27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Það verða nú aðeins örfá orð. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka til máls, enda orðið áliðið og þetta er víst fjórða ræðan sem ég held í dag í þessu máli og þykir mörgum eflaust nóg um og þar á meðal sjálfum mér.

En vegna þess að hv. 2. þm. Austurl., sem ég hef nú margs góðs að minnast um frá okkar samverustundum í slag við útiendinga, lét þau orð falla hér að ég hefði gefið ótvírætt í skyn við landhelgisnefnd að 5 mánaða fresturinn, sem hér er um talað og allir vita hvað við er átt, yrði notaður til þess að ná samningum við breta, þá vil ég bara segja það að ég kannast ekki við þessi ummæli. Það hlýtur að vera einhver misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi látið þessi orð falla og ég vona að aðrir landhelgisnefndarmenn geti borið um það með mér.

Hann sagði einnig að ég hefði haft rangt við, ef svo má segja, í útvarpsræðu minni, þegar ég talaði um þessar kvarnir sem við höfum verið að ræða um að væru í skipunum. Ég skil þetta ekki alls kostar. Það er kannske misskilningur minn og það að ég sé orðinn syfjaður og þreyttur, en hér segir í þessari margnefndu fundargerð að Lúðvík Jósepsson hafi spurt hversu mörg af skipunum gætu talist mjölvinnsluskip. Þá sagði dr. Mayer, sem er sérfræðingur þjóðverja í þessum málum, að flestir þýskir togarar hefðu einhverja aðstöðu til mjölvinnslu, stundum væri þar um verksmiðjuskip að ræða sem hefði verið breytt í togara. Hins vegar hefðu þjóðverjar engan áhuga á því að búa til mjöl úr heilum fiski, slíkt kæmi einungis fyrir innan við 1% af magninu. Væri þar aldrei um að ræða ýsu, þorsk eða ufsa, en einstaka sinnum kæmi fyrir að minni karfi væri tekinn þannig. — Nú vorum við að tala við þjóðverjana á sínum tíma um 40 ísfisktogara og aðra 40 verksmiðju- og frystitogara og mér verður þá á að spyrja, þegar það er upplýst að flestir þýskir togarar hafi einhverja aðstöðu til mjölvinnslu: Hvaða togarar voru það þá sem við vorum að tala um við þjóðverja að kæmi til mála að fiskuðu á Íslandsmiðum? Ég held að það hljóti að vera þessir togarar, sem hafa þessar litlu kvarnir, sem kallaðir eru ísfisktogarar, eða þannig hef ég alltaf skilið þetta mál, en að við hefðum verið fyrst og fremst að útiloka verksmiðjutogarana og frystitogarana. Svona stendur þetta nú í mínum huga. Það má vera að hv. 2. þm. Austurl. hafi skilið þetta öðruvísi og ég vil ekki bera honum á brýn neitt annað en það að okkur greinir þá á um það hvaða togarar það hafi átt að vera sem fengju leyfi til Íslandsveiða. En ég kem því ekki saman hvaða togarar það ættu að vera ef líka ætti að útiloka þessa 40 ísfisktogara. Ég hélt að við hefðum verið að tala um þá. Meira skal ég ekki segja um þetta. Þetta er liðin tíð og þessir samningar voru aldrei gerðir, eins og við vitum.

Ég ætlaði aðeins, fyrst ég stóð upp, að leiðrétta mismæli sem mér varð á í dag þegar ég svaraði hv. þm. Ragnari Arnalds. Ég mun hafa sagt að það væri minn skilningur, að ef bókun 6 yrði ekki komin til framkvæmda, þá félli samningurinn úr gildi. Það er auðvitað ekki rétt — það var bara mismæli —- þá verður honum frestað. Þetta vildi ég leiðrétta.

Svo vil ég gjarnan segja það við hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, sem talaði svo prúðmannlega og vel áðan, að ég hef lesið margar ágætar sögur eftir þennan hv. þm. og líkað þær vel. Hins vegar hef ég ekki heyrt hann lesa þær upp sjálfan fyrr en núna. Ég heyrði hann lesa upp eina sögu sem hlýtur að vera hans næsta skáldsaga þá og hún er þess efnis að ég hafi átt að fara til Bonn með óútfylltan tékka frá þingflokki Framsfl. Þetta er ekki rétt. Ég fór með ákveðin fyrirmæli sem mér var falið að fara eftir. Ég fór eftir þeim, kom heim, ekki með skuldbindingu heldur tilboð.

Svo vil ég aðeins víkja að ræðu Jóns Árm. Héðinssonar, hv. 1. landsk, þm. Hann sagði það alveg réttilega að fram að þessu hefðum við ekki verið þess umkomnir í okkar landhelgisdeilum að taka skrefið í einu, við höfum orðið að taka útfærsluna skref fyrir skref. En þá verður mér að spyrja: Erum við þá núna orðnir þess umkomnir að taka stóra skrefið — stærsta skrefið — í einum áfanga? Er það ekki alveg rétt, eins og við þurftum að taka minni skrefin í áföngum, að þá þurfum við að taka þetta skref líka í áföngum? Ég vil meina að það sé það sem ríkisstj. er að stefna að með þeirri þáltill. sem hér er til umr. Hann vildi, hv. þm., semja við þjóðverja til 1. maí. Hann er heldur ríflegri, eða kannske naumari mætti segja, heldur en hv. 2. þm. Austurl. sem telur að 5 mánaða samningur við þjóðverja sé ekki nægilega langur. Það, sem vinnst við 5 mánaða frestinn að mínu mati, er að við eigum auðveldara með að halda veiðum bretanna niðri. Það er mín trú. Aðrir hafa aðra skoðun. Aðrir telja sig vita að landhelgisgæslan geti fyllilega ráðið við breskar freigátur, þær séu bara eins og tinkoppar sem hægt sé að víkja til hliðar og klippa aftan úr togurunum jafnt fyrir þeirra nærveru hér. (Gripið fram í: Það gerði einn þeirra um daginn.) Já, já. Það er vonandi að það takist sem allra best. Ég óska þess af heilum hug að okkur takist að halda bretunum sem allra mest niðri, en ég gæti trúað því að meðan íslensku gæsluskipin væru að eltast við þjóðverja og klippa aftan úr þeim, þá yrði lítið tækifæri og litið gert að því að klippa aftan úr breskum togurum.

Ég ætla svo ekki að lengja þessar umr. meira en orðið er og láta hér staðar numið. Það er aðeins eitt, sem ég vil bæta við, eftir á að hyggja. Hv. 1. landsk. þm. minntist á það að dr. Jakob Magnússon væri okkar færasti karfasérfræðingur. Það mun hann vera. Það draga eflaust engir það í efa. Þessi hv. velmetni fiskifræðingur var með okkur í Bonn og ég get ekki skilið hann betur en svo að það væri óhætt að gera þennan samning um karfann.