27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Jón Árnason:

Herra forseti. Þegar athugað er hvað í þessu samkomulagi um veiðar þýskra togara við Ísland felst og þeir samningar sem í gildi voru milli breta og íslendinga allt til 13. nóv. s. l., ætti það að vera flestum ljóst, sem á annað borð vilja viðurkenna staðreyndir, að það samkomulag, sem hér um ræðir, er að flestu leyti íslendingum hagstæðara en sá samningur sem gerður var árið 1973 við breta.

Þegar tekin eru til athugunar hin einstöku ákvæði samkomulagsins er augljóst, að nú hefur samist um þýðingarmikil atriði sem ekki náðist samkomulag um 1973. Svo sem kunnugt er voru þeir í fyrrv. ríkisstj. ekki allir á einu máli um þann samning og voru við umr. um málið að ýmsu leyti ósammála, þó að lokum færi svo, eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði í lok ræðu sinnar hér á hv. Alþ. 8. nóv. 1973, en þá sagði hv. þm., með leyfi forseta:

„Nú liggur það sem sagt ljóst fyrir að ekki er samstaða innan ríkisstj. um að halda áfram frekari samningsviðræðum við breta og að knýja þá til að samþ. tiltekna breyt. hér til viðbótar sem við Alþb.-menn hefðum talið æskilegt. Þegar svo var komið var ljóst að það varð að taka afstöðu til þess hvort ríkisstj. sem heild gæti staðið saman um þessa afgreiðslu málsins eða ekki. Við Alþb.- menn höfum því tekið þá ákvörðun, að þó að við séum ekki ánægðir með ýmis efnisatriði samkomulagsins sem ég hef hér gert grein fyrir, þá teldum við svo þýðingarmikið að halda stjórnarsamstarfinu áfram, ekki síst fyrir landhelgismálið og einnig varðandi önnur stórmál sem ríkisstj. hefur með höndum, að við vildum fallast á þau drög sem hér liggja fyrir að samkomulagi, þó að þau uppfylli ekki óskir okkar í öllum greinum.“

En um hvað var sá ágreiningur sem um var að ræða, og þær aths. sem Alþb.-menn voru þá með? Ekki var það fiskmagnið sem um var samið, 130 þús. tonn. Það var engin ástæða til að gagnrýna það og það þótt upplýsingar liggi nú fyrir um að einstaka fiskifræðingar hafi alvarlega aðvarað um hættu á ofveiði á þeim tíma og þá sérstaklega hvað þorskstofninn snerti, en það er sem kunnugt er sá fiskur sem bretar sækjast mest eftir. Ég minnist þess ekki. Nei, það voru önnur atriði og hv. 2. þm. Austurl. taldi þau upp í fimm liðum. Hann sagði að þeir Alþb.-menn hefðu borið fram í ríkisstj. till. um að reyna til þrautar að fá breta til að fallast á eftirfarandi fimm atriði:

„1. Að skýrt sé að íslendingar geti ákveðið ný friðunarsvæði og breytt friðunartíma á þeim svæðum sem þá voru í gildi.“ — Þetta var mikilsvirði þá.

„2. Að lokuð veiðihólf væru tvö, en ekki eitt.“ Það var sem sagt þá sem bretar máttu veiða allt í kringum landið nema á einu hólfi upp að 12 mílum.

„3. Að lokunartími veiðihólfa verði íslendingum hagkvæmari en gert er ráð fyrir í samkomulagsdrögunum.

4. Að fram verði tekið, að komi í ljós, að skip hafi brotið reglur um búnað veiðarfæra, þá jafngildi það brotum á samkomulaginu.

5. Að samkomulagið“ — þá var það stórt atriði — „gangi ekki í gildi fyrr en EBE hefur samþ. að þau réttindi, sem íslendingar sömdu um í viðskiptasamningi við bandalagið, gangi öll í gildi.“

Fyrr í kvöld hélt þessi sami hv. þm. því fram að þetta væri ákaflega lítils virði og skipti okkur íslendinga mjög litlu, en þetta var einn aðalpunkturinn og ágreiningurinn innan ríkisstj. 1973 og eitt af þeim 5 atriðum sem þá voru upp talin. Svona geta menn skipt um skoðanir eftir því hvort þeir eru í ríkisstj. eða andstöðu.

Um þessar till. þeirra alþb.-manna varð ekki samkomulag, en samt samþ. þeir samkomulagið, svo sem kunnugt er, alþb.-mennirnir allir. Ef þessi atriði og fyrri till. þeirra alþb.-manna eru bornar saman við það sem felst í því samkomulagi sem hér er til umr., þá ættu þeir að kunna að meta hvað áunnist hefur, því að hér má vissulega benda á mikilsverð atriði sem eru í samræmi við þeirra fyrri till.

Í því sambandi vil ég vekja athygli á 5. tölulið í þessu samkomulagi, en þar segir, með leyfi forseta :

„Í því skyni að vernda svæði þar sem mikið er af ungfiski og hrygningarfiski á hafsvæðinu umhverfis Ísland ábyrgist ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands að þýskir togarar stundi ekki þar veiðar sem íslenskum skipum eru bannaðar af þar til bærum stjórnvöldum. Slíkar ráðstafanir, sem skulu byggðar á hlutlægum og vísindalegum sjónarmiðum og ekki fela í sér mismunun í reynd eða að lögum, skulu tilkynntar ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands eða þeim stjórnvöldum sem hún tilnefnir.“

Og í 6. tölul. er einnig um stórt atriði að ræða sem áður hefur verið talið mikils virði, en þar segir:

„Til frekari verndunar fiskstofnum umhverfis Ísland skal ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands ábyrgjast eftirfarandi:

a. Þýsk skip, sem veiðar stunda á hafsvæðinu umhverfis Ísland, skulu ekki veiða eða hirða fisk undir því máli eða þyngd sem tilgreind eru í hlutaðeigandi reglum varðandi íslendinga og tilkynntar hafa verið ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands eða þeim stjórnvöldum sem hún tilnefnir.

b. Þá skulu þýsk skip, sem veiðar stunda á hafsvæðinu umhverfis Ísland, ekki nota net með smærri möskvastærð en 135 mm frá 16. ágúst 1976.

c. Ef Ísland ákveður síðar að nota skuli aðra möskvastærð fyrir íslenska togara skal sú stærð einnig gilda fyrir þýska togara, enda hafi hinar nýju stærðir verið tilkynntar þannig að gert sé ráð fyrir a. m. k. eins árs aðlögunartíma.“

Það er þetta atriði í samkomulagsdrögunum sem stjórnarandstæðingar hafa gert að umræðuefni og hafa verið að gera tortryggilegt í sambandi við það að biða eigi í heilt ár eftir því að þetta taki gildi eftir að ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um það og tilkynning hafi verið gerð. En það er nákvæmlega sama sem átt hefur sér jafnan stað í þessum efnum, að það verður vitanlega, hvort sem um útlendinga er að ræða eða íslendinga, að tilkynna og taka ákvörðun í þessum málum með nægum fyrirvara, vegna þess að þau veiðarfæri, sem jafnan eru í notkun hjá útgerðinni, kosta tugi millj. og það segir sig sjálft að það er ekki hægt að henda þeim fyrir borð, svo miklum verðmætum, á einn augnabliki eða með dags fyrirvara, eins og sumir af hv. ræðumönnum stjórnarandstæðinga hafa viljað halda fram.

Nei, ég tel að hér sé unnið að þessum málum á mjög eðlilegan hátt og eins og viðgengist hefur þegar um þær breyt. hefur verið að ræða eins og hér er gert ráð fyrir að kunni að eiga sér stað.

Við erum í dag með 120 mm möskva í notkun á togaraflotanum, en það er löngu búið að taka ákvörðun um að 16. ágúst n. k. skuli stækka möskvann upp í 135 mm, og það er einmitt með tilliti til þess sem þetta er tekið inn í samkomulagsdrögin nú.

Varðandi viðskiptasamning EBE, að hann taki gildi eða sá hluti hans sem mestu máli skiptir fyrir íslendinga, þ. e. tollaákvæðið, sem gilda átti um sjávarafurðirnar, þá hefði nú eins og í fyrra skiptið verið nauðsynlegt að tengja það gildistöku samkomulagsins, og viðurkenni ég að það hefði verið æskilegast. En það verður þó að segjast, að sá varnagli, sem hér er settur, þ. e. að samningurinn frestist að 5 mánuðum liðnum hafi þetta ákvæði ekki náð fram að ganga, er vissulega betri kostur en sá að sitja með samkomulagið gildandi allt tímabilið án þess að ná fram þessu þýðingarmikla hagsmunaatriði sem er bókun 6 í viðskiptasamningnum.

Ég vil líka benda á það, að fari svo að þetta mikilsverða atriði nái ekki fram að ganga á þessum tilskilda tíma, þá fá vestur-þjóðverjar enga veiðiheimild út af Vestfjörðum, og það ættu a. m. k. sumir hv. þm. að kunna að meta eftir því sem hefur komið fram í þessum umr., og eftir því sem hæstv. utanrrh. hefur upplýst, þá mun á fyrsta tímabilinu eða fyrstu 5 mánuðunum verða miðað við að þýsku togararnir veiði ekki meira en 5/12 hluta ársafla, og það skiptir vitanlega miklu máli. Ég geri nú ráð fyrir því, að vegna þess að sá tími fer í hönd sem þýsku togararnir að öllum jafnaði veiða hvað minnst, þennan árshluta, hér við Ísland, að þá megi jafnvel búast við því með eðlilegum hætti að afli þeirra á fyrstu 5 mánuðunum verði minni en 5/12, ef miðað er við að þessi 60 þús. tonn skiptist eðlilega eftir árstímum, því að við vitum að tíminn frá því 1. maí eða svo og fram til 1. des. er miklu arðsamari fyrir veiðar þýsku togaranna hér við land og sú mun reynslan hafa verið á undanförnum árum.

Það er ekki aðeins að vestur-þjóðverjar fallist á eftir þessu að samningum verði frestað, eftir því sem hæstv. utanrrh. hefur upplýst, heldur liggur það þá fyrir að á meðan slíkt ástand er fyrir hendi færa togararnir sig út fyrir 200 mílna mörkin. Í því sambandi vil ég segja það, að ef slíkt ákvæði eða tímasetning hefði verið í samkomulagi sem gert var við breta á sínum tíma, þá stæðu þau mál á annan hátt og hagstæðari fyrir íslendinga í dag en raun ber vitni um.

Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði í sinni ræðu hér í gær að það hefði verið fyrir sig að gera þetta samkomulag ef bókun 6 kæmi til framkvæmda jafnhliða. Þm. sagði: „Ég tel að þetta ákvæði sé okkur mjög þungt í skauti“ — og benti í því sambandi á þá erfiðleika sem nú eru fyrir hendi um sölu á rækju m. a. og má rekja til þess sem af þessu hefur leitt.

Ég er hv. þm. sammála um að hér er mikið í húfi, en vil þó benda á að ólíkt stöndum við betur að vígi hvað þetta snertir með það samningsuppkast, sem hér liggur fyrir, en það, sem fólst í samkomulaginn við breta, eins og ég hef áður vikið að. Hitt er svo annað mál, að margt bendir til þess að enn liði nokkur tími þar til ákvæði þetta kemur til framkvæmda. Á meðan sáttmáli EBE-landanna er þannig að eitt aðildarríki hefur neitunarvald, má því ljóst vera að eftir að bretar gerðu alvöru úr hótun sinni um að senda herskipaflota sinn gráan fyrir járnum inn í íslenska landhelgi til að vernda breska veiðiþjófa, þá eru samningar við þá ekki í nánd. Með þessu hafa bretar fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi viðræðna um veiðiheimildir þeim til handa. Það ættu bretar að hafa lært, að með ofbeldi og ógnun herskipaflota verður málstaður Íslands og skýlaus réttur þjóðarinnar til auðæfa hafsins umhverfis strendur landsins ekki sigraður.

Það kann að vera að bretar dragi þá ályktun af fyrri reynslu sinni í þessum málum að þeir geti hvenær sem er dregið herskipaflota sinn til baka og síðan sest að samningaborði. Það situr síst á þeim alþb.-mönnum að vera að brigsla öðrum um óheilindi og sýndarmennsku í baráttunni fyrir stækkun landhelginnar — eða hvað gerðu þeir 1973 þegar bresk herskip voru búin að vernda veiðiþjófa sína árlangt og drógu síðan til baka og hófu samninga við þá ríkisstj. sem alþb.-menn áttu aðild að? Þessa hefði hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, átt að vera minnugur þegar hann talaði digurbarkalega um þessi mál hér áðan.

Yfirleitt hefur það komið fram í þeim umr., sem hér hafa verið fluttar af hendi þeirra sem í stjórnarandstöðunni eru, að þeir sjá ekkert nýtilegt í þeim drögum að samkomulagi sem hér er til umr. Ekki dettur mér í hug að halda því fram að ég sé að öllu leyti ánægður með þær málalyktir sem nú liggja fyrir. En það er jafnan svo, að þegar samið er um mál, sem ágreiningur er um, þá hlýtur svo að fara í þessu máli sem öðrum að ekki næst allt fram sem maður hefði helst kosið. Ég vil þó taka fram að ég tel að í þessum samningsdrögum felist þýðingarmikil réttindi okkur íslendingum til handa, ef rétt yrði á haldið, sem geti orðið okkur að verulegu líði hvað viðkemur verndun fiskstofnanna, og á ég þar við 5. og 6. tölul. samkomulagsins sem hljóða eins og ég hef þegar lesið upp, en það eru þau atriði sem skiptir miklu máli að samkomulag hefur náðst um.

Það hefur verið okkar ógæfa, vil ég segja, hvað sumir af okkar framámönnum hafa haft lítinn áhuga á sjálfri friðuninni, þ. e. að virða verulega veiðisvæði þar sem vitað er um þýðingarmiklar hrygningarstöðvar og þau svæði önnur sem ungfiskurinn heldur sig á. Með því að nýta þessa þætti samkomulagsins til hins ítrasta getum við örugglega bjargað miklu og stöðvað vissan þátt rányrkjunnar. En hér eigum við íslendingar því miður ekki aðeins í baráttu við útlendinga. Hér eigum við einnig í baráttu við okkur sjálfa, og það er hart til þess að vita hvað oft hefur verið talað fyrir daufum eyrum þegar á þetta hefur verið bent. Ég vil segja, að það er leitt til þess að vita hvað því hefur verið lítið sinnt á undanförnum árum að taka ákvarðanir um að friða hrygningarsvæðin meira en gert hefur verið og að friða meira af fisksvæðum í kringum landið, þar sem vitað er að ungfiskurinn er og hefur verið miskunnarlaust drepinn af ýmsum, bæði íslenskum og erlendum veiðiskipum, á undanförnum árum. Það eru fáir, sem hafa verið í forustu um þessi mál fyrir okkur íslendinga í ríkisstj., sem hafa beitt sér sem skyldi fyrir því að stækka þessi svæði sem þó geta haft úrslitaáhrif um að vernda ungfiskinn og hrygningarstöðvarnar sem gegna vissulega mjög þýðingarmiklu hlutverki og ráða miklu um það hvernig fer með fiskstofnana í framtíðinni.

Það hefur komið fram í þessum umr. þegar rætt hefur verið um það hámarksmagn sem samkomulagið felur í sér að nú þurfi að taka sérstaklega með í reikninginn að ísfiskurinn rýrni og léttist frá því að fiskurinn kemur inn fyrir borðstokkinn og þar til hann er veginn á markaðnum í söluhöfn. Það er engu líkara en að hér sé um ný vísindi að ræða. En ég verð að segja að ég minnist þess ekki að þessir sömu ræðumenn hafi sérstaklega vakið athygli á þessu í sambandi við breska samninginn því að sjálfsögðu hefur þetta lögmál einnig verið fyrir hendi þá.

Stækkun landhelginnar er eitt af þeim málum sem segja má að sé öðru fremur samofið sjálfstæðissögu íslensku þjóðarinnar. Er löngu ljóst að það eru auðæfi hafsins umhverfis strendur landsins sem hún á öðru fremur lífsafkomu sína undir. Það er að sjálfsögðu með hliðsjón af því að ekkert mál, sem Alþ. hefur með höndum, á jafnóskipta athygli þjóðarinnar og landhelgismálið, og svo hefur verið allt frá því að baráttan fyrir stækkun landhelginnar hófst á fyrri hluta þessarar aldar.

Sjálfsagt eru allir sammála um að æskilegt væri að við íslendingar sjálfir gætum ákveðið stærð okkar fiskveiðilandhelgi, hvort sem um hefur verið að ræða 12, 50 eða 200 sjómílur, og þegar við hefðum tekið okkar ákvörðun, þá sé málið útrætt og engar veiðar útlendra aðila leyfðar í íslenskri landhelgi og því síðan framfylgt í laganna nafni. En því miður, málið er ekki svona einfalt og þess vegna hafa íslenskar ríkisstj. hver á eftir annarri farið þá leið að leggja sig fram um að ná samkomulagi um málið og með því náð hverjum áfanganum á eftir öðrum. Á síðari árum hefur þróunin á alþjóðavettvangi orðið mun hraðari en áður og okkur hagstæðari. Við höfum fylgst vel með, og vegna þeirrar sérstöðu, sem þjóðin á við að búa í þessum efnum, hefur hún skipað sér í fremstu línu í sókn til aukinna umráða yfir öllu landgrunninu og verðmætum þess.

Í dag eru menn sammála um að hverju stefni og að skammt sé undan að fullur sígur náist. Þess vegna er það jafnvel nauðsynlegra nú en áður að þjóðin standi saman í lokaáfanganum og nái því fram nú sem fyrr í samningum við þær þjóðir, sem hér eiga hlut að máli sem best má verða með tilliti til þeirra möguleika sem þjóðin hefur yfir að ráða.

Það, sem mér finnst erfiðast að sætta mig við í þeim samkomulagsdrögum sem hér eru til umræðu, er hvað hámarksaflinn, sem þjóðverjar mega taka, er mikill. Það er hins vegar staðreynd að hér er um árangur að ræða sem okkar samningamenn hafa talið sig geta náð bestum. Sjálfstæðismenn hafa fyrr staðið að samningum í landhelgismálinu og það var í sambandi við þegar við færðum út í 12 sjómílurnar. Við munum eftir því hvernig vinstri stj. fyrri skildi þá við. Hér var allt óleyst þegar sú stjórn hrökklaðist frá. Þá voru gerðir samningar við breta sem leystu það mál visst tímabil. Það var af hendi stjórnarandstæðinga og þeirra alþb.-manna þá talin landráð, og brigslyrði á ýmsan hátt voru þá höfð í frammi, og hv. þm. Gils Guðmundsson sagði áðan að þeir samningar hefðu verið einhverjir þeir hörmulegustu og verstu sem gerðir hefðu verið fyrir þjóðina í þessum efnum.

Hv. þm. Stefán Jónsson talaði um það áðan að það væri rétt að bera þessa samninga, sem nú væri verið að gera undir þjóðaratkv. En samningarnir, sem sjálfstæðismenn stóðu að í sambandi við 12 mílna útfærsluna, voru bornir undir þjóðaratkv. Nokkru eftir að þeir voru gerðir fóru fram kosningar til Alþ. og að sjálfsögðu var þetta stóra mál eitt af þeim stærstu málum sem þá var kosið um. Það gaf auga leið ef hér hefði verið um þá hættulegu samninga að ræða fyrir þjóðina sem stjórnarandstaðan, alþb.- menn og aðrir, vildi þá halda fram að þeir væru, að þjóðin hefði vísulega dæmt sjálfstæðismenn þá fyrir samningana að þeim verðleikum sem þessir menn töldu. En hver var svo árangurinn í þeim kosningum? Enginn flokkur kom sterkar út úr kosningunum en Sjálfstfl., og svo mundi fara í dag ef þessir samningar yrðu bornir undir þjóðina. Færu kosningar fram í náinni framtíð mundi það einnig koma í ljós að Sjálfstfl. kæmi sterkur út úr þeim kosningum fyrir þau afskipti sem hann hefur haft af þessum málum. Með tilliti til þess og einnig með tilliti til þess að ýmis ákvæði þessa samkomulags, eins og ég hef vikið að, eru mjög þýðingarmikil ef rétt er á haldið, þá tel ég að íslendingar eigi að samþ. drög að samkomulagi við vestur-þjóðverja um veiðiheimildir þeim til handa eins og hér er gert ráð fyrir.