02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég er ekki að gera hv. þm. upp skoðanir, en bendi á það, að þegar hann fer fram á endurtekningu þessarar dagskrár, þá fjasar hann jafnframt um það að hundruð milljóna og jafnvel milljarðar fari í það að styrkja stúdenta við Háskóla Íslands. Svo á að endurtaka dagskrána, skilst manni, til þess að almenningur geti sagt álit sitt. (Gripið fram í: Hvað er það? Er það ekki lýðræði?) Ég held nú að það, sem vakir fyrir hv. þm., sé að koma af stað skrifum í vissan dálk í Morgunblaðinu, „Húsmóðir í Vesturbænum“ og fleiri slíkir eiga að heimta það að við þingmenn skerum niður fjárveitingar til háskólastúdenta, og við eigum svo að fara eftir því.