15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

7. mál, almenningsbókasöfn

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Það er áreiðanlega öldungis rétt hjá hæstv. menntmrh. að brýna nauðsyn ber til þess að endurskoða gildandi lög um almenningsbókasöfn. Fyrsta löggjöfin, sem sett var um almenningsbókasöfn, var sett í menntmrh.-tíð Bjarna Benediktssonar, það mun hafa verið árið 1955. Meðan ég gegndi því starfi fór fram gagnger endurskoðun á lögunum, það mun hafa verið 1963 sem ný lög voru sett um þau efni. Síðan er liðinn meira en áratugur og því fyllilega tímabært orðið að endurskoða þessi lög og mátti ekki seinna vera.

Sú meginstefna, sem mörkuð er í þessu frv. er án efa líka skynsamleg, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir. Það er rammalöggjöf um almenningsbókasöfn, og síðan er gert ráð fyrir því að með reglugerð verði skipað einstökum atriðum á þessu sviði íslenskra menningarmála, sviði sem fer sífellt vaxandi að þýðingu og mikilvægi í íslensku menntalífi og íslensku þjóðlífi.

Þetta frv. ber töluna 7. mál Alþingis og var lagt fram, að ég held, á fyrsta starfsdegi þingsins. En á sama degi var lagt fram annað frv. sem ber töluna 1, 1. þingmál hæstv. ríkisstj. sem einnig flytur þetta frv., það er frv. til fjárl. fyrir árið 1976. Með frv. um almenningsbókasöfn er fskj. um rekstrarfjárframlög skv. frv. og er það miðað við manntal 1974. Þar er gert ráð fyrir því að fjárframlög alls til safnastarfseminnar eigi að nema 276 millj. kr. samkv. frv., 276 millj. 175 þús. kr., þar af eigi bæjar- og sveitarfélög að leggja fram 202 millj. 373 þús. kr., sýslur 4762 þús. kr. og ríkið 69 millj. 40 þús. kr., auk 12 millj. kr. framlags í Rithöfundasjóð. Er því gert ráð fyrir að framlög ríkisins samkv. frv. á þskj. 5, útbýttu á sama degi og fjárlagafrv., eigi að nema 81 millj. 40 þús. kr. Þess er þó að geta að í 14. gr. frv., og það er síðasta setning þess frv., segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvæðin um fjárframlög koma til framkvæmda á þremur árum frá gildistöku laga þessara.“ M. ö. o.: ákvæði um 81 millj. kr. greiðsluskyldu eiga að koma til framkvæmda á þremur árum frá gildistöku þessa frv. sem gert er ráð fyrir að verði 1. jan. 1976. Ef deilt er með 3 í töluna 81 millj., þá koma út 27 millj. M. ö. o.: 1974 var gert ráð fyrir því að á fjárlagaárunum 1976, 1977 og 1978 skyldu vera 27 millj. kr. á ári í fjári. til almenningsbókasafna. Þegar höfð er í huga sú gífurlega hækkun sem orðið hefur á tölum fjárl., á launagreiðslum og verðlagi öllu frá því að þessi áætlun var gerð, þ. e. a. s. frá því í árslok 1974, þá gefur auga leið og þarf ekki mörgum orðum um það að fara að talan 27 millj. kr. árleg fjárveiting er aðeins hluti af því sem nú mundi vera nauðsynlegt á árunum 1976, 1977 og 1978 til að standa við ákvæði þessara gildandi laga. En ef við berum saman þskj. hæstv. ríkisstj. nr. 5 og þskj. hæstv. ríkisstj. nr. 1, þ. e. a. s. fjárlagafrv. sjálft, og flettum upp á siðu 31, þá stendur þar undir liðnum 981: Framlög til almenningsbókasafna samtals — sundurliðunina les ég ekki 10 millj. 135 þús. kr., m. ö. o. rúmlega þriðjungur af meira en tveggja ára gamalli verðupphæð.

Út af fyrir sig get ég vel skilið að hæstv. ríkisstj. hafi átt við ýmsa erfiðleika að stríða við að koma saman þessu fjárlagafrv. sem hún hefur sýnt okkur hv. þm. sem þskj. nr. 1. En hvað eiga slík vinnubrögð að þýða, að sýna þm. á sama degi með 6 númera mismun á þskj.- tölu frv. sem eru gerólík og ákvæði þessa þskj. nr. 7 og ákvæði þskj. nr. 1? Hvað eiga slík vinnubrögð að þýða? Eru þau fyrirboði þess sem á að koma um vinnubrögð hæstv. ríkisstj. á þessu háa Alþ.? Það er ekki óeðlilegt þótt einhverjum þm. detti í hug: Er verið að spotta þingheim? Eða hvern er verið að spotta með slíkum vinnubrögðum? Er verið að spotta sveitarfélögin með því að veifa framan í þau frv. um svo og svo mikil aukin framlög til jafnmikilvægs sviðs og almenningsbókasöfn eru? Er verið að spotta sjálfan almenning í landinu? Er verið að sýna dómgreind hans slíka fyrirlitningu að því verði tekið þegjandi, að því verði tekið án aths., að á sama degi skuli ríkisstj. sýna mál sem eru jafngerólík og þetta frv. um almenningsbókasöfn annars vegar og fjárlagafrv. hins vegar? Á sama tíma bendir ríkisstj. í tvær áttir varðandi stefnu í fjárveitingum og þá kannske í efnahagsmálum yfir höfuð að tala. Ég vildi óska þess að hvorki þing né þjóð ætti það í vændum að þessi fáránlegu vinnubrögð, þessi hlægilegu vinnubrögð, þessi vinnubrögð sem liggur við að séu móðgun við bæði þing og þjóð, þau séu fyrirboði þess sem koma skal.