02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

83. mál, áætlanagerð í flugmálum

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt þm. Jóni Skaftasyni, Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni lagt hér fram till. til þál. um áætlanagerð í flugmálum. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta gera fjögurra ára framkvæmda- og fjármögnunaráætlun um flugmál.“

Eins og fram kemur í grg. með till. er hugmyndin með tillöguflutningi þessum fyrst og fremst sú að langtímaáætlun verði gerð um fjármögnun og framkvæmdir í flugmálum, svipað og nú hefur verið gert um nokkurt skeið í vega- og hafnamálum. Að þeim áætlunum hefur verið talinn mikill ávinningur, og jafnvel þó að áætlanir séu ekki einhlítar og framkvæmdir verði að fylgja á eftir er enginn vafi um það, að áætlanir eru öruggasta leiðin til skipulegra og markvissra vinnubragða, jafnframt því sem í góðri áætlun felst stefnumörkun.

Fjölmörg verkefni eru óleyst á sviði flugmála, og hygg ég að óhætt sé að fullyrða að öllum þeim, sem að flugmálum starfa, muni þykja mikill fengur að slíkri áætlun. Áætlun mundi raða verkefnum í forgangsröð og tryggja að það fé, sem til ráðstöfunar í flugmálum er hverju sinni, nýtist sem best.

Í grg. er gert ráð fyrir að áætlun nái m. a. til eftirtalinna atriða: 1) Fjármögnunar. 2) Flokkunar flugvalla. 3) Flugvallagerðar. 4) Flugskýla, flugstöðva og viðhaldsaðstöðu. 5) Öryggisbúnaðar flugvalla og flugumferðarþjónustu.

Að sjálfsögðu eru fjölmörg verkefni sem drepa mætti á í flugmálum, og verður hér aðeins minnst á fá þeirra.

Aðalinnanlandsflugvöllur íslendinga er í Reykjavik og framtíð flugvallarins er í mikilli óvissu. Mikið er rætt um nauðsynlegar öryggisráðstafanir á flugvellinum, þ. á m. breytingar á flugbrautum, og er í því sambandi nú aðallega rætt um skekkta austur-vesturbraut, þ. e. a. s. að skekkja eða breyta stefnu núverandi austurvesturbrautar, eða gerð nýrrar fjörubrautar. Er hér um að ræða mjög verulegar framkvæmdir ef að veður. Jafnframt er ljóst, þegar rætt er um þennan aðalinnanlandsflugvöll íslendinga, að mikil og góð samvinna þarf að vera á milli Reykjavíkurborgar og flugmálayfirvalda, þannig að ekki verði þrengt meira að Reykjavíkurflugvelli en þegar hefur verið gert, á meðan engin áform eru uppi um annan flugvöll, en eins og flestir vita eru nú á döfinni áætlanir um vegagerð og byggingar í nágrenni flugvallarins. Flestir munu gera ráð fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur muni áfram gegna sínu hlutverki, a. m. k. til aldamóta, en sambúðin milli flugvallarins og borgarinnar er erfið og enginn veit hvað við tekur þá.

Flugskýli á Reykjavíkurflugvelli eru gömul. Viðhald þeirra hefur verði mjög takmarkað, járn á þeim er lélegt og burðargrindur ryðgaðar. Viðhaldsaðstaða flugvéla á Reykjavíkurflugvelli er allsendis ónóg, eftir að flugskýli 5 á vellinum brann hefur nýtt skýli ekki verið reist, og aðbúnaður allur til vinnu er mjög slæmur. Í þessu sambandi kemur raunar fram sú spurning hver eiga skuli byggingar á Reykjavíkurflugvelli, hvort það skuli vera ríkið eða flugfélögin, notendur skýlanna, og í framhaldi af því, að leigugjöld þeirra skýla, sem nú eru á vellinum, eru svo lág að tæpast munu duga fyrir fasteignagjöldum, hvað þá eðlilegu viðhaldi. Flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli, sem er aðalinnanlandaflugstöð hér á landi, er gömul bygging og léleg. Þar er raunar skúr við skúr og gárungarnir nefna bygginguna skúraleiðingar. Öll aðstaða þar er ófullnægjandi. Slökkvilið vallarins er í gömlum bragga, og þannig mætti lengi telja.

Fjölmörg verkefni blasa jafnframt við í flugmálum á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni. Nú er mikið rætt um aðskilnað farþegaflugs og flugs á vegum varnarliðsins. Í því sambandi þarf að byggja nýja flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli og er þar um að ræða feiknalega framkvæmd með þeim framkvæmdum sem því nauðsynlega fylgja. Viðhaldsaðstaða er slæm fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli, en viðhaldsaðstaða fyrir flugvélar hlýtur að koma inn í allar umr. um flugmál því að þar er um stórmál að ræða. Keflavíkurflugvöllur hefur verið skipulagður og ákveðin staðsetning nýrrar flugstöðvar og flugskýla. Núverandi aðstaða til viðgerða flugvéla á Keflavíkurflugvelli er slík að Flugleiðir hafa á leigu hluta af einu skýli, og er þar mjög brýnt að bæta úr. Jafnframt standa nú fyrir dyrum bráðabirgðabreytingar á núverandi flugstöð í Keflavík sem tæpast annar móttöku farþega þegar mest umferð er.

Að sjálfsögðu mætti lengi rekja fjölmargar nauðsynlegar framkvæmdir á flestum flugvöllum landsins. Flestir flugvellir eru malarflugvellir, sem í raun þýðir það, að skemmdir á flugvélum verða mjög miklar og aukið viðhald flugvéla. Á flestum flugvöllum úti um land vantar öryggissvæði bæði meðfram og við enda flugbrauta. Ef flugvél fer út af braut eða fram af stórskemmist hún í flestum tilfellum eða jafnvel gæti orðið slys. Ljósabúnaði er víðast mjög áfátt, aðflugstækjabúnaður er viðast af frumstæðustu gerð, og í því sambandi er vert að benda á skýrslu öryggisnefndar Félags ísl. atvinnuflugmanna, þar sem fjölmörg atriði eru talin sem flugmenn telja nauðsynlegt að úr verði bætt.

Jafnframt er gert ráð fyrir að áætlun um flugmál nái til atriða svo sem flugumferðarþjónustu, skipulagningar björgunar- og leitarþjónustu o. s. frv. Að sjálfsögðu verður áætlunin að ná til fjármögnunar framkvæmda sem væntanlega verður að mestu með framlögum ríkissjóðs, en álit flm. er að nauðsynlegt sé að tryggja framkvæmdum í flugmálum tekjustofna. Rétt er að benda á það að farþegagjald, sem nú er lagt á og áætlað er á fjárl. að muni nema á milli 230 og 240 millj. kr. og víða heyrist talað um að sé lítil fjárhæð og tæpast þess virði að leggja á, er þó svo mikið í samanburði við fjárveitingar, sem eru til framkvæmda í flugmálum, að til jafns má marka. Heildarfjárveiting til framkvæmda í flugmálum samkv. fjárl. er 252 millj. Það mundi því muna miklu, ef farþegagjald verður lagt á í framtíðinni, að það yrði lagt til framkvæmda í flugmálum. Mundi muna um tvöföldun framkvæmdafjár.

Að sjálfsögðu hefur mikið áunnist í flugmálum og þróun í flugmálum hefur verið mjög ör. Tillaga þessi fjallar um áætlanagerð. Flm. er ljóst að um lítið fé er að ræða til skiptanna við núverandi aðstæður, en flm. eru sannfærðir um að áætlanagerð muni tryggja sem besta nýtingu þess fjár sem unnt er að verja til þessara mála.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til allshn.