02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

294. mál, byggðalína

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Ég hefði nú kannske átt að geyma mín orð ef einhverjir fleiri ætla að tala hér, en ég ætlaði aðeins að þakka fyrir upplýsingar ráðh. Svo þykir mér gaman að ég er búinn að eignast sérfræðing í hugsunum mínum hér á Alþ., því þetta er í annað skipti sem hv. þm. Stefán Jónsson kemur hér upp og segist vita hvað Bragi Sigurjónsson hugsi í þessu eða hinu máli. Það er gaman að eiga svona sérfræðing, og ekki síst þegar það er jafngáfaður og orðhagur maður eins og Stefán Jónsson.

En ekki er það nú rétt hjá hv. þm. að ekkert vatn hefði fengist á vélarnar í Laxárgljúfrum þó að þessi samningur hefði ekki verið gerður. Ef nokkur nennir að hafa fyrir því að kynna sér þetta mál, þá vita allir að Laxárvirkjun var gerð á landi ríkisins og enginn gat bannað ríkinu að taka vatn á vélarnar þar.