02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

47. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svarið eða réttara sagt tilraunina til svars, því að þar sem ekkert hefur verið gert er náttúrlega ekki hægt að segja frá neinu.

Þm. voru um það sammála á síðasta þingi að hér væri um að ræða algjört sanngirnismál og að undanþágur af afnotagjöldum ætti að gefa til að búa betur að því fólki sem býr við þröngan kost og hefur ekki sjálft möguleika á að greiða þessi gjöld, þótt augljóst sé hve mikla þörf það hefur fyrir síma. Ég bendi á að tekjutrygging nemur nú 29 þús. kr. á mánuði til einhleypinga og rúmu 51 þús. til hjóna.

Svar það, sem hæstv. samgrh. vitnaði í, frá póst- og símamálastjóra tel ég aðeins vera undanslátt og tillögur hans alls ekki í anda laganna. Það að hækka uppbætur í staðinn er aðeins tilfærsla á peningum. Og sú skýring sem komið er með í sambandi við tekjurýrnun, er í raun og veru ekki tekjurýrnun, vegna þess að þessar tekjur koma ekki til Pósts- og síma þegar fólk hefur ekki efni á að hafa símann. Lög koma ekki að gagni nema þeim sé framfylgt, og það er jafnlitið gagn að síma sem lofað er einhvern tíma í framtíðinni, en er ekki til taks þegar þörfin kallar. Ég vona að loforð hæstv. ráðherra um frekari athugun á þessu máli standist.