02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

295. mál, Kröfluvirkjun

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir gefnar upplýsingar. Eins og menn hafa á hlýtt, þá er hér ekki um neinar smátölur að tefla. Vissi ég vel að Norðurlandsvirkjun var ætlað að taka við þessari virkjun þegar tímar liðu, en enn hefur Norðurlandsvirkjun ekki verið stofnuð og einhver vandkvæði virðast vera á því að hún komist á laggirnar.

Sagnarandar mínir segja mér að ákaflega ólíklegt sé, eins og borun er enn komið í Kröflu, að virkjun komist í gagn 1976. Enn er þar ekki gufa nema fyrir 5 mw. og það má ganga betur borun heldur en enn hefur gengið ef þetta á að komast í gagn 1976, hálf virkjunin, en báðar vélarnar hafa verið pantaðar og ég veit ekki annað en þær komi til landsins í febrúar n. k. Ákaflega hef ég litla trú á og það má þá vera einstakur dugnaður og einstök heppni, miðað við það sem enn hefur gengið, ef þessi virkjun verður komin öll í gagn eftir 2 ár, eins og nú er verið að tala um. En þeir fjármunir, eins og ég nefndi áðan, eru gífurlegir sem þarna er um að tefla, og byggðalínunni er ætlað að flytja undarlega lítið, eftir því sem ráðh. nefndi hér áðan, eftir þeim kostnaði sem þar er sagður vera kominn líka. — En ég þakka fyrir upplýsingarnar. Þær voru fróðlegar.