02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

295. mál, Kröfluvirkjun

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Mér þykir nokkur galli að fsp. mínar eru ekki teknar fyrir í þeirri röð sem ég spurðist hér fyrir um því að þær eru allar í samhengi og sú fyrsta, sem ég spurðist fyrir um, var varðandi byggðalínu á Norðurlandi, en maður verður víst að sætta sig við það sem forsetinn fyrirskipar.

Fsp. mín varðandi Kröfluvirkjun er svo hljóðandi:

„1. Hve stóra virkjun er nú verið að gera við Kröflu og hver er áætlaður kostnaður hennar nú?

2. Hvaða aðili á að reka virkjunina þegar hún tekur til starfa?

3. Hve mikið rafmagn má ætla að verði til umframnota á Norðurlandi þegar Kröfluvirkjun og byggðalínan komast í gagn, og hefur verið hugsað fyrir markaði fyrir það? Ef ekki, á hvaða rafmagnsnotendur á að deila kostnaði af því?

4. Hver er kostnaður orðinn við Kröfluvirkjun nú miðað við októberlok:

a. við virkjunarframkvæmdirnar sjálfar, þar með taldar byggingar,

b. Kröflunefndar sjálfrar í heild,

e. laun formanns, skrifstofukostnaður (þar með talinn launakostnaður), aðkeypt ráðgjafaþjónusta og ferðakostnaður?“

Stundum er sagt að reisa eigi 30 mw. orkustöð við Kröflu, stundum 60, stundum 74 mw. Mér þykir rétt að fá nákvæma stærð staðfesta almenningi til upplýsingar. Þá er á huldu hver eigi að að eiga og reka þessa orkustöð, og er tími til kominn að fá það upplýst. Þá eru sterkar líkur á að verulegt umframrafmagn verði á Norðurlandi þegar bæði byggðalínan og Kröfluvirkjun verða komnar í gagn og brýn nauðsyn að hugsa fyrir umsetningu á því, ef ekki hefur verið gert nú þegar, sem ekki hefur heyrst um. Ella hlýtur Kröflu- og byggðalínurafmagn að verða óbærilega dýrt notendum í einhverri mynd, norðlendingum einum eða alþjóð, eftir því sem þau mál verða framkvæmd.

Síðari spurningar mínar út af ýmsu varðandi framkvæmd verksins, en um hana hefur mikið verið talað norðanlands og raunar nú upp á síðkastið um allt land. Val verktaka, sem er fyrst og fremst vega- og stíflugerðarverktaki, ekki byggingarverktaki, hefur verið gagnrýnt þar sem stöðvarhúsbygging er aðalverk hans. Það hefur verið umdeilt að gengið var fram hjá norðlenskum byggingarverktaka við verkið og öll innkaup og flutningar að verulegu magni sett í hendur reykvískum aðilum, byggðasjónarmiðið verið fyrir borð borið. Það hefur verið umtalað, að vegna þess að aðalverktakinn er reykvíkingur og margt starfslið hans héðan hafi flugkostnaður með þá á hálfs mánaðar eða þriggja vikna fresti suður og norður verið stórfelldur, tekin einkaflugvél. Þá hefur val á vélbúnaði til virkjunarinnar verið mjög í munni fólks og hvernig að því var unnið, og nú síðast boðsferð form. Kröflunefndar með fylgdarliði til sölufyrirtækis allar götur til Japans, sem almenningi þykir óviðeigandi, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni, og ýmis umsvif Kröflunefndar hafa þótt næsta þjóðhöfðingjaleg.

En allt er gott ef endirinn er góður, og ekki vil ég gera lítið úr dugnaði Kröflunefndar að reka málið áfram. Einlæglega vona ég að verkinu farnist vel. Hinu leyni ég ekki, að í mér hefur alltaf verið geigur við þessa virkjun geigur og grunsemd hve illa hún var undirbúin rannsóknum — geigur við staðarval. Þarna gaus síðast 1729 og skammt austar 1875. Er ekki djarft teflt að setja lífsstöð norðlendinga niður á bráðvirku jarðeldasvæði, og er gufuvirkjun eins hagkvæm og okkur hefur verið sagt? Hví hefur þá ekki löngu verið virkjað í Hveragerði eða Krýsuvík? Norðanlands var og eru næg fallvötn til að virkja, flest minna í gini gosstöðva en þessi.