02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

296. mál, Bessastaðaárvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Fyrirspurnin er svo hljóðandi: „Hvað hefur miklum fjármunum verið varið á þessu ári til athugana og undirbúnings Bessastaðaárvirkjunar í Fljótsdal, þar með talin vegagerð?“

Á s. l. sumri var unnið að margvíslegum rannsóknum á virkjunarstaðnum og komið upp nauðsynlegri aðstöðu fyrir starfsmenn. Þá hefur verið unnið að vegagerð á væntanlegu virkjunarstæði. Þessum framkvæmdum er lokið í ár, en nú stendur yfir úrvinnsla þeirra gagna, sem aflað hefur verið, og gerðar áfangaskýrslur, sem talið er að lokið verði nokkru eftir áramót.

Kostnaður við undirbúning virkjunarinnar og rannsóknir nemur samkv. upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkisins: vegagerð 35.2 millj., hönnunarkostnaður 34.2 millj., rannsóknarboranir 19.6 millj., vinnubúðir o. fl. 47.3 millj. Samtals 136 millj. rúmar. Í samræmi við lántökuheimild í fjárlögum og lántökuheimildir til orkumála skv. lögum nr. 11/1975 var ákveðið að lántaka vegna undirbúnings Bessastaðaárvirkjunar í Fljótsdal skyldi vera 150 millj. kr., og hefur það fé verið notað í þessu skyni.