27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þetta er nú orðið nokkuð löng lota um þá till. sem hér liggur fyrir. Satt að segja var ég farinn að hugleiða það í kvöld að láta strika mig út af mælendaskrá þar sem ég hefði engu við að bæta sem samherjar mínir fyrir þessu máli voru þegar búnir að segja. En ég hætti við það þegar hæstv. iðnrh. var búinn að flytja útvarpsræðu sína. Þá ákvað ég að koma hér upp í pontuna og segja nokkur orð.

Það hafa sagt mér gamlar konur af Snæfellsnesi, sem ennþá minnast með söknuði framboðsfunda fyrir 40 árum, að þær hafi aldrei augum litið annað eins prúðmenni og Gunnar Thoroddsen. Það liggur við að fyrir bregði klökkva í röddinni þegar þær segja mér frá þessu. Nú er það þannig með þetta orð, prúðmenni, að það getur haft margs konar merkingu. Forfeður vorir lögðu í það þá merkingu, að prúðmenni væri ekki aðeins kurteis maður og háttvís, heldur líka drengskaparmaður. Samkv. þeirri skilgreiningu hlýtur það að vera tilviljun að í þeirri ræðu, sem hæstv. iðnrh. flutti strax á eftir ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, gerðist hann sekur um það sem forfeður vorir nefndu klámhögg. Klámhögg var það að vega að manni sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi ræða var flutt þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafði lokið máli sínu. Hann hafði ekki frekara tækifæri að koma neinum svörum við í útvarpi. En ræða hæstv. iðnrh. var mestan part persónulegar árásir á hv. þm. Lúðvík Jósepsson. Slíkt hygg ég að forfeður vorir hefðu nefnt klámhögg. Þetta voru mestan part endurteknar firrur og hæpnar fullyrðingar sem þegar höfðu verið hraktar í þessum umr. Þær voru endurteknar í skjóli þess að ræðan var flutt í útvarp, alþjóð hlustaði, en sá, sem ráðist var á, hafði ekki tækifæri til þess að svara fyrir sig. Ég efast ekkert um það að gamlar konur á Snæfellsnesi mæli af heilum hug þegar þær segja að Gunnar Thoroddsen sé mesta prúðmenni sem þær hafi augum litið. En ég efast um að Gunnar Thoroddsen stæðist prófið samkvæmt þeim skilningi sem forfeður vorir lögðu í þetta orð.

Á einum stað í ræðunni sagði hann: „Lúðvík Jósepsson fullyrðir að við getum varið landhelgina með klippingum, en ég veit ekki betur en það hafi verið til klippur í tíð Lúðvíks Jósepssonar.“ Eins og allir vita fór Lúðvík Jósepsson ekki með landhelgisgæsluna. Það var annar ráðh. sem fór með hana þá og fer með hana enn.

Margar fleiri slíkar fullyrðingar hæstv. ráðh. mætti nefna. Eitt var það t. d., að Lúðvík Jósepsson hefði fundið upp sjálfur töluna 40 þús., að þjóðverjar muni veiða á þessu ári aðeins 40 þús. tonn, þ. e. a. s. að það sé verið að hækka afla þeirra um 50% með þessu tilboði um 60 þús. En tækifærið til þess að svara þessu í útvarpi, það var liðið hjá.

„Þjóðverjar ætla að hætta að veiða þorsk,“ sagði ráðh. Það hefur komið fram í þessum umr. hvað eftir annað að á síðasta ári veiddu þeir 5 500 tonn, og samningurinn hljóðar upp á 5 þús. tonn. Ef þeir hafa ætlað að hætta að veiða þorsk núna, þá hafa þeir verið hættir því í fyrra.

Enn eitt, sem sýnir prúðmennskuna, var það tækifæri sem þarna var notað til þess að kasta fram tölu varðandi fundinn sem haldinn var hér í Reykjavík í dag. Það hefur heyrst að þar hafi verið allt upp í 10-12 þús. manns. Það vildi svo til að þegar ég kom hér aðeins við í húsinu á leið minni á fundinn, þá var maður einu að ganga inn í húsið. Og þegar ég kom svo af fundinum, rauðnefjaður töluvert og kaldur í andliti, þá var þessi sami maður sem ég hafði mætt í dyrunum hér inni, jafninnifölur og venjulega. Hann hafði ekki verið á þessum fundi, hæstv. iðnrh , þó að hann leyfi sér að kasta fram tölunni 4 þús. Og til þess nú að ekki sé hægt að væna hann um skort á prúðmennsku, þá bætir hann svolitlu við, ég skrifaði þetta orðrétt eftir honum: „Þarna voru í mesta lagi 4 þús. manns samkv. nákvæmustu heimildum sem hægt er að afla.“ Honum svelgdist ekkert á þessu, þó að hann haldi því hins vegar fram að Lúðvík Jósepsson hafi fundið upp töluna 40 þús. og hafi engar heimildir fyrir henni. Drottinn minn dýri ! Hvílík prúðmennska ! Hvað mundu forfeður vorir hafa sagt?

Nú, svo er það, sem kveður við hér aftur og aftur í ræðum, að Lúðvík Jósepsson eða við aðrir stjórnarandstæðingar, við séum að fullyrða að það sé hægt að verja landhelgina. Við erum þó aðeins að flytja hingað inn fullyrðingar þeirra manna sem gleggst eiga að vita. Með allri virðingu fyrir sjómennsku hæstv. ríkisstj., þá hygg ég að þeir menn viti miklu, miklu meira um þau mál heldur en hæstv. ríkisstj., a. m. k. sá partur af henni sem situr hérna hægra megin við mig. (Gripið fram í.) Það er Guðmundur Kjærnested. Það er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Þetta er fullyrt í ályktun frá síðasta þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Það segir í þeirri ályktun, að íslenska landhelgisgæslan geti varið landhelgina. Þessir menn segja að vísu: Okkur vantar svona 4–5 nýjustu skuttogarana, þessa stóru, 1000 tonna togara. Þeir komast allt upp í 17 mílur. Látið okkur hafa þá í viðbót, og þá getum við varið landhelgina. — Þetta eru því ekki fullyrðingar Lúðvíks Jósepssonar eða okkar alþb.- manna sem sitjum hér á þingi.

Vitanlega liggur það í augum uppi að gæslan hefur aldrei fengið að sýna hvað hún getur. Enn í dag fullyrti hæstv. dómsmrh. að það hafi aldrei verið lagðar neinar hömlur á gæsluna. Varðskip okkar hafa fengið að fara öllu sínu fram, sagði hann. Af hálfu yfirvalda í landi hefur aldrei verið reynt að halda aftur af gæslunni — aldrei. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það, að ég get fullyrt af eigin reynd að þetta er ekki satt. Mér þykir þetta eiginlega enn þá leiðinlegra fyrir það, að ástæðan til þess að ég get fullyrt þetta af eigin reynslu er sú, að hæstv. dómsmrh. sýndi það frjálslyndi vorið 1973 að leyfa nokkrum mönnum að fara út á varðskipi. Ég var einn þeirra. Þetta var á Óðni. Við fórum á miðin út og norður af Vestfjörðum. Og það blasti við okkur allan tímann að það voru svo sannarlega hömlur á því hvað menn gátu og máttu gera.

Einhver kynni að draga í efa sannleiksgildi þessa, því að það er nú maður af þessari sortinni sem segir það. Kannske ég leiði þá fram vitni úr annarri átt, með leyfi hæstv. forseta. Í Tímanum 29. apríl er grein eftir blaðamann sem fór þessa ferð með mér. Hann lýsir því hvernig hópur breskra togara, sem þarna eru þegar við komum á vettvang, sundrast og það verður vart við töluverða truflun um borð. Og svo segir hann: „En því miður virtust varðskipsmenn ekki fá að hafa nein afskipti af landhelgisbrjótunum, og brátt voru þeir farnir að veiða aftur með verndara á hælunum.“ Þetta er í málgagni hæstv. dómsmrh., Tímanum, málgagni þess hæstv. dómsmrh. sem sagði í dag, að það hafi aldrei verið af hálfu yfirvalda gæslunnar í landi reynt að halda aftur af gæsluskipunum. Og blaðamaðurinn segir síðar: „Mín skoðun er sú eftir þessa ferð með Óðni að það hljóti að vera niðurdrepandi fyrir áhafnir varðskipanna að aðhafast ekki neitt innan um stóran hóp togara, eins og raunin var á um Óðinn á fimmtudaginn.“

Ég tek undir þetta. Ég held það hljóti að vera niðurdrepandi fyrir varðskipsmenn okkar að hafa yfir sér þessi stjórnvöld í átökum sínum við erlenda veiðiþjófa.