15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

7. mál, almenningsbókasöfn

Gils Guðmundsson:

Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður, en vil þó ekki láta hjá líða að segja fáein orð um þetta mál.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hversu mikilvægur þáttur menningarlífs almenningsbókasöfn eru í nútíma þjóðfélagi, bæði í nálægum löndum og hér á landi, þó að mikið hafi skort og skorti á að mikilvægi þessa þáttar hafi verið metið og að hann hafi fengið að njóta sin eins og skyldi. Þetta er alveg óumdeilanlegt og þarf ekki að hafa um mörg orð, að mikilvægi bókasafna hefur farið stórvaxandi á undanförnum árum og á enn eftir að vaxa, þegar þörfin fyrir endurmenntun og símenntun er augljósari en nokkru sinni fyrr.

Sú löggjöf, sem á sínum tíma var sett um almenningsbókasöfn, var hin þarfasta. Hún var svo endurskoðuð, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, fyrir að ég hygg 12 árum og hefur komið að verulegu gagni þrátt fyrir það að alltaf hafi verið um fjárskort að ræða til þessarar starfsemi, þó að hann hafi nú farið stöðugt vaxandi síðustu ár og keyri um þverbak nú.

Ég fagna því að þetta frv., sem hefur legið fyrir tveimur eða þremur undanförnum þingum, skuli nú komið fram þegar í upphafi þings og vona að það verði nú engin vandkvæði á því að það verði samþykkt og gert að lögum fyrir áramót. Ég sé ekki að það geti verið nein vandkvæði á því.

Þetta er, eins og hæstv. menntmrh. skýrði frá, rammalöggjöf. Ýmislegt um framkvæmdaatriði á að koma í reglugerð og er það í sjálfu sér eðlilegt og ekkert við því að segja. En kjarni málsins er sá og hefur raunar verið sá, að það skortir fé til safnanna til þess að þau geti gengt því mikla og mikilvæga hlutverki sem þau eiga að gegna og gætu gegnt, ef fjármagn væri fyrir hendi.

10 millj. kr. til allra almenningsbókasafna á landinu er sú upphæð sem hæstv. ráðh. sagði að hefði verið veitt til safnanna á yfirstandandi ári, að ég hygg, og það er sama upphæðin í fjárlagafrv. sem verið var að sýna okkur nú, eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason benti á. Það er sama upphæðin. Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, eru ákvæði um fjárframlög í 8. og 9. gr. frv., og ég vil segja það, að ég tel að það sé út af fyrir sig í þessum greinum, þegar við lítum á þær einar, allmyndarlega að því staðið og þó á engan hátt ofgert í því að tryggja almenningsbókasöfnum töluvert aukin fjárráð frá því sem verið hefur. Miðað við það eymdarástand, sem nú er í þessum efnum, er þó allmyndarlega að verki verið og ég fagna alveg sérstaklega þeim lokaákvæðum 8. gr., þar sem segir að þessi lágmarksfjárframlög sveitarfélaga skuli endurskoðuð árlega og færð til samræmis við verðlag í landinu samkv. útreikningum Hagstofu Íslands. Þetta tel ég mjög gagnlegt og nauðsynlegt ákvæði. Það ætti þá líka að koma af sjálfu sér að ríkisframlagið hækkaði þar sem það er ákveðið hlutfall af tekjum bókasafnanna. Þessu ber að fagna. En ég verð að segja það, að 14. gr. frv. dregur býsna mikið úr fögnuðinum sem annars væri ástæða til að láta í ljós, þar sem það er ákveðið samkv. 14. gr. að þessi ákvæði um fjárframlög skuli koma til framkvæmda á þremur árum frá gildistöku laga þessara. Sannleikurinn er sá að almenningsbókasöfn hafa orðið að bíða svo tengi að þetta er allt of langur tími til þess að það frv. komi til fullra framkvæmda sem hér er um að ræða. Það hefði ekki veitt af því að það kæmi til fullra framkvæmda þegar á næsta ári. A. m. k. sýnist mér að 3 ár séu allt of langur tími.

Ég vil lýsa fylgi mínu við frv. að meginstefnu til og leggja á það áherslu að það verði nú samþ. og það fyrir jól. Ég tel hins vegar mjög brýnt og alveg óhjákvæmilegt að sú n., sem fær málið til meðferðar, taki 14. gr. frv. til athugunar og breyti henni þannig að þetta frv. komi til framkvæmda, helst að fullu, þegar á næsta ári, en ef það með tilliti til sveitarfélaganna þætti nokkrum erfiðleikum bundið, þá væri þó aðlögunartíminn ekki lengri en tvö ár.

Að síðustu vil ég aðeins beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. sem ég hef ekki við fljótan yfirlestur getað fengið svar við í frv. sjálfu, hvort það sé þá alveg ljóst að þessi aðlögunartími, þ. e. a. s. þessi þriggja ára tími, verði þannig að 1/3 af hinum auknu fjárframlögum komi til framkvæmda á hverju ári eða hvort það geti farið eftir einhverju öðru, t. a. m. því hvernig hæstv. fjmrh. metur stöðuna hverju sinni, hvort það verður einhver annar háttur þarna á hafður, þetta virðist ekki vera ljóst, eða hvort það gæti jafnvel farið svo að þetta komi lítt til framkvæmda á næsta ári og bíði þá hinna síðari áranna tveggja að koma til verulegra framkvæmda.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira. Ég lýsi fylgi við meginstefnu frv., tel að það þurfi að verða sem allra fyrst að lögum, það hafi liðið allt of langur tími sem þessi lög hafa verið mjög lítt virk. En ég tel, að ákvæði 14. gr. þurfi tvímælalaust endurskoðunar við.