02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

59. mál, tekjustofnar sýslufélaga

Jóhannes Árnason:

Herra forseti. Þetta er í þriðja skipti sem till. til þál. svipaðs efnis og sú, sem hér liggur fyrir, er flutt á Alþ., um tekjustofna sýslufélaga. Á síðasta þingi átti ég sæti um skeið og flutti þá ítarlega framsöguræðu fyrir þeirri till. sem þá var til meðferðar, og ætla ég því ekki að hafa mörg orð um hana að þessu sinni, heldur vísa til þess sem í þingtíðindum stendur.

Ég vil til viðbótar því, sem hv. frsm., 4. þm. Vesturl., hefur hér sagt, segja það, að ég vil ítreka að hér er um þýðingarmikið mál að ræða og það er ekki að ástæðulausu að þetta mál er nú flutt hér í þriðja skiptið. Ef það er ætlun löggjafans að viðhalda sýslufélögunum í stjórnkerfinu, þá er óhjákvæmilegt að marka þessum sveitarstjórnareiningum, sýslufélögunum, nýja tekjustofna.

Nú er það svo að sveitarstjórnarlögin beinlínis gera ráð fyrir því að sýslufélögin hafi aðra tekjustofna en sýslusjóðsgjöldin sem löngum hafa verið þeirra aðaltekjustofn. Eins og hv. frsm. kom inn á, þá er í 101. gr. sveitarstjórnarlaga fjallað um tekjustofna sýslufélaga. Segir þar, að sýslunefnd skuli á aðalfundi semja áætlun um tekjur og gjöld sýslusjóðs fyrir yfirstandandi ár, og síðan segir: „Því, sem á vantar að tekjur sýslusjóðs hrökkvi fyrir útgjöldum hans, skal jafnað niður á hreppana“ eftir vissum reglum. Miðað við þetta orðalag virðist gert ráð fyrir, að sýslusjóðir njóti annarra verulegra tekjustofna. Svo hefur þó ekki verið. Sýslusjóðsgjaldið, þ.e, hið niðurjafnaða gjald á hreppana, yrði eina fjármagn að heita má sem sýslufélög hafa yfir að ráða. Þar sem um slíka niðurjöfnun gjalda er að ræða á fámenna og fátæka hreppa má geta nærri að álögum verður að stilla í hóf svo sem unnt er. Niðurstaðan verður því sú að sýslusjóðir hafa yfirleitt mjög litið fé til ráðstöfunar fram yfir brýnustu útgjöld.

Það heyrist oft um það rætt að sýslusjóðsgjöld og sýsluvegasjóðsgjöld séu há. Alkunn eru þau rök af hálfu hinna fjölmennari kauptúna og hreppa, að vegna þess sé eðlilegt að þau séu skilin frá víðkomandi sýslu og gerð að kaupstöðum, sérstökum lögsagnarumdæmum. Þess er skemmst að minnast, að á s. l. ári 1974 fengu 5 kauptún og hreppar kaupstaðarréttindi. Það voru Bolungarvík, Dalvík, Eskifjörður, Grindavík og Seltjarnarnes, og nú liggur fyrir Alþ. frv. til laga um kaupstaðarréttindi fyrir Garðahrepp. Í öllum þessum tilvikum hafa þessi sömu rök m. a. komið fram.

Ef ég vík aðeins að sýsluvegasjóðsgjöldunum í þessu sambandi, þá er því haldið fram að það sé óeðlilegt að hinir fjölmennari kauptúnahreppar þurfi að greiða til sýsluvega þar sem engir sýsluvegir séu í þessum sveitarfélögum. Þetta hefur út af fyrir sig við ákveðin rök að styðjast, svo langt sem það nær. Því kæmi til greina að mínu áliti að breyta vegalögum á þann hátt að hvert sveitarfélag njóti sem mest þeirra framlaga sem það leggur til vegamála. Þetta ætti að vera auðvelt með eðlilegri skiptingu á milli sýsluvegasjóða annars vegar og þéttbýlisvegafjár samkv. vegalögum hins vegar. Á sama hátt má ræða um sýslusjóðsgjaldið. Eins og ég gat um áðan á það aðeins að vera til vara, þ. e. jafna á því niður á viðkomandi hreppa þegar tekið hefur verið tillit til annarra tekjustofna sýslufélaganna sem sveitarstjórnarlög gera beinlínis ráð fyrir að þau hafi og geti byggt á við gerð fjárhagsáætlana sinna fyrir hvert ár. Þessir sérstöku tekjustofnar eru bara einfaldlega ekki til og því er þessi þáltill. nú flutt.

Til greina hefði komið að flytja um þetta atriði sérstakt lagafrv., en mér finnst eðlilegra að um það sé fjallað af félmrn. að höfðu samráði við sýslunefndirnar og aðra þá aðila sem þarna koma til greina. En eins og fram kemur í grg. þessarar þáltill., þá höfum við flm. bent á hluta af söluskatti í gegnum Jöfnunarsjóð og enn fremur framlög úr Byggðasjóði. Mætti hugsa sér að slík framlög úr Byggðasjóði væru tengd ákveðnum verkefnum í samræmi við markmið og tilgang Byggðasjóðs sem sýslufélögum yrði falið að sjá um í hverju héraði. Það er ljóst að slíkir auknir tekjustofnar ættu að leiða til þess að sýslusjóðsgjöldin gætu verið lægri og ásókn kauptúna og hreppa í að fá kaupstaðarréttindi þar af leiðandi minni.

Auðvitað getur það átt við rök að styðjast að kauptúnahreppur verði gerður að sérstökum kaupstað. Landfræðilegar ástæður geta vegið þar þungt á metunum. Nefni ég i þessu sambandi nýlegt dæmi um Bolungarvík sem áður tilheyrði Norður-Ísafjarðarsýslu. Þetta átti sérstaklega við eftir að Eyrarhreppur eða Hnífsdalur hafði verið sameinaður Ísafjarðarkaupstað. Af Norður-Ísafjarðarsýslu er þá aðeins eftir Súðavík ásamt sveitarhreppum við innanvert Ísafjarðardjúp. En það er skoðun okkar flm. þessarar till. að mjög víða á landinu hagi svo til að það sé hreint ekki æskilegt að rjúfa tengsl þéttbýlisstaðanna, kauptúnahreppanna af hinum ýmsu stærðum, og sveitanna í kring, heldur sé, eins og málum nú er komið í byggðaþróun, þvert á móti ástæða til að efla samstöðu hreppsfélaganna í hverri sýslu til lausnar þeim mörgu framfaramálum sem eru m.í þegar og verða í vaxandi mæli á næstunni mjög þýðingarmikil fyrir heil héruð og ljóst er að ekki verða leyst í hverju hreppsfélagi fyrir sig. Má þar nefna bæði heilbrigðisþjónustu, elliheimilismál, fræðslumál o. fl. Þessi héruð, sem myndast stundum af einum þéttbýliskjarna, stundum af tveimur og þremur, mynda eina viðskiptalega heild, og það er vafasamt að það sé til hagsbóta fyrir framþróun í þessum héruðum og eðlilega byggðaþróun að fara að höggva þar á hnút og gera þéttbýliskjarnann, kannske lítið kauptún með 800 eða 900 íbúa eða svo eða 1000 íbúa, að sérstöku umdæmi, heldur beri fremur að efla þessi héruð til sameiginlegra átaka.

Ég vil að lokum segja það sem mína skoðun, að það þarf að breyta kosningafyrirkomulagi til sýslunefnda og gera þær um leið virkari í störfum. Það er eins og hv. þm. vita, að nú er orðinn afar mikill mismunur á íbúatölu einstakra hreppsfélaga. Mér skilst að það sé allt frá jafnvel 20–30 íbúum í sveitarhreppum, sem eru við það að fara í eyði, og upp í kannske 3000 íbúa eða svo, svo sem er t. d. á Selfossi og enn fleiri í Garðahreppi sem nú er að verða að kaupstað. Þessar breytingar þurfa að miða að því að tengja betur saman sýslunefndir og hinar einstöku hreppsnefndir til að sýslunefndin geti í raun orðið samnefnari fyrir hreppana á svæðinu við meðferð þeirra mála sem leysa verður sameiginlega.