02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

294. mál, byggðalína

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. forseti sleit umr. nokkuð fljótt í sambandi við fsp. um Kröfluvirkjun, en það var visst atriði í þessu sem ég vildi ræða. Að vísu ætla ég ekki að fara út í deilur við hv. 4. landsk. þm., enda er þess enginn kostur í þessum umr. eða þeim ræðutíma sem við höfum hér í sambandi við fyrirspurnir. Hins vegar finnst mér það ákaflega undarlegt þegar einn hv. þm. kemur hér upp og segir okkur að hann hafi „sagnaranda“ helst sér að leiðarljósi, og mætti kannske sitthvað fleira um það atriði segja. En það, sem var efnislega alvarlegt í þessu máli, það er að hann gaf fyllilega í skyn að það yrði ekki nægileg gufa til þess að drífa þessa miklu aflstöð sem þarna á að reisa á Kröflusvæðinu. En ég held að hv. þm. viti vel að hann fer ekki með rétt mál. Auðvitað getur sagnarandi hans sagt honum eitt og annað. En ég verð nú að segja það, að sá sagnarandi er ekki mikils virði, og raunar held ég að ég gæti næstum nafngreint hann og ættfært hver sá sagnarandi er.

En það, sem ég vildi segja í sambandi við gufuöflunina, er að Orkustofnunin hefur gefið út álit sitt um þetta og hún hefur fullvissað Kröflunefnd um að það verði til nægileg orka á árinu 1976 til þess að drífa þá stöð sem þarna á að reisa, — nægileg til þess að drífa fyrri vélasamstæðuna og nægileg til þess að prófa báðar vélasamstæðurnar.

Ég vil segja um gufuöflunina það, að fyrsta holan, fyrsta vinnsluholan, sem boruð var, hún gekk ákaflega vel, og það er meira en 5 mw. orka í þeirri holu, og í raun og veru var orkan í þeirri holu miklu meiri en sagnarandi hv. þm. gerði ráð fyrir. Um aðra holuna er það að segja, að orkan þar var svo gífurlega mikil að Orkustofnunin var hreinlega ekki við því búin að mæta henni og er að búa sig undir að geta búið svo um holuna að orkan þar nýtist. Þriðja holan hefur verið undirbúin og búið að bora niður á ca. 800 m dýpi, og það verður haldið áfram með hana á næsta ári. Það verður undirbúin fjórða holan sem hægt verður að byrja á strax þegar lokið er þeirri þriðju, og þannig verður haldið áfram næsta sumar og fram á haust og kannske fram á vetur við að bora, og þá er ég sannfærður um að það verður nægileg orka á þessu svæði. Og ég vil nú biðja ágætan kunningja minn, hv. 4. landsk. þm., að taka meira mark á því sem kemur frá Orkustofnun heldur en einhverjum ónafngreindum sagnaranda sem hann kann að eiga einhvers staðar norður í landi.