02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

294. mál, byggðalína

Stefán Jónsson; Herra forseti. Ég hygg að það sé nú rétt hjá hv. þm. Braga Sigurjónssyni að ekki hafi verið með öllu heppilegt að breyta þeirri röð á fyrirspurnum hans sem hann ætlaðist til að á þeim væri. Ég er þeirrar skoðunar að honum hefði betur tekist að byggja upp æskilegan stígandi, eins og þeir segja á bókmenntamáli, með þessum tveimur fyrirspurnum ef hann hefði fengið að ráða röðinni, þannig að hann hafi fengið að spyrja fyrst um byggðalínuna.

Tilgangurinn með báðum spurningunum virðist fremur vera ákveðin gróin árátta heldur en forvitni um það hversu gangi virkjunarframkvæmdir á þessu svæði eða jafnvel áhugi fyrir því að bæta úr brýnni raforkuþörf, sem það bendir til að enn getur hann ekki stillt sig um að reyna að vekja upp deilumál varðandi virkjun Laxár. Ljóst mál er að hefðu ekki verið gerðir þeir samningar, sem hann kallaði fávísisamninga, af fyrri ríkisstj. varðandi lausn Laxárdeilunnar, þá hefði alls ekkert vatn fengist á stóru vélarnar sem settar voru niður í heimildarleysi við Laxárgljúfur.

Ég ítreka það, þeir sem í rauninni vilja stuðla að lausn raforkuvandamála í Norðurl. e., þeir gera vel í því að reyna ekki að rífa ofan af fleiðrunum sem mynduðust í Laxárdeilunni nyrðra.

Svo, úr því að ég er kominn hingað upp á annað borð, þá ætla ég að víkja aðeins að ræðu hans um Kröfluvirkjun. Ég er eins og hann uggandi um hversu af reiði. Ég hefði viljað, að lengri tími hefði gefist til þess að framkvæma þarna rannsóknir. Hann gafst ekki. Þörfin var orðin ákaflega brýn, m. a. vegna þess hvernig fyrirtæki það, sem hafði tekið að sér og vildi sitja eitt að því að miðla raforku á þessu svæði, hvernig þetta fyrirtæki hafði staðið að raforkumálum norðlendinga. Þau voru komin í öngþveiti.

Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að fylgjast með framkvæmdum við Kröfluvirkjun. Ég hef rökstudda ástæðu til þess að ætla að myndarlega hafi verið staðið að þeim af talsverðum dugnaði. Ég hef ekki heldur haft tækifæri til þess að fylgjast með ráðdeild hv. þm. Jóns Sólness í þessu máli. En ég tel það algjört drengskaparatriði að taka ekki undir þrælundirbúin rógsmál úr blöðum — úr blaði hv. þm. Braga Sigurjónssonar fyrir norðan um Jón Sólnes í þessu sambandi. Komi það í ljós að honum hafi orðið á skyssa þarna, hafi farið eitthvað óvarlega eða klaufalega, þá mun ég taka þátt í því að skamma hann. Undir svona rógsmál tekur enginn almennilegur maður.