02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

294. mál, byggðalína

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Það er spurt: „Hvað er hinni svonefndu byggðalínu til Norðurlands ætlað að flytja mikið rafmagn? Hvenær er áætlað nú að lagningu hennar ljúki? Hve mikið hefur hún kostað og hve mikið er áætlað nú að hún kosti fulllögð?“

Það er áætlað að norðurlínan flytji fulllögð með 132 kílóvolta spennu allt að 60 mw. milli Suðurlands og Norðurlands. Gert er ráð fyrir að lagningu syðri hluta hennar, þ. e. frá Andakílsárvirkjun norður í Hrútafjörð, ljúki í vetur. Lokið er að reisa stam.a á verulegum hluta kaflans frá Hrútafirði að Laxárvatni. Á næsta ári er áformað að ljúka þeim kafla svo og áfanganum frá Laxárvatni til Varmahlíðar. Þar verður norðurlínan tengd línunni milli Varmahlíðar og Akureyrar. Gert er ráð fyrir að þessum framkvæmdum verði lokið síðla næsta árs. Yrði þá hægt að reka línuna milli Andakíls og Akureyrar með 132 kílóvolta spennu með bráðabirgðatengingu. Þá er eftir að gera kaflann milli Grundartanga og Andakíls, og hefur verið reiknað með að það verk yrði unnið árið 1977 og línan að öðru leyti fullgerð. Þó þarf að athuga nánar þá tímaáætlun.

Skv. upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins var áfallinn kostnaður við lagningu línunnar hinn 1. nóv. s. l. 657.8 millj. kr. Heildarkostnaður við sjálfa línulögnina er áætlaður 1300 millj. kr. Þar að auki er kostvaður við spennistöðvar og er þar innifalið nokkuð af rafbúnaði fyrir dreifireitur í héruðum.