27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það voru örfá orð í tilefni af því sem hæstv. utanrrh. sagði hér.

Ég vil segja það, að fyrst hann heldur því hér fram að það hafi ekki verið hægt að skilja ummæli hans á þann veg sem ég hafði túlkað þau og skilið þau varðandi þennan margumtalaða 5 mánaða frest, þá er ekkert við því að segja, þá hef ég aðeins misskilið hann. Ég ræddi þetta við hann á landhelgisnefndarfundi og hélt því þá fram að sjálfsögðu, eins og ég hef gert hér, að það væri að mínum dómi ekki hægt að leggja aðra merkingu í þennan 5 mánaða frest en að hann ætti að nota til þess að semja við breta, og ég skildi hans ummæli þannig að hann hefði tekið undir þetta. (Gripið fram í.) Ég túlkaði þessi atriði í mínum þingflokki strax á þessa leið, hreinlega vegna þess að ég hafði skilið hæstv. ráðh. á þessa leið. En hafi ég misskilið hann, þá er ekkert við því að segja. Þá hefur hann að sjálfsögðu rétt til þess að túlka sitt mál. Ég get sagt það, að ég hef ekkert nema gott að segja um samskipti mín við hann. Hann hefur verið mjög hreinskiptinn í öllu samstarfi við mig og mér dettur ekki í hug að reyna að halda neinu fram um það, hvað hann hafi meint með samtali þarna, ef það reynist ekki á þann hátt sem ég hafði skilið. En hins sakna ég auðvitað, að fá ekki einhverja skýringu þá á því hver sé frá hans hálfu meiningin með þessum 5 mánaða fresti, hvað eigi að gera við hann. Eftir stendur sú stóra spurning, nema þá, að meiningin sé að láta samninginn aðeins standa í þessa 5 mánuði.

Þá vildi ég aðeins segja það varðandi aths. hans um mjölverksmiðjurnar í þýsku fiskiskipunum að það er alveg rétt, sem hér kom fram hjá honum, að auðvitað var aðaltakmarkið í viðræðum okkar við þjóðverja á sínum tíma að losna við verksmiðjutogarana. Það er ekki neinn ágreiningur um það. Það er líka rétt, að það var ætlunin að semja um að tiltekinn fjöldi ísfiskstogara svonefndra fengi hér veiðiréttindi. Þetta er líka rétt. En hitt er ekki rétt, að hægt sé að lesa út úr mínum ummælum sem hann vitnaði hér til, á neinn hátt það að ég hafi fallist á að þessi skip hefðu verksmiðju til þess að vinna úr einhverjum verulegum úrgangi. Eftir að ég var búinn að ræða þarna við hina þýsku aðila og gefa mínar lýsingar á því hvað fyrir mér vakti í þessum efnum, þá sagði ég orðrétt á þessa leið, eins og hæstv. ráðh. kom hér að, þar sem ég heimtaði að fá frekari skýringar á því hvaða skip væri um að ræða frá þeirra hálfu og vildi fá lista yfir þau. „Þess vegna,“ sagði ég orðrétt, „væri mikils um vert að fá upplýsingar um það hvers konar skip það væru sem þjóðverjar vildu fá leyfi fyrir, því að þá væri hægt að útiloka hin raunverulegu verksmiðjuskip. Væri þá e. t. v. hægt að leysa málið þannig.“ Þetta eru þau orð sem höfð eru eftir mér í þessari fundargerð, og það ber í rauninni ekkert hér á milli, enda hef ég sagt í þessu sambandi að ég sakni þess sérstaklega að það sé tekið fram að þau veiðileyfi, sem eigi að veita með þessum samningi, séu fyrir ísfisktogara, en það er ekki. (Gripið fram í: Listinn.) Ja, listinn segir ekkert til nema um ákveðin skip. Það segir ekkert um það hvernig veiðar þau eiga að stunda, og ef þessi skip hafa rétt til þess að vinna úr aflanum mjöl á miðunum, þá er strax orðið um verulega hættu að ræða sem þarf að gæta að.

Svo vil ég aðeins leiðrétta það hjá hæstv. ráðh., sem ég hygg að hann hafi ekki meint, þó að hann hafi hagað orðum sínum þannig, að hann sagði að mér þætti 5 mánaða samningstími við þjóðverja ekki nægilega langur handa þeim. Sannleikurinn er sá, eins og hann veit, að mér þykir samningurinn þá 5 mánuðum of langur. Eins og hann hlýtur að hafa skilið, þá vil ég ekki gera neinn samning við þá. Hitt er svo allt annað mál, að ég hef ekki skilið „fídusinn“ í þessu, eins og menn segja, ég hef ekki skilið hvað á bak við þetta liggur, nema þá að menn meini eitthvað með þessum orðum til þess að semja við þessar Efnahagsbandalagsþjóðir og koma þessari margumtöluðu bókun í framkvæmd. Þá get ég vel skilið að þessi samningur sé gerður til þeirra tveggja ára sem um er talað. En mig vantar alveg skýringu á því hvað þetta þýðir. En það er eins og annað mikilvægt í þessu máli. Við því fást eflaust engin svör fyrr en líklega að tveggja ára tímabilinu liðnu.