03.12.1975
Efri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

82. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 87 flyt ég ásamt 3 öðrum þm. Alþb. í þessari hv. deild frv. til l. um breyt. á l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks og á þskj. 86. flytjum við frv. til l. um breytingu á lögum um skemmtanaskatt. Þessi frv. eru hvort fyrir sig hluti sama máls. Þau eru flutt í því skyni að efla Byggingarsjóð aldraðs fólks svo að hann verði færari en nú að gegna því hlutverki að lána fé til byggingar og kaupa á íbúðum fyrir aldrað fólk og til byggingar dvalarheimila aldraðra. Ég mun undir þessum dagskrárlið gera grein fyrir báðum frv. þar sem þau eru í rauninni eitt mál.

Þess gerist ekki þörf að lýsa því fyrir hv. þdm. hversu mjög skortir á hvarvetna í landinu að aldrað fólk eigi þess kost að tryggja sér samastað og aðhlynningu í ellinni á þann veg sem það kysi helst sjálft. Þetta þekkja þm. hver úr sínu kjördæmi og vita hver þörf er á auknu fjármagni til úrbóta í þessum efnum. Að sjálfsögðu æskir flest fólk þess að geta sem lengst dvalist á eigin heimili eða með sínum nánustu. Hið eðlilega sambýli mismunandi aldursflokka og ættliða á sama heimill hefur þó verið að rofna með þjóðinni á undangengnum árum og áratugum. Jafnhliða þessum breytingum hefur of lítið verið að því unnið að gera því aldraða fólki, sem kysi að búa út af fyrir sig á eigin heimili, kleift að búa sem lengst að sínu. En þann tíma, sem það fólk gæti búið á eigin heimili, væri án efa unnt að lengja að marki með skipulagðri aðhlynningu og þjónustu í miklu ríkara mæli en nú er gert.

Fjárskortur þeirra, sem beita sér fyrir framkvæmdum í málefnum aldraðra, veldur því að þær lausnir hafa nær alfarið verið valdar lengst af að byggja elliheimili með sjúkrahússniði. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu ómanneskjuleg sú lausn er fyrir þá sem hafa heilsu til að búa í sérstökum íbúðum, væru þær fyrir hendi. Bygging íbúða í tengslum við þjónustumiðstöð er dýrari lausn en bygging elliheimila og hefur því orðið útundan.

Jafnvel þótt hinar ódýrari lausnir hafi verið valdar er skorturinn á vistrými fyrir aldrað fólk orðinn svo geigvænlegur að stærstu stofnanirnar, Elliheimilið Grund og Dvalarheimili aldraðra sjómanna hafa nú auglýst að ekki sé til neins að sækja um vist á þessum stofnunum þar sem árabil muni líða áður en unnt verður að sinna öllum þeim umsóknum sem nú þegar eru á biðlista. Þannig horfir í þessum málum í dag, að ekki er til neins að sækja um vist á þessum stóru stofnunum þar sem biðlistar eru svo langir. Er þó naumast unnt að hugsa sér óæskilegri lausn á vanda aldraðs fólks úti á landsbyggðinni en að þurfa að flytja úr sínum byggðarlögum til höfuðborgarinnar til að ljúka þar ævidögunum í framandi umhverfi og fjarri því fólki sem það hefur umgengist.

Hér er að sjálfsögðu, eins og á fleiri sviðum, kennt um fjárskorti opinberra aðila. En það fer naumast fram hjá neinum, að á sama tíma og sáralítið hefur verið gert til úrbóta á þessum sviðum hafa verið byggð 160 félagsheimili víðs vegar um landið fyrir þá sem rólfærir eru að stunda félagsstörf og skemmtanir og oft og tíðum hefur verið lítt til sparað við þær framkvæmdir í sveitarfélögum þar sem lítið eða ekkert hefur verið gert í málefnum aldraðra.

Framtak Alþingis með lagasetningu í því skyni að auka fjármagn til byggingar íbúða og dvalarheimila fyrir aldrað fólk hefur til þessa verið minna en skyldi. Þar hafa önnur málefni verið látin sitja fyrir, lengst af, enda hafa raddir hinna elstu þjóðfélagsþegna ekki verið háværastar þegar hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu hafa borið fram við Alþ. óskir sínar og kröfur um fjármagn til framkvæmda og þjónustu. Byggingarsjóður aldraðs fólks hefur verið nafnið tómt, en hins vegar hafa lög, sem sett voru árið 1973, um að ríkissjóður kosti 1/3 hluta framkvæmda í þessum efnum, orðið sveitarfélögum mikil hvatning til að hefjast handa. Það, sem á skortir, er að sveitarfélögum og öðrum, sem að byggingum í þágu aldraðra vilja standa, verði tryggður aðgangur að meira fjármagni til þessara framkvæmda en þau eiga kost á nú, svo að betur verði unnt að fylgja eftir þeirri hvatningu sem felst í ákvæðum laga frá 1973 um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við þessar framkvæmdir. Með einhverjum hætti verður að beina auknu fjármagni til framkvæmda sem miða að því að gefa öldruðu fólki kost á mannsæmandi aðbúnaði, þegar því er lengur kleift að halda heimili með sama hætti og fyrr á ævinni. Margar leiðir koma sjálfsagt til greina, en við flm. þessa frv., sem hér er til umr., leggjum til að Byggingarsjóður aldraðs fólks verði efldur með sérstakri skattheimtu. Byggingarsjóður aldraðs fólks var stofnaður með lögum 1963 og ætlað það hlutverk að lána fé til byggingar eða kaupa á íbúðum fyrir aldrað fólk og til byggingar dvalarheimila aldraðra. Tekjur sjóðsins eru þó ekki ákveðnar aðrar en hluti eða 40% af ágóða Happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna, svo að með þeim hætti var í raun og veru engu nýju fjármagni beint til þessara framkvæmda, heldur einungis ákveðið að verja hluta af ágóða happdrættisins til sömu markmiða, en til annarra aðila en þeirra sem til þess tíma höfðu byggt dvalarheimili fyrir allan ágóðann og þá eingöngu hér í Reykjavík. Með lagasetningunni um Byggingarsjóð aldraðs fólks hefur verið talið líklegra að einhver hluti þessa fjár yrði fremur en áður notaður til framkvæmda úti á landi, en heildarfjármagnið jókst ekki með tilkomu sjóðsins því að honum voru ekki tryggðir neinir aðrir tekjustofnar.

Heildartekjur Byggingarsjóðsins hafa verið afar naumir, námu t. d. árið 1972 alls 4.2 millj. og árið 1974 7 millj. kr. Lán hafa aðeins verið veitt til þriggja aðila, alls 8.2 millj. Ákvæðið í lögunum um lán til aldraðs fólks til kaupa á eigin íbúð hafa verið dauður bókstafur, vegna fjárskorts sjóðsins. Tilvist sjóðsins hefur því til þessa litlu sem engu áorkað til úrbóta í málefnum aldraðra. Sjóðurinn er lítið annað en nafnið tómt.

Eins og ég áður sagði, voru lögin um Byggingarsjóð aldraðs fólks sett árið 1963 og næstu 10 ár voru engar ráðstafanir gerðar af hálfu Alþ. til þess að beina auknu fé til úrlausnar í þessum vandamálum aldraðs fólks í landinu. Með setningu laga um dvalarheimili aldraðra árið 1973 var ákveðið að ríkissjóður greiði 1/3 hluta kostnaðar við byggingu dvalarheimila og íbúða fyrir aldraða og hefur í þessu skyni verið varið á fjárlögum 1974 og 1975 alls 55.9 millj. kr. Óhætt er að fullyrða að þessi lagasetning 1973 hefur mjög örvað aðila, sveitarfélög og aðra hvarvetna í landinu til framkvæmda á þessu sviði og margir eru nú að hefjast handa um að undirþúa framkvæmdir.

Þótt framlag ríkisins, greiðsla á 1/3 kostnaðar, hafi orðið til nauðsynlegrar örvunar, er útvegun nær 70% framkvæmdafjárins erfitt verkefni sveitarfélögum og öðrum sem hefðu hug á að beita sér fyrir framkvæmdum, og af þeim sökum mun ýmsum aðilum ekki verða kleift að nýta sér framlag ríkissjóðs þótt brýn þörf sé á framkvæmdum.

Með tilliti til þess neyðarástands, sem ríkir í þessum hagsmunamálum aldraðs fólks hvarvetna í landinn, er að dómi okkar flm. afar brýn nauðsyn á að með einhverjum hætti verði auknu fjármagni beitt til úrlausnar í þessum efnum. Að sjálfsögðu geta ýmsar leiðir komið til greina. Hugsanlegt væri að auka greiðsluhlut ríkissjóðs, en allir vita hvernig hann hefur verið leikinn að undanförnu og hvernig staða hans er nú. Það er því ekki till. okkar flm. að sú leið verði farin að þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdakostnaði verði aukin, heldur leggjum við til að Byggingarsjóður aldraðs fólks verði efldur með sérstakri skattheimtu á þann veg að fólk greiði nokkra upphæð til þessa málefnis þegar það sækir vínveitingastaði.

Í 2. gr. í núgildandi lögum um skemmtanaskatt segir að séu vínveitingar um hönd hafðar í veitinga- eða samkomuhúsi, án þess að skemmtanaskattur sé greiddur samkvæmt öðrum ákvæðum laga, skuli greiða 8 kr. í skemmtanaskatt og 2 kr. í Menningarsjóð fyrir hvern mann sem fær aðgang að húsinu að kvöldi, á þeim tíma sem ákveðinn er í reglugerð.

Í því frv., sem hér er til umræðu, er gert ráð fyrir að til viðbótar þeim 8 kr., sem skylt er að greiða með þessum hætti í skemmtanaskatt, og þeim 2 kr., sem greiddar eru í Menningarsjóð, skuli greiða 100 kr. í Byggingarsjóð aldraðs fólks. Með því að velja gjaldstofn sem þegar er notaður til skattheimtu ætti ekki að þurfa að koma til nýs innheimtukerfis vegna þessarar sérstöku skattheimtu.

Samkv. upplýsingum, sem aflað hefur verið um innheimtu af þessum gjaldstofni á árinu 1974, ættu tekjur í Byggingarsjóð aldraðs fólks, fengnar með þessu 100 kr. gjaldi að hafa numið um 65 millj. kr. eða nær tíföldum tekjum Byggingarsjóðsins á því ári. Þar sem skattgjaldið er hér miðað við ákveðna krónutölu er í frv. gerð till. um að því ákvæði verði bætt í lögin að krónutalan breytist í réttu hlutfalli við breytingar á skattvísitölu, í fyrsta sinn í ársbyrjun 1977. Hér er því lagt til að skattgjaldið breytist í réttu hlutfalli við breytingar á atvinnutekjum, þar sem skattvísitala breytist jafnt og meðaltekjur til skatts. Þetta ákvæði um breytingar á krónutölu skattsins til Byggingarsjóðs aldraðra mundi þá einnig gilda um hliðstæða skattheimtu samkv. þessari grein, þ. e. a. s. þær 8 kr., sem renna í skemmtanaskatt, og þær 2 kr., sem falla til Menningarsjóðs. Þessar upphæðir hafa rýrnað mjög að raungildi á undanförnum árum og er ekki ástæða til þess að svo skuli verða framvegis um þessi gjöld.

Við flm. teljum að svo mikilvægt sé að tryggja aukið fjármagn til framkvæmda við byggingu íbúða og dvalarheimila fyrir aldrað fólk að í því skyni sé réttlætanlegt að leggja nokkurt gjald á landsmenn í þau skipti sem þeir sækja vínveitingastaði. Með greiðslu þess gjalds eru viðkomandi aðilar í raun að safna í sjóð til elliáranna. Með nær tíföldum tekna Byggingarsjóðs aldraðs fólks teljum við fært að gera ráð fyrir því að heimiluð lán úr Byggingarsjóðnum megi hækka úr 20% framkvæmdakostnaðar í 40%, og jafnframt því er í frv. við það miðað að veðlán samhliða eða á undan láni úr Byggingarsjóðnum megi nema 40% í stað 60% samkvæmt núverandi lögum, en heildarverð, að meðtöldu láni frá byggingarsjóðnum, megi þá nema 80% kostnaðarverðs, eins og í núgildandi lögum. Með þeim tekjuauka Byggingarsjóðs aldraðs fólks, sem gert er ráð fyrir með flutningi þessa frv., gætu heildartekjur sjóðsins numið ríflega 70 millj. kr. á ári í stað 7 millj. kr. 1974. Ef sú upphæð væri lánuð til að standa undir 40% framkvæmda við byggingar íbúða eða dvalarheimila fyrir aldrað fólk svarar það til þess að slíkar framkvæmdir gætu numið um 175 millj. kr. á ári. Þær framkvæmdir yrðu þá fjármagnaðar með þeim hætti að frá ríkissjóði kæmu samkvæmt lögum um dvalarheimili aldraðra um 58 millj., lán úr Byggingarsjóði aldraðs fólks gætu numið 70 millj. kr., og kæmi þá í hlut sveitarfélaga, sem að framkvæmdum stæðu, að útvega með öðrum hætti um 47 millj. kr. En þá ber þess að geta, að sé um að ræða byggingar íbúða ættu að fást til þeirra framkvæmda lán úr Byggingarsjóði ríkisins eða hin svokölluðu húsnæðismálasjóðs lán.

Ég tel ekki þörf á að ítreka frekar ástæðurnar fyrir því að þetta frv. er flutt, þ. e. a. s. þörfina á auknu fjármagni til framkvæmda til byggingar íbúða og dvalarheimila fyrir aldrað fólk. Sú þörf er augljós og brýn. Og ekki síst er þess að vænta að með auknu fjármagni verði valdar hinar jákvæðari lausnir í þessum málum, þ. e. a. s. bygging íbúða fyrir hina öldruðu í ríkari mæli en bygging vistheimila með sjúkrahúsasniði.

Við flm. frv. bendum á ákveðna leið til úrbóta, ákveðna leið til að afla fjár. Sjálfsagt koma aðrar leiðir til greina, og við höldum því ekki fram að sú leið, sem við bendum á, sé hin eina rétta. En við væntum þess að sú nefnd, sem fær frv. til athugunar, hugi vel að þessu máli og bendi á aðrar leiðir til úrbóta, ef hún telur þessa ekki koma til greina.

Ég býst við því, herra forseti, að formlega væri rétt að vísa þessu frv. um breytingar á lögum um Byggingarsjóð aldraðs fólks til hv. félmn., en því frv., sem flutt er á þskj. 86, um breyt. á l. um skemmtanaskatt, hins vegar til hv. fjh.- og viðskn. Nú er flutningur beggja þessara frv. í rauninni eitt og sama málið og eðlilegast þess vegna, að sama n. athugi þau bæði. Líklega telst því eðlilegra að velja þá n. sem fjallar um skattheimtuna, fremur en þá sem ætti að fjalla um ráðstöfun fjárins. Geri ég það því að till. minni að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.