27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek eftir því að hæstv. forseti segir að ég geri stutta aths. Ég skal lofa því strax að mín aths. verður styttri en hjá hv. 2. þm. Austurl., en hún er ekki stutt vegna þess hver tími sólarhringsins er. Það hefur ekki verið svo mikið um að vera hér á hv. Alþ. það sem af er liðið með fundarhöldum að mönnum sé nein vorkunn á því, hvorki mér né öðrum, að vaka hér nokkuð fram eftir nóttu, ekki síst þegar til umr. er jafnstórt og mikilvægt mál og og hér er nú verið að ræða.

Það væri auðvitað full ástæða til þess að fara nokkuð mörgum orðum um ýmislegt af því sem hér hefur komið fram í ræðum stjórnarliða, bæði í gær og í dag. Ég skal ekki tíunda mikið af því, en ég vil aðeins ræða hér nokkur atriði.

Það var minnst á það áðan af hv. 1. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, að það hefði verið skrifaður leiðari í dagblaðið Tímann í dag og leiðarhöfundur er sjálfur hv. þm. Þórarinn Þórarinsson sem kannske ber höfuðábyrgðina á því samkomulagi sem hér á að staðfesta nú með morgni. í þessum leiðara hefur hv. þm. Þórarinn Þórarinsson valið þann kost að stimpla okkur stjórnarandstæðinga sem sérstaka bandamenn breta í þessu máli. Ekki er mér ljóst hver ástæða þessarar ákvörðunar hv. þm. er., en ég skal ekkert reiðast honum fyrir það. En ég hygg að aðalástæða þessara skrifa sé, eftir því sem best verður út úr þeim lesið, að við séum andvígir því að gera þetta samkomulag við vestur-þjóðverja, en í leiðaranum segir: „Samkomulagið leiðir til þess að við getum einbeitt okkur betur gagnvart bretum.“ Það þýðir að nú á eftir orðanna hljóðan í þessum leiðara hv. þm. svo og í ræðum margra annarra stjórnarliða í umr. að snúa sér að bretum.(Gripið fram í: Við gerum það.) Það er nú kannske auðveldara fyrir hv. þm. Þórarin Þórarinsson að svara því. En mér finnst vanta á slík skrif eða ummæli sem þessi. Nú vil ég gera samkomulag við hv. þm. Þórarin Þórarinsson. Ég skal taka til endurskoðunar mína afstöðu til þess samkomulags sem hér er til umræðu, ef fyrir liggur og fram kemur yfirlýsing, þó ekki væri nema frá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, um það að ekki verði samið við breta í áframhaldi af þessum samningi. Er hann reiðubúinn til að lýsa því yfir hér? Ef það er, þá er ég reiðubúinn til þess að endurskoða mína afstöðu til þessa samkomulags. (Gripið fram í.) Ja, hvað þarf að vera mikið til þess? (Gripið fram í.) Hvað þarf að vera mikið til þess — (Forseti: Ekki samtal.) — að loforðið komi? Ég held nefnilega að það sé rétt sem hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sagði hér áðan, og það er auðvitað öllum kunnugt að Þórarinn Þórarinsson er slyngur stjórnmálamaður. (Gripið fram í.) Og fer vel, já það er rétt. En hann er kannske slyngastur við það að leiða sína stundum, en allt of sjaldan tregu flokksmenn í taumi, stig af stigi inn á þá skoðun sem hann vill láta þá hafa hverju sinni. Það skyldi ekki vera að það væri þetta sem hefði gerst og sé að gerast? Það er augljóst mál að sé meiningin sú að þetta samkomulag eigi í raun og veru að hafa eitthvert gildi, þá verður að koma á eftir samkomulag við breta, eftir því sem stjórnarliðar sjálfir hafa talað og haldið fram.

Mér er það óskiljanlegt hjá hæstv. utanrrh. sem hann sagði hér áðan: Þetta 5 mánaða samkomulag við vestur-þjóðverja auðveldar baráttuna gegn bretum næstu 5 mánuðina“ — þ. e. a. s. þá mánuði sem mestar líkur eru á því að þeir verði minnst að veiðum hér við land, vetrarmánuðina. En hvað tekur við þegar komið er fram í maí og þetta samkomulag, eftir því sem þeir segja sjálfir, stjórnarliðar, ekki fellur úr gildi, heldur verður frestað og kemur upp nákvæmlega sama ástand og nú er? Verður þá auðveldara, þegar komið er fram á vor eða sumar, að eiga í slag við bæði þjóðverja og breta þegar þeir veiða hér af fullum krafti? Er auðvitað augljóst að þetta er alrangt. Þetta er besti tíminn vegna veðráttunnar hér við land á þeim miðum sem bretar fiska á, besti tíminn sem við gátum valið okkur til þess að láta á það reyna með hvaða hætti væri best að meðhöndla þá. Veðráttan við Ísland hefði orðið æðimikil hjálparhella landhelgisgæslunni gagnvart bretum á því 5 mánaða tímabili sem þetta samkomulag á að gilda,

En eru það bara við stjórnarandstæðingar sem finnum ýmislegt athugavert við það samkomulag sem hér liggur nú fyrir? Ég held ekki. Hver stjórnarliðinn á fætur öðrum hefur komið hér upp í ræðustól í gær og í dag og tínt upp svo og svo mörg meginatriði þessa samkomulags sem þeir eru andvígir, og ég ætla að leiða hér sem vitni ekki ómerkari mann en hv. 2. þm. Vestf., sjálfan ritara Framsfl. Menn segja að hann hafi haldið hér tímamótaræðu í gærkvöld, og vissulega var það satt að það var að mörgu leyti merkileg ræða, því að allt frá upphafi þeirrar ræðu fram undir endalok hennar gat enginn hv. þm. annað skilið en að þessi hv. þm. væri andvígur samningnum og mundi greiða atkv. á móti honum, en hann segir um ókosti þessa samkomulags: Það er í fyrsta lagi: Svæðin eru allt of stór. Þá í öðru lagi: Þau eru of nálægt landi á Vestfjörðum og fyrir Suðausturlandi. — Þetta er auðvitað stórt atriði. — í þriðja lagi: Það er ótrúlegt, segir þessi hv. þm., ritari Framsfl., ef það er hægt að skilja þorskinn frá öðrum afla. — Þetta hlýtur að vera stórt atriði í samkomulaginu. Í fjórða lagi harmaði þessi hv. þm. það sérstaklega að engin viðurkenning af hálfu þjóðverja fengist vegna útfærslunnar í 200 mílur. Og í fimmta lagi harmaði hann það sérstaklega að engin ákvæði um endanleika samningsins væru fyrir hendi. Sem sagt fimm af meginatriðum samningsins eru þannig að þessi hv. þm., sjálfur ritari Framsfl., var allt fram á daginn í fyrradag, nú talað, móti þessum samningsdrögum, því að hann endaði sína ræðu með því að segja: Ég var á móti samningi í gær, en er með honum í dag.(Utanrrh.: Hvað skyldi vera á morgun?) Hvað skyldi vera á morgun segir hæstv. utanrrh. Kannske flokksbróðir hans vantreysti eitthvað afstöðunni á morgun þegar til atkvgr. kemur. Það er greinilegt að hans flokksbræður hafa af því kynningu að hann hefur ekki verið allt of þægur til þess að stíga fet frá feti undir handleiðslu sjálfs form. þingfl. framsóknarmanna, hv. þm. Þórarins Þórarinssonar í þessu máli. Og það skyldi ekki vera að þeir væru fleiri, hv. þm. Framsfl. og jafnvel Sjálfstfl., sem tækju endanlega afstöðu á annan veg en þeir hugsanlega gerðu ef sannfæringin fengi að ráða, eins og hæstv. dómsmrh. sagði hér í dag og hæstv. utanrrh. líka að ein ætti að ráða. Það skyldi ekki vera að það væri mörg óróleg samviskan hjá ótrúlega mörgum hv. stjórnarliðum við endanlega afgreiðslu þessa máls hér í þinginu.

En þeim virðist ekki í öllu bera saman, hv. stjórnarliðum, í sambandi við þetta mál. Sumir fullyrða hér að þeir séu aldeilis um það vissir að bókun 6 komi aldrei til framkvæmda. Hv. 3. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, var á annarri skoðun hér í gærkvöldi, því hann sagði orðrétt: Bókun 6 kemur til framkvæmda. — Það var einn af meginkostum samkomulagsins, að að því er hann virtist telja, og hvaðan hefur þessi hv. þm. þá fullvissu, að þessi bókun komi til framkvæmda, og hvernig á það að gerast með öðrum hætti en þeim að í kjölfar þessa samkomulags fylgi samkomulag við breta? Það getur ekki gerst með öðrum hætti. Ég vildi a. m. k. fá að heyra hvað það er sem er á bak við slíka fullyrðingu hjá hv. 3. þm. Vestf., hvað það er sem á bak við það liggur, því að honum ber greinilega ekki saman við suma og kannske marga aðra hv. stjórnarliða. Meira að segja hæstv. ráðh. sumir hverjir hafa talað hér á allt annan veg. En ég er persónulega sammála hv. 3. þm. Vestf. að þessu leytinu til. Ég tel að það verði búið að kippa því í lag á þessu 5 mánaða tímabili sem til þarf til þess að bókun 6 komi til framkvæmda, þ. e. að það verði búið að semja við breta.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja öllu frekar um þetta hér. En aðalatriði þessa máls er það, ef á að afhenda útlendingum það aflamagn sem allt bendir til að þetta samkomulag feli í sér og það sem í áframhaldi af því kemur, hvað á þá að gera varðandi okkur íslendinga sjálfa. Það er aðalspurningin, vegna þess að það er ekki um að ræða aflamagn fyrir okkur sem verður að teljast eðlilegt aflamagn okkur til handa, nema því aðeins að við sitjum að því einir. Allt, sem útlendingum er afhent, er á kostnað okkar sjálfra. Það væri því fróðlegt að fá um það vitneskju frá hæstv. ríkisstj. hvað hún hyggst gera gagnvart íslendingum sjálfum þegar búið er að stiga þetta fyrsta skref og þau skref sem í áframhaldi af því hljóta að koma, að því er ég tel. Hvað er það þá sem á að mæta íslenskum sjómönnum og íslensku þjóðinni raunar í heild? Hvaða ráðstafanir verða gerðar? Verður kvóti settur á svo til hvert einasta fiskiþorp í landinu, eða hverjar ráðstafanir hyggst hæstv. ríkisstj. gera þegar hún er búin að afsala því sem þetta samkomulag ásamt því, sem því fylgir, gerir ráð fyrir að afsalað verði af afla á Íslandsmiðum?