02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

294. mál, byggðalína

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það var að heyra á hv. fyrirspyrjanda, Braga Sigurjónssyni, að hætta væri á því að of mikil raforka yrði á Norðurlandi innan skamms, vegna þess að það væri verið að leysa sama vandamálið með tvennum hætti, annars vegar með byggðalínu og hins vegar með Kröfluvirkjun. Þetta höfum við oft heyrt áður, ekki síst frá alþfl.-mönnum á Norðurlandi, en ég stend hér upp til að benda á að þetta er algjör misskilningur. Byggðalínan er ekki reist fyrir norðlendinga sérstaklega. Hún er ekkert frekar fyrir norðlendinga heldur en sunnlendinga. Þessi líma er reist vegna þess að hún eykur rekstraröryggi rafveitna bæði á Norðurlandi og Suðurlandi. Hún jafnar út orkuafganga og stóreykur nýtingu orkunnar. Sérfræðingar í raforkumálum hafa lagt á það áherslu að þó að reistar verði rafvirkjanir í öllum landsfjórðungum, þá yrði samt byggð stofnlína sem tengi saman öll orkuveitusvæðin á landinu, og þeir vilja meira að segja fá hálfan hringinn, þ. á m. stofnlínur til Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða, á næstu 2–3 árum. Ef menn telja að við höfum ekki efni á því að ráðast í þetta nauðsynlega verk á þessu ári eða hinu næsta, þá geta menn út af fyrir sig ákveðið að bíða með byggðalínuna, en hitt er ljóst, að Kröfluvirkjunin er það nauðsynlegasta sem verður að ráðast í og byggðalínan kemur þar af leiðandi ekki því máli beinlínis við.

Ég er þeirrar skoðunar eins og margir aðrir að línutengingin megi ekki dragast lengur, fyrst og fremst frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, ekki frá sjónarmiði norðlendinga sérstaklega, til þess að unnt sé að fullnýta húshitunarmarkaðinn og skapa fullt rekstraröryggi rafveitna um allt land og minnka dísilkeyrsluna. Og það er af þessari ástæðu sem ég legg á það áherslu að lagningu byggðalínunnar verði lokið sem fyrst — og ekki nóg með það, heldur verði haldið áfram að reisa slíkar línur bæði til Austfjarða og Vestfjarða núna á næstu 2–3 árum.

Ég bendi á það um leið, að það er líklegt að byggðalínan borgi sig á tiltölulega fáum árum, og ekki er ólíklegt að bygging byggðalínunnar muni einnig fresta byggingu virkjunar hér á Suðvesturlandi um einhvern tíma eftir að Sigölduvirkjun er komin í gagnið.

Með þetta allt í huga kemur það áreiðanlega fleirum en mér spánskt fyrir sjónir að þeir alþfl.-menn skuli vera að skamma hæstv. iðnrh. fyrir of miklar orkuframkvæmdir á Norðurlandi. Það er óskiljanleg afstaða. Nær væri að þeir gagnrýndu hæstv. iðnrh. fyrir að vinna of slælega að því að koma þeirri orku í gagnið sem á boðstólum verður eftir tilkomu Kröfluvirkjunar. Í húsahitunarmálum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, í uppbyggingu dreifikerfis víðs vegar um land hefur hæstv. iðnrh. því miður ekki staðið sig nægilega vel. Því miður hef ég ekki tíma til þess að rökstyðja það nánar, en það hefur verið oft áður rætt hér í þinginu. Of mikið orkuframboð á Norðurlandi á næstu árum stafar ekki af því að það hafi verið virkjað of mikið, heldur af hinu, að það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir í tæka tíð til þess að hagnýta þessa orku m. a. til húshitunar á Norðurlandi og víðar.