02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

294. mál, byggðalína

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Vera má að ég þyki fara út fyrir spurningakerfið með fsp. minni nú eins og áðan, en það verður þá að hafa það. Ég held að fleiri brjóti þær reglur en ég.

Ég hef leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hvað er hinni svonefndu byggðalínu til Norðurlands ætlað að flytja mikið rafmagn? Hvenær er áætlað nú að lagningu hennar ljúki? Hve mikið hefur hún kostað og hve mikið er áætlað nú að hún kosti fulllögð?“

Ástæðan til fsp. minnar er í fyrsta lagi sú, að á reiki hefur verið í frásögnum hver flutningsgetan eigi að verða, og hafa verið uppi tölur frá 20–50 mw. Í öðru lagi er vitað að lagningu línunnar hefur seinkað og jafnvel kvittur uppi, að um sinn verði staðar numið við Blönduós og staurana, sem áttu að fara í það að framlengja línuna frá Blönduós til Varmahlíðar, eigi nú að taka í línuna frá Kröflu til Akureyrar, því að hana er ekki farið að leggja. Rétt vitneskja og nákvæm er almenningi hollari en sögusagnir og hlaupafréttir. Þá er fullvíst að kostnaður við byggðalínuna hlýtur að hafa hækkað stórlega vegna hækkaðs verðlags- og kaupgjalds og væntanlegum notendum þessa línurafmagns þá fróðlegt að vita hver línukostnaður er orðinn nú og hver hann er áætlaður að verða að lokum, eins og nú horfir.

En síðasta og ekki sísta ástæða spurninga minna er þessi: Þegar núv. stjórn tók við völdum leitaði hún álits Laxárvirkjunarstjórnar, ef ég veit rétt, um það á hvern hátt hún teldi auðgerðast að bæta úr bráðustu orkuþörf á því virkjunarsvæði. Laxárvirkjunarstjórn benti á í fyrsta lagi stíflu í Laxárgljúfrum, 12–16 m háa, og var sú stífluhæð nefnd af tillitssemi við landeigendur. Þetta var talin langfljótvirkasta og langódýrasta úrlausnin, m. a. vegna þeirra mannvirkja sem fyrir voru og ekki eru fullnýtt. Ríkisstj. taldi þessa leið ófæra, vísast vegna fávísisamninga fyrrv. ríkisstj. við landeigendur við Laxá, en því kalla ég það fávísisamninga að ég hef gilda ástæðu til þess að ætla að ríkisstj., hefði hún nennt og viljað kynna sér málin vel, þá hefði hún aldrei gert þá samninga. Þá var stungið upp á lítilli skyndivirkjun í Bjarnarflagi eða við Kröflu sem bráðabirgðalausn, eða allur framkvæmdaþunginn yrði lagður á byggðalínu eða Kröfluvirkjun, og mun Laxárvirkjunarstjórn hafa litið svo á að ofrausn væri að ætla til hvors tveggja þegar við blasti fjármunakreppa, enda þegar í byggingu dísilúrlausn fyrrv. ríkisstj. þótt óhagkvæm væri og auðvitað ekki til langframa.

Eins og kunnugt er réðst núv. ríkisstj. í báðar úrlausnirnar, byggðalínu og Kröfluvirkjun. Ég er einn í þeim hópi sem tel að hér hafi ekki verið haldið af nægilegri fyrirhyggju og aðgæslu á málum. Ég vil með fsp. minni auðvelda mér og öðrum að dæma af svörunum hvort ég hef rétt fyrir mér eða ekki.