileyfi, eru fiskimjölskvarnir, en ekkert ákvæði er í samningnum um að bannað sé að nota þær. Þarna er smuga sem vestur-þjóðverjar munu örugglega notfæra sér, og þar með hefur ríkisstj. fallið frá því grundvallaratriði sem samningavíðræður vinstri stjórnarinnar við vestur-þjóðverja strönduðu kannske öðru fremur á þ. e. að leyfa enga slíka vinnslu um borð í vestur-þýskum togurum á Íslandsmiðum.

Í fjórða lagi eru það ákvæðin um friðunarsvæði. Þar virðist mér augljóst að þótt vestur-þjóðverjar muni virða bundin friðunarsvæði, þá er með öllu óvíst hvort þeir hlýða skyndilokunum, og hæstv. utanrrh. hefur ekki gefið viðhlítandi svör þar um. En hæstv. dómsmrh. viðurkenndi í umræðum í dag að engin trygging væri fyrir því að þjóðverjar virtu slíka friðun. Hún á einungis samkvæmt samkomulaginu að gilda fyrir íslendinga. Það er því rangt, sem hæstv. forsrh. og iðnrh. sögðu hér áðan, að í samkomulaginu sé viðurkenning á skyndifriðun. Sú stefna er nú ríkjandi að gripa í vaxandi mæli til skyndifriðunar, þ. e. að loka svæðum með örskömmum fyrirvara, en fækka bundnum friðunarsvæðum. Þess vegna er mjög alvarlegt að skýr ákvæði um þetta efni skuli vanta í samninginn við vestur-þjóðverja.

Í fimmta lagi er skýrt tekið fram í samkomulaginu að vestur-þjóðverjar viðurkenni á engan hátt 200 mílna fiskveiðilögsöguna við Ísland. Það mætti kannske líta á það sem gild rök fyrir einhvers konar samningum til bráðabirgða ef í þeim fælist skýr og ótvíræð yfirlýsing um viðurkenningu á 200 mílna mörkunum. En að gera samning sem þvert á móti felur í sér afdráttarlausa yfirlýsingu um, að engin slík viðurkenning sé fyrir hendi, er að kóróna skömmina.

Í sjötta lagi er það hin margfræga bókun 6 í samningnum við Efnahagsbandalag Evrópu. Fyrr á þessu ári áttu sumir hæstv. ráðh. ekki nógu sterk orð til að lýsa því að alls ekki kæmi til greina að gera nokkurn samning við vesturþjóðverja né aðra aðila í Efnahagsbandalaginu nema gegn því ófrávíkjanlega skilyrði að bókun 6 kæmi til framkvæmda strax. Þessi afstaða hæstv. ráðh. kom skýrt fram hvað eftir annað, m. a. í viðtölum í Morgunblaðinu, og var hún að fullu og öllu í samræmi við þjóðarviljann. En fyrir nokkru þagnaði þessi ráðherrasöngur. Í samningnum við vestur-þjóðverja sjáum við ástæðuna, því að í honum er ekkert ákvæði um að bókun 6 skuli taka gildi. Þar er heldur ekkert ákvæði um að samningurinn við vestur-þjóðverja skuli þá fyrst koma til framkvæmda þegar bókunin taki gildi. Nei, það eina, sem fram kemur í samningnum um þetta efni, er að aðilum sé heimilt að fresta frekari framkvæmd samningsins eftir 5 mánuði frá gildistöku hans hafi bókun 6 þá ekki tekið gildi. Það er því líkara sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan að samkomulagið frestaðist sjálfkrafa. Ráðherrarnir hafa því í þessu sem og öðru kyngt öllum stóryrðum enn einu sinni.

Af þeim ástæðum, sem ég hef nú rakið, og ýmsum öðrum eru SF algjörlega andvíg þessum samningi og telja hann stórhættulegan fyrir íslenskt efnahagslíf og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Þessi samningur er enn frekari ógnun við lífskjör almennings og efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga vegna þess að hér er augljóslega einungis um upphaf á undanþágusamningum við útlendinga að ræða. Þetta er aðeins byrjunin á undanhaldi ríkisstj., forsmekkur þess sem koma skal. Það er þannig alveg augljóst að í kjölfar þessa samnings kemur samningur við Bretland. Það fer ekki á milli mála að þann 5 mánaða tíma, sem líða á frá gildistöku samningsins og þar til fresta má frekari framgangi hans ef bókun 6 verður ekki komin til framkvæmda, hyggst ríkisstj. nota til að ná samkomulagi við breta.

Væntanlega hafið þið, góðir tilheyrendur, tekið eftir orðum hæstv. iðnrh. áðan í þessu sambandi, hann sagði orðrétt: „Ekki halda áfram samningum að sinni.“ Þetta er alveg skýrt og því hefur ekki verið mótmælt.

Hæstv. ríkisstj. hefur fært fram sem eina af höfuðorsökum með þessu samkomulagi að með því væri verið að einangra breta og landhelgisgæslan gæti því einbeitt sér að þeim. Eigi þessi rök að fá staðist, þá ætti að vera auðvelt að fá um það yfirlýsingu frá hendi hæstv. ríkisstj. að engir samningar verði gerðir við breta. Hæstv. forsrh. var beðinn um slíka yfirlýsingu í umr. í gær. Hún kom ekki. Og hún kemur örugglega ekki, því að sá fimm mánaða aðlögunartími, sem þjóðverjar fá hér við land samkvæmt samkomulaginu, er ætlaður til að ná samkomulagi við breta. Væri svo ekki, þá er samningurinn við vestur-þjóðverja um að veiða hér við land í 5 mánuði án þess að bókun 6 komi til framkvæmda út í hött. Það liggur því í augum uppi að þessi samningur er til þess gerður að geta á grundveili hans samið við breta svo að bókun 6 nái fram að ganga.

Þá eru samningar við belga og norðmenn á lokastigi. Örugglega verður samið við færeyinga einhvern tíma á næstunni. Og samningar við fleiri þjóðir kunna að koma til síðar.

Það, sem ríkisstj. hefur þegar boðið öðrum þjóðum, nemur nú alla vega 140–150 þús. tonnum á ári. Fiskifræðingar hafa tekið það skýrt fram að ekki megi veiða meira en tæplega 400 þús. tonn á Íslandsmiðum á næsta ári ef koma eigi í veg fyrir hrun fiskstofnanna. Íslensk skip eiga auðvelt með að veiða allan þennan afla, enda er afkastageta þeirra umfram þessi aflamörk. Tilboð ríkisstj. sem þegar eru kunn, fela því í reynd í sér skerðingu á afla íslenskra skipa um 40% á næsta ári. Það er verið að afhenda útlendingum a. m. k. 40% þess afla sem íslensk skip gætu hæglega veitt á Íslandsmiðum næstu árin.

Ljóst er að ef ríkisstj. hyggst ekki varpa skýrslu fiskifræðinganna í ruslakörfuna verður hún að gera annað af tvennu: að taka fyrir afla útlendinga eða skera niður afla íslendinga sem veiðiheimildum útlendinga nemur. Annaðhvort verður að gera. Ríkisstj. virðist hafa valið þann kostinn að skera niður afla íslendinga.

Enginn þarf að vera í vafa um að sú stefna að semja við útlendinga og skera síðan niður aflamagn íslendinga felur í sér alvarlega árás á lífskjör íslensku þjóðarinnar. Hún getur ekki leitt til annars en efnahagslegrar kreppu hér á landi, — kreppu sem leiða mun til atvinnuleysis og kjaraskerðingar. Þeir menn, sem nú eru að stiga fyrsta alvarlega skrefið í þessa átt, þeir menn, sem eru af fúsum og frjálsum vilja að afhenda útlendingum hluta af lífskjaragrundvelli landsmanna, bera því þunga ábyrgð. Þeir eru í fullri andstöðu við yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar. Þeir eru í fullri andstöðu við hin fjölmennu samtök launafólks í landinu. Þeir eru á rangri og hættulegri leið sem kalla mun efnahagskreppu yfir þjóðina. Ég vil því eindregið hvetja hæstv, ríkisstj. til þess að nema staðar áður en hún fer með þjóðina fram af hengifluginu. Ég vil skora á alla hv. þm. að sameinast um að leggja þennan samning til hliðar og mynda þá þjóðarsamstöðu sem mun tryggja okkur sigur í þriðja þorskastríðinu og jafnframt treysta grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis og velmegunar íslensku þjóðarinnar. — Góða nótt.